Fréttir frá 2004

10 7. 2004

Félagafrelsi sjómanna og vinnulöggjöfin

Deila sjómanna og útgerðarmanna tók á sig mjög alvarlega mynd, þegar Akueyrarbær tók sig til og lét lögregluna brjóta á bak aftur löglegar aðgerðir sjómanna. Þetta mun örugglega hafa mikil áhrif á komandi kjarasamninga næstu vikurnar, m.a. samninga rafiðnaðarmanna við Landsvirkjun, RARIK og Norðurorku, en Akureyrarbær er stór aðili að þessum félögum Undanfarin áratug hafa sjómenn ítrekað reynt að ná samningum við útvegsmenn en ekki tekist. Útvegsmenn hafa komist upp með það að treysta á að stjórnvöld komi og setji lög sem kveða á um það sem útvegsmenn voru tilbúnir að leggja fram. Allt þetta ár hafa viðræður staðið yfir milli þessara aðila. Grundvallarkrafa sjómanna er fá samskonar lífeyrisréttindi og aðrir landsmenn hafa. Bæði að gjöld í lífeyrisjóði verði reiknuð af heildarlaunum eins og hjá okkur hinum, í dag er það einungis af óverulegum hluta launa sjómanna. Auk þess hafa útgerðarmenn þverskallast við að greiða í séreignarsjóði, eins og niðurstaða varð um í öðrum kjarasamningum á síðasta samningstímabili, og þar til viðbótar fengu sjómenn einir ekki þann séreignarviðauka sem allir aðrir fengu, þegar verið var að leiðrétta forsendur kjarasamninga árið 2002.   Sjómann hafa sagt að þeir séu tilbúnir að ræða þau atriði sem útvegsmenn leggja áherslu á, gegn því að þeir fái sömu lífeyrisréttindi og aðrir landsmenn hafa. Ekkert hefur miðað frekar en fyrri daginn. Fyrir skömmu tók sig til útgerðarmaður og gerði tilraun til þess að fá nokkra sjómenn til þess að semja við sig til þess að geta mannað skipið Guðmund úr Nesi. En hann bauð laun og kjör sem voru ekki í samræmi við það sem kveðið er á um í gildandi kjarasamningum og ekkert varð úr þessu.   Sami útgerðarmaður gerði svo aðra tilraun með að manna skipið Sólbak. Hann tilkynnti fyrst að hann hefði stofnað nýtt stéttarfélag og gert við það kjarasamning, eins margoft kom fram í fréttum fyrir stuttu. En hann fékkst ekki margumbeðin að sýna þennan kjarasamning. En síðar kom fram engin kjarasamningur hefði verið gerðir, heldur ráðningarsamningar við þá menn sem hann fékk til þess að fara á skipið. Að sögn áttu þessir menn um ekkert annað að velja. Í þessum ráðningarsamningum er m.a. ákvæði um að menn megi ekki vera í stéttarfélagi, þeas útgerðarmaðurinn er sjálfur að taka sér  "frelsi" til þess að ákvarða hvort menn séu í stéttarfélagi eður ei, samtímis því að hann er í öllum fjölmiðlum hrópandi um félagafrelsi. Hann tekur sér einhliða "frelsi" til þess að ákvarða að sjómenn eigi að hafa skert lífeyrisréttindi, auk þess að ekki er greitt í sjúkrasjóð auk allnokkurra annarra atriði sem ekki eru í lagi. En hann tók sér "frelsi" til að breyta mönnunarmálum og stoppi í höfnum. Þeas útgerðarmaðurinn er búin að setja inn allar kröfur útgerðarmanna en hafnað kröfum sjómanna um leiðréttingu á lífeyrisréttindum og auk þess hirða af þeim nokkur atriði til viðbótar. Með öðrum orðum hann lætur sjómennina greiða sjálfa með sér og hirðir allan hagnaðinn af fækkun í áhöfn. Já það er nú gott að eiga "frelsið" svona einn og út af fyrir sig.   