Fréttir frá 2004

10 1. 2004

Iðnskólinn í Reykjavík 100 ára

Í gær var haldið upp á 100 ára afmæli Iðnskólans í Reykjavík. Margir mættu og heiðruðu skólann með margvíslegum hætti. Hér er einnig rifjaður upp aðdragandi stofnunar skólans Í gær var haldið upp á 100 ára afmæli Iðnskólans í Reykjavík. Margir mættu og heiðruðu skólann með margvíslegum hætti. Samtök rafiðnaðarmanna tóku höndum saman og færðu skólanum 2 kennslutöflur af fullkomnustu gerð, að verðgildi 600 þús. kr. Tengja má töflurnar við tölvur og setja þar upp allt sem í tölvu rúmast. Eins er hægt að teikna með tússpennum á töfluna og vista það í tölvunni. Búið er setja upp myndarlega sýningu í skólanum nú um þessa helgi, þar sem allar deildir skólans hafa stillt kennslutækjum og kynna starfsemina. Aðildarfélög Rafiðnaðarsambandsins ákváðu síðastliðinn vetur að láta búa til vandaðan mynddisk þar sem rafiðnaðargreinarnar og störf í þeim eru kynnt á myndrænan hátt. Nú er vinna við diskinn á lokastigi og er hann frumsýndur á sýningu Iðnskólans. Hann verður sendur öllum grunn- og framhaldsskólunum.     Hér á fyrir neðan eru birtir nokkrir kaflar úr sögu FÍR sem snerta upphaf iðnnáms á Íslandi.   Upphaf iðnskólans Á fyrri öldum lærðu menn til handverks á heimilum og verkkunnáttan gekk mann fram af manni. Hér á landi var ekki um margþætt handverk að ræða. Má þar nefna helst ullarvinnu og húsagerð. Ekki var um það að ræða að margir héldu utan til að læra handverk. Skipta má upphafi Iðnskólans í þrjú tímabil: Sunnudagaskóla, teikniskóla og síðan iðnskóla. Sunnudagaskólinn hófst í nóv. árið 1873 á vegum Iðnaðarmannafélagsins. Skólinn var haldinn á sunnudögum, 3 tíma í senn. Aðallega var kenndur lestur, skrift og stærðfræði. Skólinn var rekinn með þessu fyrirkomulagi til ársins 1882, þá féll kennsla niður vegna ónógrar þátttöku og áhugaleysis.   Það var lengi áhugamál Iðnaðarmannafélagsins að fá fullkomna löggjöf um iðnnám og iðnrekstur. Ráðamenn þjóðarinnar sáu þó ekki nauðsyn þess, en þann 16. desember árið 1893 voru loks samþykkt lög á Alþingi um iðnnám. Lögin um iðnfræðslu kröfðust skriflegra námssamninga, ef neminn var yngri en 18 ára. Námstíminn mátti aldrei verða lengri en 5 ár, að meðtöldum 3ja mánaða reynslutíma. Árið 1892 var  rætt um að koma á teiknikennslu. Iðnaðarmenn sem höfðu verið erlendis við framhaldsnám sáu gildi notkunar teikninga við öll iðnaðarstörf. Það var samþykkt að byrja aftur í upphafi árs 1893 og skyldi kenna á sunnudögum kl. 16.00 - 18.00. Kennslan var ókeypis fyrir félagsmenn Iðnaðarmannafélagsins, en kostaði 2.00 kr. fyrir aðra.  Á fundi 13. nóv. árið 1901 var ákveðið á fundi í Iðnaðarmannafélaginu að gera skólann að kvöldskóla. Í byrjun árs 1903 lauk Jón Þorláksson verkfræðinámi við Kaupmannahafnarháskóla. Tók hann þegar að beita sér fyrir umbótum á iðnfræðslunni. Jón var skipaður fyrsti skólastjórinn í ársbyrjun 1904. Haustið 1904 sem telst vera upphaf reksturs formlegs iðnskóla hefst formlegt skólastarf. Það var kennt 2 tíma á kvöldi 6 daga vikunnar. Námsgreinar voru flatar-, fríhendis- og rúmteikning í 1. og 2. bekk, en iðnteikning í 3. bekk, íslenska og stærðfræði í öllum bekkjum og danska í 2. og 3. bekk. Kennarar voru Jón Þorláksson og Þórarinn B. Þorláksson í teikningu, Ólafur Ólafsson fríkirkjuprestur í íslensku, dr. Ólafur Daníelsson í stærðfræði og Þorsteinn Erlingsson skáld í dönsku. Nemendur voru 82 og skólagjald 5 kr. fyrir veturinn. Næsta vetur var 4. bekk bætt við.   