Fréttir frá 2005

11 16. 2005

RSÍ lætur gera gagnvirkan tölvudisk um nám og störf í rafiðnaðargeiranum

Diskurinn verður afhentur menntamálráðherra og iðnaðarráðherra við hátíðlega athöfn þ. 17. nóv. til notkunar í öllum grunnskólum landsins.Í tilefni af 35 ára afmæli Rafiðnaðarsambandsins var ákveðið að láta verða að því að búa til góða kynningu um störf í rafiðnaðargeiranum sem nota mætti í grunnskólum og framhaldsskólum.  Ákveðið var að nýta nýjustu tækni og setja efnið á gagnvirkan mynddisk, sem er sú tækni sem ungt fólk umgengst meir en aðrir aldurshópar. Starfsmenntun hefur á undanförnum áratugum í vaxandi mæli lent neðar á lista ungs fólks við val á námsbrautum.  Atvinnuástand innan rafiðnaðargeirans hefur ætíð verið mjög gott.  Meðaltekjur rafiðnaðarmanna eru töluvert hærri en margra háskólahópa og arðsemi náms í rafeindavirkjun er hæst af þeim námsbrautum sem framhaldsskólinn býður upp á eða 16% og rafvirkjar fylgja þar fast á eftir.  Arðsemi náms verkfræðinga er hæst háskólanáms eða um 20%, hjá læknum tæplega 20% og hjá viðskipta- og hagfræðingum er arðsemin svipuð og hjá rafvirkjum.   Til þess að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs verður að hámarka framleiðni fyrirtækjanna.  Það er ekki gert nema að þau geti tileinkað sér bestu tækni hvers tíma og til þess þurfa þau að fá þjónustu góða og velmenntaðra tæknimanna. Rafiðnaðarsamband Íslands hefur ætíð stutt ötullega við uppbyggingu íslenskra atvinnulífs með því að verja umtalsverðum fjármunum í menntastarf innan rafiðnaðargeirans.  Þetta hefur skilað sér í því að íslenskir rafiðnaðarmenn eru í dag meðal þeirra hæfustu í heiminum og eru að störfum um allan heim.  Til þess að viðhalda þessum árangri er nauðsyn að ná athygli ungs fólks þegar það velur sér námsbraut.  Rafiðnaðarmenn vilja að nám í geiranum sé meðal valkosta þeirra hæfustu.  Þeir vilja líka ná til kvenna, sem hafa í allt of litlum mæli litið rafiðnaðarins í leit að góðu starfi.  Til að ná þessu marki höfum var lagður mikill metnaður og vinna í að gera gagnvirkan mynddisk þar sem hið víðtæka og spennandi starfssvið rafiðnaðargeirans er kynnt á lifandi og aðgengilegan hátt ungum íslenskum námsmönnum.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?