Fréttir frá 2004

11 6. 2004

Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ setningarræða

Við setninguna RSÍ flutti formaður sambandsins eftirfarandi ræðu Öflugri verkalýðshreyfingu er oft þakkað fyrir hið örugga og friðvænlega ástand sem ríkir á Norðurlöndum.  Okkur hefur tekist að skapa sérstöðu í heiminum.  Með stöðugri baráttu hefur okkur tekist að halda stjórnvöldum á réttri braut.  Foreldrum okkar tókst að brjótast upp úr örbirgð og skapa fjölskyldum sínum tryggt og friðsamt umhverfi.  Á sama tíma hefur staðið yfir og stendur enn, barátta verkafólks í þrælakistum í fátækari hlutum heimsins.  Þar stritar blásnautt fólk og börn allt upp í 18 ? 20 tíma á sólarhring við ömurlegar aðstæður í niðurníddum verksmiðjuhjöllum fyrir nokkra aura á tímann.  Þessir staðir eru afgirtir því vitneskjan um þrælahaldið verður almennari og andstaðan hefur verið vaxandi.   Á alþjóðlegum ráðstefnum verkalýðshreyfingarinnar sem ég komið á, hafa fulltrúar hinna vanþróuðu landa komið reglulega til okkar norðurlandafulltrúanna og sagt við okkur; "Þið megið undir engum kringumstæðum slaka á kröfum ykkar.  Við vitum að þið liggið undir áskorunum um að gera það, svo bæta megi hina svokölluðu samkeppnistöðu.  Þið standið ofar en við í stiganum, ef þið færið ykkur neðar þýðir það ekki að við stöndum kyrr, okkur verður einfaldlega gert að færa okkur niður jafnmörg þrep.  Þið hafið að vissu leiti líf og framtíð okkar í ykkar hendi.  Hjálpið okkur frekar að stofna verkalýðsfélög svo við getum jafnað samkeppnistöðuna með því að bæta kjör okkar.  Árlega verja þau norrænu samtök sem við erum í milljónum króna til þess að styðja þessu örlitlu stéttarfélög og eins rekum við fjölmarga starfsmenntaskóla á þessu svæðum. Á hverju ári eru nokkrir tugir félaga okkar sem eru að reyna að stofna stéttarfélög í Suður Ameríku - Afríku - og Asíu skotnir, margir hverfa sporlaust og fjölmargir fangelsaðir.   Kostnaðurinn við girðingar og gæslumenn með alvæpni er smáræði miðað við afraksturinn af því að framleiða tískuvöru fyrir efnaða Vesturlandabúa og þetta breiðist út til allra átta, líka til okkar í norðrinu.  Þrælakistur hafa fundist í Norður-Evrópu og Bandaríkjunum.  Og við finnum þær hér á Norðurlöndum.  Ungar konur og drengir eru þrælar klám- og eiturlyfjahringja.  Stofnuð eru fyrirtæki sem leigja út verkafólk til hverskonar verka á 100 dollara á mánuði.  Lengd vinnutíma skiptir engu máli.  Neðanjarðarhagkerfið blómstrar og gjöld til samfélagsins skila sér ekki.  Samfara því gera þau eðlilegan rekstur innlendra fyrirtækja erfiðan eða jafnvel vonlausan.  Sumar ríkisstjórnir hafa vaknað upp við vondan draum, í skjóli aðgerðarleysis þeirra hefur dafnað illgresi í bakgarðinum.  Aðgerðaleysi félagsmálaráðherra hefur valdið því að langtímaatvinnuleysi hefur margfaldast hér á landi.  Á meðan íslenskrar fjölskyldur berjast í bökkum, þá eru fluttir inn þúsundir blásnauðra erlendra verkamanna.  Meir að segja þeim er ofboðið, því hvergi á landinu er meiri starfsmannavelta en við Kárahnjúka.   Það er erfitt að trúa því nú á 21. öld að það eru einnig settar upp girðingar á Íslandi.  Í dag er þrælakista uppi við Kárahnjúka með 1000 erlendum þrælum. Þar hafa íslensk stjórnvöld sett upp girðingar til að halda vinnuaflinu á sínum stað og aðskilja það frá íslensku þjóðfélagi.  Þar gilda sérstök lög um vinnutíma, ökuréttindi, starfsréttindi, öryggismál, aðbúnað verkafólks, kaup og kjör.  Þessi lög eru samin og sett af ítölskum auðhring og þeim er framfylgt í skjóli aðgerðarleysis og síendurtekinna undanþágna félagsmálaráðherra og íslenskra stjórnvalda. Starfsmaður félagsmálaráðherra fór einu sinni upp að Kárahnjúkum til þess að athuga hvernig launagreiðslum var háttað, hann kvartaði undan því að fá takmarkaðar upplýsingar.  En félagsmálaráðherra hefur síðan þá klifað á því að þetta sé allt í fínasta lagi, ráðuneytið hafi launamál þar undir eftirliti, ja hérna þvílík firra.  Ef forsvarsmenn stéttarfélaga vekja athygli á þessu, er þeim gert að þurfa að sitja undir fýlulegum fúkyrðum íslenskra ráðamanna, sem syngja þessum þrælabúðum lofsöngva í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna.   