Vinnutími var almennt 12 tímar á dag, nemendur unnu til kl. 19.00 og byrjuðu að vinna 6 að morgni. Síðan mættu þeir kl. 20.00 í skólann. Á fundi í Iðnaðarmannafélaginu 6. okt. árið 1904 flutti Jón Þorláksson erindi þar sem hann lagði til að vinnutíminn yrði færður niður í 10 tíma á dag og 8 tíma hjá lærlingum meðan þeir væru í skólanum. Þessu máli var vel tekið og voru flestir iðnmeistarar búnir að koma þessu vinnufyrirkomulagi á næsta vetur. Fyrsta ár skólans var kennt í Vinaminni í Mjóstræti í tveimur stofum, auk þess voru 2 lítil herbergi til afnota. Næsta ár varð að bæta við Borgarasalnum svonefnda í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Í desember árið 1904 var ákveðið að hefja byggingu skólahúss. Samþykkt var að að kaupa lóð við Tjörnina við hliðina á Iðnaðarmannahúsinu (Iðnó) af Búnaðarfélaginu fyrir 3000 kr. Nýja skólahúsið var tilbúið haustið 1906 og má þá segja að skólanum hafi verið skipaður sá sess sem hann hefur haldið síðan. Ríkisvaldið skipti sér lítið af iðnfræðslunni fyrri hluta aldarinnar. Rekstur iðnskólanna var að mestu leyti í höndum iðnaðarmanna sjálfra eða til 1955, þegar samþykkt var að ríki og sveitarfélög skyldu skipta kostnaðinum með sér. Þá varð Iðnskólinn í Reykjavík dagskóli.   Fyrsti íslenski rafvirkinn Halldór Guðmundsson, f. 14. 11. 1874 að Eyjarhólum í Mýrdal. Árið 1894 var hann skráður sem járnsmíðanemi hjá Þorsteini Jónssyni járnsmíðameistara á Vesturgötu 33. Þar lauk hann 4 ára námi í járnsmíði í júlí 1898. Veturinn 1898-1899 var hann innritaður í alþýðuskóla í Reykjavík, meðal annars til tungumálanáms. Hann sigldi til Kaupmannahafnar árið 1899. Þar innritaðist hann í vélskóla. Hann lauk námi í vélfræði 28. ágúst 1901. Árið eftir vann hann baki brotnu við byggingu véla og prófun þeirra til þess að afla sér fjármuna til frekara náms. Hann var farinn að velta fyrir sér íslenskum fossum og rafmagni og sótti um styrk til Alþingis en fékk synjun. Þrátt fyrir það tók hann sig upp í ágúst 1902 og fór til Berlínar, ákveðinn í að komast í raffræðiskóla. Hann komst inn í "Fachschule für Elektrotechnik an der I. Handwerkerschule zu Berlin" og lauk þaðan prófi 30. sept. 1903. Að loknu prófi vann hann við raflagnir í Berlín, varð brátt meistari þar og tók að sér í ákvæðisvinnu raflagnir í nokkur hús.   Fyrsti íslenskt menntaði rafvirkinn Eiríkur Karl Eiríksson var fæddur 10. mars 1906 á Stokkseyri. Karl starfaði við rafvirkjun frá fermingu. Hann vann við uppsetningu og tengingu dílsilrafals á Stokkseyri fyrir Kaupfélagið 1920. Karl er líklega fyrsti íslenskmenntaði rafvirkinn, hann útskrifaðist frá Iðnskólanum í Reykjavík 30. apríl 1928 sem raflagningarnemi með hæstu meðaleinkunn í skólanum 5.7, hæst var gefið 6. Hann vann hjá Ormsson bræðrum lengst af sinn starfsferil. 01.10.04 Guðmundur Gunnarsson[Meginmál]

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?