Fréttir frá 2004

11 6. 2004

Hagvöxtur án atvinnu

Á trúnaðarráðstefnu RSÍ var fjallað um stöðuga efnahagsmála þám flutti Stefán Úlfarsson hagfræðingur ASÍ erindi. Tæplega 100 trúnaðarmenn rafiðnaðarmanna komu saman til árlegrar ráðstefnu á Selfossi 4. og 5. nóv. Stefán Úlfarsson hagfræðingur ASÍ kom á fundinn og fór yfir stöðu efnahagsmála. Fram kom hjá honum að þrátt fyrir að hagvöxtur væri mikill væri atvinnuleysi ekki að minnka og um 6000 íslendingar gengu um án atvinnu. Í þessum hópi væri áberandi ungt fólk og sumir væru búnir að vera lengi atvinnulausir. Þetta væri nýtt á íslenskum vinnumarkaði. Það getur verið bjart framundan, sagði Stefán, en það þarf lítið út af að bera til að illa fari og ríkisstjórnin virðist vera að endurtaka hagstjórnarmistökin frá 1999 ? 2002. Slíkt þurfi ekki endilega að leiða til kreppuástands en gæti leitt til aukinnar verðbólgu, minni kaupmáttar og lakara atvinnustigs til framtíðar og það að ástæðulausu.   Það má afstýra þessum vanda með réttri hagstjórn. Verkalýðshreyfingin lagði sitt að mörkum með langtímasamningum í vor, sem átti að verða grunnur að stöðugleika, vaxandi kaupmætti og traustu atvinnustigi. En það er ekki nóg, við þurfum aðhald í ríkisrekstri og myndarlegan tekjuafgang á fjárlögum. Það virðist vera að ríkisstjórnin sé að nota atvinnuleysi sem hagstjórnartæki. Í þeim gögnum sem við settum upp í vor voru væntingar um 1% árlega kaupmáttaraukningu út samningstímann. Búast má við miklum og góðum hagvexti á árunum 2004-2006. Fjárfestingar vaxa mikið þótt heldur dragi úr vextinum þegar líður á spátímabilið. Einkaneysla vex mikið og viðskiptahalli hefur aukist umtalsvert.   Í umræðum á ráðstefnunni kom ma fram að mönnum þótti það harla kaldranalegt að ríkisstjórnin væri að nota atvinnuleysi sem tæki til þess að stilla af mælitæki sín við hagstjórnina. Atvinnuleysi væri ekki bara einhver prósentutala, það væru 6000 einstaklingar sem flestir hefðu fyrir fjölskyldu að sjá og staða þessa fólks væri óbærileg. Það væri ekki hægt að sætta sig við að ríkisstjórnin stæði aðgerðarlaus á meðan erlendur auðhringur flytti inn flugvélafarma af bláfátæku verkafólki, greiddi þeim laun sem væru langt undir  velsæmismörkum og þverbryti nánast öll íslensk lög um aðbúnað og starfsmenntun. Þetta ráðslag ríkisstjórnarinnar væri að leiða til þess að önnur fyrirtæki virtust ætla að ganga á lagið og nýta sér þetta við byggingu og frágang í stöðvarhúsinu. Fundarmenn sögðust ætlast til þess að verkalýðshreyfingin tæki sameiginlega á þessum vanda og kröfðust þess að félagsmálaráðherra léti af stefnu sinni og sæi til þess að Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið sinntu löggiltum verkefnum sínum. gg 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?