Talsmenn Frjálshyggjunnar kætast og tala opinberlega um að nú séu góðir tímar.  Hægt er að flytja inn ódýrt vinnuafl og hámarka arðinn með því að notfæra sér neyð bláfátæks fólks frá svæðum þar sem örbirgð ríkir.  Með því sé hægt að halda aftur af ósanngjörnum launakröfum frekra og ofalinna íslenskra launamanna, sem undir stjórn verkalýðsforkólfa eru að takmarka hugsanlegan arð fjármagnsins.  Forsvarsmenn frjálshyggjunnar ásamt þingmönnum ríkisstjórnarinnar tala um að setja lög til þess gera stéttarfélögum erfiðara fyrir.  Koma á í veg fyrir að launamenn geti borið hönd fyrir höfuð sér og gefa fyrirtækjunum frelsi til þess að ákveða hvort launamenn séu í stéttarfélögum.  Auka á frelsi fyrirtækjanna til þess að ákvarða einhliða laun og kjör.  Koma í veg fyrir að launamenn geti staðið upp og sagt ?Nei takk, vinna mín er ekki til sölu á þessum prís.?   Það frelsi sem frjálshyggjumenn telja sig hafa fengið athafna vindur fljót upp á sig.  Nýlega var gripið til þess ráðs að girða af bryggju eina á Akureyri svo hægt væri að landa afla úr togara sem fiskar á vegum Brims sem ekki virðir landslög og þaðan af síður kjarasamninga.  Forysta stéttarfélags sjómanna mótmælti aðför útgerðamannsins að kjörum sjómanna.  Þá var bryggjan girt af og forystumenn sjómanna handteknir og aflanum landað í skjóli lögregluverndar eftir tilskipun bæjaryfirvalda.   Fyrir nokkrum dögum kom forsvarsmaður íslenskra rafverktakafyrirtækja upp á skrifstofu RSÍ. Þeir höfðu boðið í uppsetningu rafbúnaðar í stöðvarhúsinu í Fljótsdal.  Feiknarlega mikið verkefni yfir fjölda rafiðnaðarmanna.  Þeim var tilkynnt af hinum erlenda aðalverktaka að þeir þyrftu að lækka launaliðinn um 37.2%.  Hann sagðist hafa svarað, það er ekki hægt íslenskir kjarasamningar leyfa það ekki.  Honum var svarað; "Ef þið ætlið að fá verkið þá gerið þið eins og aðrir eru að gera á Kárahnjúkasvæðinu og ráðið ódýra erlenda starfsmenn.  Það gildir einu hvað verkalýðsfélögin eru að kvarta.  Þið sjáið hvernig þetta gengur í dag."   Við erum að upplifa tímamót í verkalýðssögu norðurlanda.  Tímamót þar sem reynt er að afnema lög með afli fjármagnseigenda og meðvituðu aðgerðarleysi stjórnvalda sem eiga rætur sínar í görðum frjálshyggjunnar.  Skyndilega erum við í þeirri stöðu að berjast fyrir því hvort landslög og gildandi kjarasamningar eigi áfram að tryggja stöðu launamanna.  Við erum alltaf á því stigi að berjast fyrir sæmilegu jafnræði milli þeirra sem eiga framleiðslutækin og hinna sem selja verða vinnu sína til að framfleyta sér.  Ég spyr "Hvers virði eru framleiðslutækin ef ekki er til staðar hin vinnandi hönd?  Af hverju á allur arður af verðmætasköpun launamanna að renna til þess sem á fjármagnið?"   Ítrekuð ummæli væntanlegs forstjóra Fjarðaráls hefur vakið athygli margra launamanna og takið eftir, hann er íslendingur.  Hann ætlar sér að feta braut núverandi ríkisstjórnar og berjast fyrir því að fá að nota erlenda verktaka í öll störf verksmiðjunnar og nýta sér þá til þess að ná niður launakostnaði verksmiðjunnar.  Möo hann hyggst nýta sér flokka sárfátæks verkafólks sem kemur frá svæðum þar sem atvinnuleysi er mikið, til þess að halda áfram þeim leik sem leikinn hefur verið á Kárahnjúkum í skjóli aðgerðarleysis stjórnvalda og halda launum amk niðri við lágmarkstaxta.  Aðbúnaður verði langt fyrir neðan sem viðunandi er.  Engar tryggingar, engin uppsagnarfrestur, engir veikindadagar.  Eða með öðrum orðum kjör sem íslenskt verkafólk getur ekki sætt sig við sakir þess að það getur ekki framfleytt sér hér heima á þeim.  Það er sjálfsagt hægt á svæðum þar sem kostnaður og kröfur eru minni.   Þá spyr maður sig; "Til hvers vegna erum við að skuldsetja íslenskt samfélag um hundruði milljarða, eyðileggja stór svæði í náttúrunni ef allur arður af þessu á að renna úr landi án viðkomu.  Arðurinn rennur til erlends iðjuhrings og launum er haldið niðri til hámarka arðinn. Ekkert rennur til íslensks samfélags og lítil atvinnusköpun á sér stað."   