Fréttir frá 2004

09 25. 2004

Á hverjum bitna verkföll?

Þó svo ég hafi ekki ætlað að fjalla um kennara og kjarabaráttu þeirra, stöðu minnar vegna, get ég ekki orða bundist um efnistök fréttamanna og þáttastjórnenda um verkfall kennara.Á hverjum bitna verkföll? Ég ætla ekki að fara skipta mér að verkfalli kennara eða leggja mat á kröfur þeirra eða framsetningu þeirra. En get þó endurtekið það sem ég hef oft sagt að ég er ákafur stuðningsmaður stöðugleika og aukins kaupmáttar allra starfstétta. Eins er ég aðdáandi góðra lífeyrisréttinda. En þó svo ég hafi sett markið hátt á því sviði, þá hef ég reyndar talið óþarfa að  það sé ástæða til þess að fólk sem hefur mjög góðar tekjur, td ráðherralaun auk ríflegrar risnu, sé með margföld lífeyrisréttindi umfram það sem almennt launafólk. Fólk nái einfaldlega ekki að eyða þeim lífeyrisgreiðslum þó svo um sé að ræða fullorðið fólk við góða heilsu.   En þó svo ég hafi einsett mér að fjalla ekki um kennara og kjarabaráttu þeirra, stöðu minnar vegna, get ég ekki orða bundist um efnistök fréttamanna og þáttastjórnenda um verkfall kennara. Í sífellu er klifað á að þetta bitni á saklausum börnum, þau séu þriðji aðili sem eru alsaklaus. Með þessu er markvist verið að mála ímynd kennara dökkum litum og gera baráttu þeirra tortryggilega. Ég er ekki viss um að þetta sé ætlun fréttamanna en þetta er vanhugsað. Jú það er svo sem rétt að verkfall kennara leiðir til þess að nemendur fá ekki kennslu. Hvað gerist ef flugmenn fara í verkfall, eða þá mjólkurfræðingar, eða fréttamenn á fjölmiðlum? Bitnar það einvörðungu á forstöðumönnum viðkomandi fyrirtækja. Það er ekki hægt að skilja íslenska fréttamanna og þáttagerðarmanna öðru vísi en svo að þeir ætlist til þess að verkfall bitni einvörðungu á forsvarsmönnum viðkomandi fyrirtækja, t.d. að  útvarpsstjóri eða forstjóri Flugleiða séu settir í stofufangelsi og allt annað líði fram eins ekkert hafi í skorist.   Ég hef farið víða og stundum lent í töfum vegna verkfalla járnbrautarstarfsmanna, flugmanna, hlaðmanna á flugvöllum og svo framv. Þetta hefur vitanlega truflað för mína og fjölmargra annarra. En ég hef á þessum ferðum mínum aldrei heyrt eða lesið nokkurn taka á þessu eins og íslenskir fréttamenn og þáttagerðarmenn gera. Allir telja að þetta sé sjálfsagður réttur launamanna til þess að berjast fyrir sínum málum. Ég fullyrði að verkfallsrétturinn er undirstaða þess réttláta þjóðfélags sem við búum við. Þeim launakjörum sem við höfum, þeim friði sem við búum við á Norðurlöndum. Skilningur almennings á þessu kemur glöggt fram að 20 manns mættu á fund þar sem mótmæla átti hinum sértæka rétti kennara til þess að berjast fyrir sínum kjörum.   Einnig má spyrja eru fréttamenn að ganga erinda fyrirtækjanna? Er barátta launamanna þyrnir í þeirra augum? Hvernig ætla fréttamenn að ná fram auknum launum? Sumir hægri öfgamenn ásamt nokkrum fyrirtækjaeigendum (og nokkrum íslenskum alþingismönnum) taka oft þannig til orða; að ef ekki væri um ákvæði kjarasamninga verkalýðsfélaganna, þá gætu þeir greitt hærri laun, en það séu bévítans kjarasamningar hinna aumu verkalýðsfélaga sem banni þeim það. Maður er gáttaður þegar maður heyri vinnuveitendur tala svona, þvílíkur barnaskapur.   Trúir því nokkur maður, þá á ég einnig við fréttamenn, ef þeir myndu afsegja sínu stéttarfélagi og henda kjarasamningum og verkfallsvopninu fyrir borð, að þá myndu eigendur fjölmiðla loks hafa frelsi til þess að ausa yfir þá réttlátum launahækkunum. Sem svo myndi líklega enda með því að fréttamenn myndu vera í þeirri stöðu að segja: Nei, takk alls ekki meiri launahækkanir, nú er nóg komið. Nei takk það er alveg nóg að fá sambærileg lífeyrisréttindi og alþingismenn hafa ég hef ekkert með ráðherra lífeyrisréttindi að gera. Nei takk það er svo stór afgangur á launareikningnum mínum um hver mánaðarmót. Er það þetta sem fréttamenn trúa á? 24.09.04 Guðmundur Gunnarsson  

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?