Svo einkennilegt sem það nú er þá hefur útgerðarmaðurinn margoft komið fram í fjölmiðlum og hrópað hann ásamt öðrum útgerðarfélögum liggi undir ofsóknum og það eina sem hann vilji leggja áherslu á sé félagsfrelsi og frelsi til þess að fá að greiða sínum mönnum hærri laun og vernda fjölskyldulíf þeirra!! Út yfir allan þjófabálk gekk svo kollegi hans fá Akureyri með málflutning sinn í fjölmiðlum í gær. Þeir eru svo að vitna til um að þeir vilji bara fá sama umhverfi og önnur fyrirtæki hafi. Sjómannaforystan sé steinrunnin og hún standi í veginum. Hvers lags endaleysa er þetta, maður er gáttaður á því að fréttamenn skuli leyfa þeim að komast óáreittir upp með svona rökleysu. Ég get vitnað um það að líklega eru hvergi fleiri sérsamningar við fyrirtæki og við starfsmenn í gangi en í rafiðnaðargeiranum. En þeir eru allir byggðir á grunni gildandi kjarasamnings RSÍ og SA. Engum dettur í hug að fara undir þann samning. Enda er það viðurkennt innan rafiðnaðargeirans og hefur margoft komið fram að RSÍ getur farið fram og hefur reyndar gert það, að innheimta það sem upp á vantar bæði hjá innlendum og erlendum fyrirtækjum og komið því til viðkomandi starfsmanns. Þá gildi einu hvað starfsmaðurinn hafi undirritað einhvern samning. Hann má klárlega ekki semja um lakari kjör en eru í gildandi kjarasamning um viðkomandi starf. Til viðbótar er rétt að taka fram, það skiptir nákvæmlega engu hvort viðkomandi starfsmaður sé í stéttarfélagi eður ei og sama gildir um viðkomandi fyrirtæki.   Sólbaksmálið snýst ekki um félagafrelsi, því fer víðs fjarri. Öll vitum við að starfsmenn og eða starfsmannafélög geta gert sérsamninga og það er gert um allan vinnumarkaðinn og örugglega á einhverjum skipanna. En það eru í gildi landslög sem kveða á um að lágmarkskjör þessara sérsamninga mega ekki kveða á um lakari kjör en lágmarkskjör i gildandi kjarasamningum viðkomandi starfsgreinar. Eins eru í gildi lagaleg ákvæði um fyrirkomulag viðræðna um endurnýjun kjarasamninga og með hvaða hætti hvernig íhlutun aðila getur verið. T.d. geta starfsmenn ekki sett af stað verkföll eins og þeim sýnist, og fyrirtæki geta ekki klofið einhverja nokkra einstaklinga frá og stillt þeim upp við vegg og þvingað fram eitthvað. Þessi málatilbúnaður á Sólbaki er klárlega brot á gildandi lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.   Það er skelfilegt að bæjaryfirvöld Akureyrarbæjar skuli láta handtaka sjómenn, sem reyna að verja lögvarin réttindi sín og brjóta með þeim hætti á bak aftur lögmæta kjarabaráttu þeirra. Framferði útgerðarmannsins og ekki síður bæjaryfirvalda Akureyrarbæjar eru af sama sauðahúsi og bláfátækum launamönnum tókst með mikilli baráttu að brjóta á bak aftur á fyrstu árum síðustu aldar og síðan staðfest í lögum um stéttarfélög og kjaradeilur 1938.   Með þessu ótrúlega ósmekklega inngripi er Akureyrarbær að gera sitt til þess að koma í veg fyrir að sjómenn fái samskonar lífeyrisréttindi og aðrir landsmenn hafa. Það má ætla að forsvarsmenn Akureyrarbæjar hafi ekki áttað sig á því að nú eru þeir orðnir beinir aðilar að deilu, sem snýst um grundvallarréttindi íslenskra launamanna. Ný staða er komin upp. Fyrir liggur að mörg stéttarfélög eru að undirbúa endurnýjun kjarasamninga. T.d. er RSÍ að undirbúa samningagerð við Norðurorku, RARIK og Landsvirkjun. Allt eru þetta félög sem Akureyrarbær er stór aðili að. Ef litið er til þeirra viðbragða sem eru að birtast okkur starfsmönnum RSÍ frá félagsmönnum, má næsta örugglega ætla að í komandi viðræðum munu rafiðnaðarmenn stilla sér við hlið sjómanna til að verja og endurheimta réttindi sem við fengum fyrir 80 árum. Einnig er klárt að RSÍ mun beina því til rafiðnaðarmanna að þeir stilli sér ekki við hlið Akureyrarbæjar og útgerðarmannsins í að brjóta á bak aftur sjómenn í baráttu þeirra fyrir eðlilegum mannréttindum með því að fara um borð í Sólbak. 07.10.04 Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?