Þessi stefna öfgakenndrar frjálshyggju hefur verið að taka heimsbyggðina kverkataki á undanförnum misserum.  Hún á sér upphaf í stefnumótun bandarískra stjórnvalda.    Samfélagið okkar er að leysast upp vegna áherslu á einstaklingshyggju.  Tryggja á frelsi einstaklingsins til að velja það sem honum sýnist, án tillits til samfélagsins og afleiðinganna.  Allar áherslur miða að sérréttindum þess sem á fjármagnið.  Grafið er undan skipan samfélagsins og þetta leiðir af sér óöld.  Alið er á mýtum til þess að þjappa fólki saman undir þessa samfélagskipan.  Áhrifaríkustu leiðirnar eru að höfða til trúarbragða og þjóðernishyggju.  Alið er á ótta og engu máli skiptir í hugum frjálshyggjumanna hvort mýturnar fela i sér eitthvert sannleikskorn.  Þær gegna einungis því hlutverki að stjórn samfélaginu og skara eld að köku fjármagnseigandans.   Við höfum oft undrast barnalegan hugarheim og röksemdir forystumanna Bandaríkjanna og hinna íslensku Frjálshyggjumanna.  Þær mýtur sem þeir setja fram eru einfaldar og barnalegar þverstæður, enda þarf boðskapurinn að komast til skila.  Dæmi um áhrifamikla mýtu er sú að bandaríska þjóðin sé stórkostleg.  Þjóð sem hafi mikilvægu hlutverki að gegna, berjast gegn hinu illa í heiminum og breiða út hið góða sem er lýðræði og bandaríks gildi. Þetta er lagt að jöfnu við boðun kristinnar trúar og þeir gefa jafnvel hiklaust í skyn að þeir séu sérstakir boðberar Jesú Krists.   Til að láta mýtuna virka þarf að velja sér óvinaríki og það þarf að leiða í ljós af hverju viðkomandi ríki er óvinurinn.  Óvinavæðingin tengist á engan hátt hættunni sem til staðar er, heldur eingöngu metnaði viðkomandi stjórnmálamann til að viðhalda völdum.  Boðuð er róttæk útþenslustefna bandarískra gilda, hernaðarhyggju sem leiðrétta á hið illa í heiminum og skapa samhug heima fyrir. Settar eru upp sjónvarpsstöðvar eins og td CNN sem senda linnulaust út boðskap um hinn afbakaða bandarísk rétttrúnað yfir heimsbyggðina.   Hermann Göring orðaði svipaða hugsun á áhrifaríkan hátt : Fólk vill ekki stríð ... En þegar allt kemur til alla eru  það leiðtogar ríkja sem eru stefnumarkandi og það er alltaf auðvelt að fá almenning á sitt band. Engu skiptir hvort um lýðræðisfyrirkomulag sé að ræða. fasisma, þingræði eða kommúnistastjórn... Það eina sem þarf að gera er að segja almenningi að von sé á árás og gera lítið úr friðarsinnum fyrir skort á þjóðernishyggju og fyrir að leggja þjóðina í mikla hættu það virkar eins í öllum löndum.   Ég spyr ykkur félagar; "Hvar erum við stödd?  Hvert stefnum við?  Hafi einhvertíma verið þörf á öflugum samtökum þá er það nú.  Okkar hlutverk í dag er að brjóta þessa fjötra af okkur og við þurfum að ganga sameinuð til verks."   Helsti forsvarsmaður frjálshyggjunnar á Íslandi og einn af helstu forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar segir hiklaust í fjölmiðlum þegar hann er spurður um hvort stefna hans geti ekki leitt til vaxandi fátæktar og örbirgðar. "Þetta er sjálfskaparvíti fólksins í láglaunastörfunum.  Það getur bara hætt að vinna og farið í háskóla.  Þá fær það mikið betri vinnu og þá getur það sparað og keypt sér hlutabréf".  Þessi hin sami hefur ítrekað sagt í spjallþáttum; Forystumenn stéttarfélaganna ættu að skammast sín fyrir að semja um jafn lág laun og þeir gera." Mörg ykkar hafa verið í samninganefndum, og spyrja má, hafið þið verið í þeirri stöðu að segja fyrir hönd rafiðnaðarmanna, "Nei takk, ómögulega meiri launahækkanir, við getum bara ekki þegið meira" Eru það semsagt launamenn sem stand í vegi fyrir því að laun hækki? Öll þekkjum við það sem heyrist frá stjórnarliðum þegar kjarasamningar eru undirbúnir. Þið þekkið öll söng þeirra um að nú verði að verja stöðugleikann og stéttarfélögin verði að sýna ábyrgð.   Gróðafíkn er orðin að æðsta takmarki og öll fyrirbrigði mannlegrar tilveru eru gerð að mati á kaupgetu. Gleypugangurinn ræður ríkjum, hann er boðorð, fyrirheit og æðsta takmark hins gerilssneidda lífs frjálshyggjunnar. 04.11.04 Guðmundur Gunnarson.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?