Fréttir frá 2004

09 24. 2004

Ályktun miðstjórnar RSÍ innkomu einkastéttarfélags Brims á vinnumarkað

Á fundi miðstjórnar Rafiðnaðarsambands Íslands 24. sept. 2004 var eftirfarandi ályktun samþykkt um útspil Brims í kjarabaráttuni.   Á fundi miðstjórnar Rafiðnaðarsambands Íslands 24. sept. 2004 var eftirfarandi ályktun samþykkt. Skipulag á íslenskum vinnumarkaði einkennist af því að launamenn og fyrirtæki hafa myndað með sér samtök, sem hafa með gerð kjarasamninga staðið að sátt um uppbyggingu og framþróun íslensks atvinnulífs. Samningar milli þessara aðila kveða á um samkvæmt lögum, hver lágmarkskjör skuli vera, þmt. tryggingar, vinnutíma, orlof, aðbúnað og fl.   Í örfáum tilfellum hafa komið fram vinnuveitendur sem hafa talið sig vera í þeirri stöðu að geta samið við sjálfa sig um þessi atriði og viljað með þeim hætti hrifsa til sín stærri hlut af verðmætasköpun hins vinnandi manns. Þeir hafa þó ætíð rekist á að vera bundnir þeim lagaskyldum að uppfylla ákvæði um lágmarkskjör. Þetta fyrirkomulag tryggir að einstakur vinnuveitandi sem er td í lykilaðstöðu í sjávarplássi, getur ekki nýtt sér bága aðstöðu launamanna til þess að knýja fram lækkun á kjörum. Um þessar leikreglur voru báðir aðilar vinnumarkaðs ásamt ríkisvaldi sammála um á fyrri hluta síðustu aldar, og hefur síðan stuðlað að auknum jöfnuði og friði á vinnumarkaði. Sem hefur skilað okkur vel fram á veg í bættum lífskjörum.   Nú skundar fram á völlinn forsvarsmaður sjávarútvegsfyrirtækis og vippar sér 60 ár aftur í tímann. Hann beitir purrkunarlaust aðstöðu sinni til þess að ná fram einhliða ásetningi sínum um breytingar á gildandi kjarasamningum. Með hótunum um tekjumissi með kvótatilfærslum eða atvinnumissi með uppsögn ráðningarsambands. Þetta er ekki einvörðungu aðför að þeim einstaklingum sem starfa hjá þessu fyrirtæki, heldur er þetta aðför að skipulagi íslensks vinnumarkaðar og umsömdum lágmarkskjörum launafólks.   Miðstjórn RSÍ telur að hér sé um að ræða skýlaust lögbrot, sem verður að bregðast við með markvissum hætti af fullri alvöru og hörku. Hér ekki síður um hagsmuni fyrirtækjanna að ræða, það hefur ítrekað komið fram að það þjónar þeirra hagsmunum síst að fá yfir sig hið villta vestur sem viðgengst í vanþróuðum löndum.   Miðstjórn RSÍ telur að hér sé ekki einvörðungu um að ræða aðför að sjómönnum og samtökum þeirra, hér er um að ræða aðför að því þjóðfélagi sem við höfum byggt upp og er undirstaða þeirra miklu auðæfa sem við búum við í formi öryggis og friðar. Miðstjórn RSÍ hvetur alla rafiðnaðarmenn að stilla sér við hlið sjómanna og berjast af fullum heilindum með þeim í þessari baráttu. Fh miðstjórnar RSÍ Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?