Fréttir frá 2005

12 18. 2005

Forgangsverkefni að bæta aðbúnað aldraðra

Staða aldraðra hér á landi er skelfileg eins og við höfum séð í fjölmiðlum undanfarið. Ríkasta þjóð heims virðist ekki vera með neitt í undirbúningi til þess að ráða bót á þessu. Lífeyrissjóðirinir geta komið að þessum málaflokk og stendur örugglega ekki á þeim að veita þangað lánum, en það er rekstrarvandi hjúkrunarheimilana sem stjórnmálamennirnir verða að leysa áður. Það ætti að vera forgangsverkefni.Þau dæmi sem hafa verið rakin um stöðu aldraðra í fjölmiðlum undanfarið eru skelfileg. Það fer um mann að sjá þann aðbúnað sem því fólki sem byggði upp velferðaríkið Ísland er boðið. Það er okkur til vansa hvernig búið er að mörgum öldruðum, bæði í kjörum og aðbúnaði. Það er ótrúlegt að í dag sé öldruðum gert að búa í litlu herbergi með 2- 4 öðrum öldruðum, sem eiga við að stríða mismunandi vandamál og vanheilsu. Ríkasta þjóð heims virðist ekki vera með neitt í undirbúningi til þess að ráða bót á þessu. Það eru 500 á biðlista eftir hjúkrunarheimilum, þar af 270 í brýnni þörf. Áttatíu aldraðir eru nú á bráðadeildum sjúkrahúsa og bíða þar eftir dvöl á hjúkrunarheimilum.   Við eigum að sjá sóma okkar í því grípa til aðgerða strax og hefja uppbyggingu á viðunandi þjónustu og bættum kjör aldraðra. Það á að vera forgangsverkefni að útrýma ómanneskjulegum aðbúnaði aldraðra. Byggja á velbúin einbýli fyrir aldraða þar sem þeir geta lifað með reisn og fullri sjálfsvirðingu á sínu ævikvöldi. Það er með ólíkindum að ráðamenn virðist ekki hafa af þessu áhyggjur. Að láta aðhald í ríkisrekstri bitna svona harkalega á uppbyggingu hjúkrunarheimila er dýr sparnaður. Biðlistinn eftir hjúkrunarrýmum mun lengjast verði ekkert að gert. Barnasprengjan svokallaða, stóru árgangarnir, komast á ellilífeyrisaldur upp úr árinu 2010. Þá mun verða þörf fyrir töluvert meira hjúkrunarrými en nú er.   Sumir sem hafa tekið til máls um þennan málaflokk telja að lausnin sé sú að veita fjármunum úr lífeyrissjóðunum og byggja hús. Það er jafnvel látið í það skýna að það sé verkalýðshreyfingin sem standi í vegi fyrir þau að þessi auðvelda leið sé farin. Það er ljóst að lífeyrissjóðirnir geta veitt langtímalán til þessa verkefnis og það mætti reisa fjölda húsa. Það er líka ljóst að það mun ekki standa á lífeyrissjóðunum að veita lánum í þennan málaflokk.  En vandamálið er ekki þarna. Það er rekstrarvandi þessa heimila sem er vandamálið og þau mál verða stjórnmálamennirnir að leysa. Það ætti að vera eitt af forgangsverkefnum þeirra svo hægt sé að hefjast handa. Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?