Fréttir frá 2004

10 16. 2004

Verkföll

Nokkur helstu atriði úr ræðu formanns RSÍ á fundi Frjálshyggjufélagsins 12. okt. 2004.   Í hvert skipti sem einhverjum launþegum finnst nóg komið hvað varðar kjör sín og segja ?Nei takk vinna mín er ekki til sölu á þessum prís?, þá rísa upp ákveðnir menn og krefjast þess að sett verði lög sem annað hvort afnemi verkfallsréttinn, eða allavega setji miklar skorður við honum. Nú skyldi maður ætla að þeir sem hrópuðu hæst í þessa veru væru forsvarsmenn fyrirtækja og samtaka þeirra. Nei svo er ekki, svo einkennilegt sem það nú er, þá er þetta fólk sem gefur sig út fyrir að vera boðberar frelsis, hefur jafnvel atvinnu við það. Trúa menn því virkilega að ef stéttarfélag kennara yrði lagt niður og þeim meinað að fara í verkfall, að þá hækkuðu laun kennara? Það er nákvæmlega ekkert sem bannar skólunum að greiða kennurum hærri laun en lágmarkstaxtar kveða á um, en þeir gera það ekki. Þeir greiða einvörðungu eftir umsömdum lágmarkstöxtum. Það er þess vegna sem kennarar með yfir 90% þátttöku tóku ákvörðun um að fara í verkfall.   Í þessu sambandi má benda á að VR samdi um opið markaðslaunakerfi fyrir 5 árum þar sem lágmarkslaunahækkanir voru ekki skilgreindar. Í könnunum síðastliðin vetur þegar undirbúningur hófst að endurnýjun kjarasamninga kom fram að hópar höfðu ekki fengið neina launahækkun í 5 ár, ekki krónu. Þarna voru hóparnir sem minnst mega sín og þurfa helst á samstöðunni að halda. VR varð að semja um sérstakar eingreiðslur til þess að bæta þessum hópum upp launatapið og hverfa yfir í sama form sem RSÍ hefur verið með, þe sérstakar hækkanir á lægstu launum og svo lágmarkslaunahækkanir á samningstímanum. Það er stæða til þess að benda á eins og reyndar oft hefur komið fram hér á heimasíðunni galopnir samningar virka ekki nema þar sem atvinnuástand er gott og fólk er í starfi þar sem skortur er á hæfu fólki. Það getur það tekið saman pjönkur sínar og farið eitthvað annað. Verzlunarkona á Hólmavík fer ekkert. Ef hún gerir aths. við laun sín þá er henni sagt að þarna séu dyrnar, og geti svo sem reynt að selja húsið sitt. Allar verzlunar- og skrifstofukonur utan Reykjavíkursvæðisins eru á lágmarkskjörum, og ekki bara það fólk allt verkafólk. Helsta ástæða þess að við rafiðnaðarmenn höfum þurft að vera harðir á hækkun lágmarkslauna er vegna þess að samningar okkar ná yfir landið í heild.   Verkfallsréttur var hlutur sem fólk tók sér sjálft í hönd hér áður fyrr og engin réð við, sem oft leiddi til blóðsúthellinga og annarra óheillaverka. Skammt var á milli hnefaréttar og svo réttindabaráttunnar. Þetta leiddi til þess að menn settust niður og settu sér reglur og sömdu lög. Síðan þá hefur þetta vopn ekki verið notað eins ótæpilega og áður. Alla vega ekki eftir að við náðum fram þjóðarsáttinni og stöðugleika. Það eru kannski nokkrir hópar innan opinbera geirans sem hafa gripið til þessa vopns á undan förnum árum. En verkfallsvopnið getur verið tvíbent. Fari fiskverkakona hjá Brim á Akureyri í verkfall er fiskvinnslan flutt á Rif eða til Kína. Neiti sjómaður að fara um borð í Sólbak eru verkefni hans flutt yfir á annað skip. Það er á þessum grundvelli sem útgerðarmaður getur þvingað fram það sem hann vill og nýtt sér hræðslu bæjaryfirvalda við að missa þessi störf annað. Hann getur jafnvel fengið þau til þess að nota lögregluvald eða náð fram vafasömum lögbönnum til þess að ná sínu fram.   En þarna er verið að leika sér við eldinn, það sýður undir og það mun springa og hætt er við slagsmál gætu sést á kajanum á Akureyri áður en langt um líður. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Það veikir samstöðuna ef einhver klífur sig út úr hópnum og semur um lægri kjör en í gildi eru. Sjómenn telja sig eiga eitt og annað vantalað við félaga sína á Sólbak. Sjómenn hafa verið að berjast fyrir því að fá samskonar lífeyrisréttindi og aðrir launamenn. Þeir hafa lýst því yfir að þeir séu tilbúnir til þess að ræða mönnunarmál á skipum, en vitanlega gegn því að það sé komið á móts við þeirra kröfur. Hún er harla einkennileg sú stærðfræði sem útgerðarmaður Brims notar. Hann heldur því fram að sjómenn á Sólbak hafi fengið 12,5% launahækkun út á að fækkað var í áhöfn. Maður spyr; ?Gerðu þessir menn sem settir voru í land ekkert?? Jú, staðreyndin er sú að vinnutími hásetanna sem eftir eru um borð lengdist um 20%. Útgerðarmaðurinn talar um ferskleika aflans, það er ljóst að það frágangur afla um borð tekur mun lengri tíma.   Öllum er heimilt og margir gera það að semja um hærri laun og betri kjarabætur, engum er heimilt að fara undir lágmarkskjör. Af hverju hefur útgerðarmaðurinn ekki lagt fram samanburðarútreikninga, honum ætti að vera það auðvelt.    Forsvarsmenn frelsis eru að boða frelsi fyrirtækja til þess að ákvarða einhliða hvaða laun séu greidd, hver vinnutími sé og hvenær hann fer fram. Einhliða frelsi fyrirtækjanna til þess að ákvarða hvort og þá hvaða launþegasamtökum launamaðurinn er í. Þetta er ekki frelsi, þetta er forsjárhyggja af verstu tegund. Það eru ekki haldbær rök að það sé vegna ákvæða kjarasamninga verkalýðsfélaganna að fyrirtækin greiði ekki hærri laun. Maður er gáttaður þegar maður heyrir menn tala svona, þvílíkur barnaskapur. Kjarasamningar eru samningar um gólf og lágmörk, ekki þök.   Talsmenn frelsisins í röðum alþingismanna búa við það ástand að fá afhentar reglulega umtalsvert meiri launahækkanir, þreföld lífeyrisréttindi á við almenna landsmenn og líklega fjórföld á við sjómenn og svo umtalsvert meiri fríðindi. Þetta fá þeir án þess að þurfa svo mikið að standa upp úr stólnum. Þessir menn tala svo um að setja lög sem eiga að afnema frelsi fólks til þess að til að segja : ?Nei vinna mín er ekki til sölu á svona lágu verði, ég vill fá sambærileg lífeyrisréttindi og þingmenn?. 14.10.04 Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?