Fréttir frá 2004

10 16. 2004

Nú er röðin kominn að okkur

Ráðherrar og þingmenn hafa margoft á undanförnum árum hrifsað til sín margfalt meiri launahækkanir og lífeyrisréttindi umfram það sem launamenn hafa orðið að sætta sig við. Viðhorf almennings til kennaraverkfalls hefur greinilega komið ráðherrum og stjórnarþingmönnum í opna skjöldu. Er það ekki vegna þeirra eigin hegðunar? Við höfum nokkrum sinnum á undanförnum árum upplifað það, að alþingismenn og ráðherrar hafi fengið úthlutað launahækkunum sem eru margfalt meiri en venjulegt launafólk hefur samið um á kjarasamningum. Auk þess þá hafa alþingismenn og ráðherrar tekið sér margföld lífeyrisréttindi og skattfrjálsa risnu langt umfram það sem launamenn hafa. Þessu var mótmælt af launamönnum, en þeir sátu þá undir margskonar ávirðingum frá alþingismönnum með þingmenn Sjálfstæðisflokksins fremsta í flokki.   En í hvert sinn sem launamenn á almennum markaði hafa sest að samningaborði hafa dunið á þeim margskonar skilaboð frá stjórnarþingmönnum og ráðherrum um að nú verði launamenn að sýna ábyrgð og ekki megi setja stöðugleikann í hættu. Í ljósi fyrra framferðis hefur þessi málflutningur gert stjórnarþingmenn ótrúverðuga. Það var harla einkennilegt  þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins strax frá upphafi kennaraverkfallsins höfðu í frammi hróp um að setja lög og bönn á kjarabaráttu kennara. Viðbrögð almenings, eða kannski frekar viðbragðsleysi,  kom þingmönnum Sjálfstæðisflokksins greinilega í opna skjöldu,  Í umræðum launamanna heyrðust ummæli á borð við, af hverju megum við ekki núna. Það hlusta fáir ef nokkrir á þessi hróp þingmanna Sjálfstæðisflokksins og ástæða þess er augljós, eins og að framan er getið.   Staðan í kennaradeilunni er algjörlega óviðunandi. Nú þurfa stjórnmálaforingjarnir að sýna hvað í þeim býr. Þar standa eldarnir á borgarfulltrúum og þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa með afstöðu sinni og gjörningum á undanförnum árum skapað þessa afstöðu fólks, ábyrgðin er alfarið þeirra. Allt stefnir í óefni, hver hópurinn á fætur öðrum mun koma fram á sjónarsviðið, forsendur kjarasamninga eru að bresta. Stjórnarþingmenn ýta undir það með þeim fjárlögum sem liggja nú fyrir þinginu. 16.10.04 Guðmundur Gunnarsson    

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?