Fréttir frá 2004

11 10. 2004

Viðræður komnar af stað

Nú eru viðræður hafnar í flestum þeirra samninga sem RSÍ mun gera í þessari lotu. Um er að ræða samninga fyrir um tæplega helming félagsmanna sambandsins. Nú er búið a halda fyrstu samningafundi um endurnýjun kjarasamninga RSÍ við Landsvirkjun, RARIK, Norðurljós, Kvikmyndahúsin, Norðurál, Járnblendið, Sementsverksmiðjuna og Alcan (Ísal). Ekki er búið að stíga fyrstu skrefin í samningum við Landssímann, Norðurorku, Selfossveitur Reykjavíkurborg og Steinullina. Þar eru kröfugerðir á lokastigi og munu fyrstu fundir líklega verða haldnir í næstu viku. Á þessum samningum eru liðlega 2000 rafiðnaðarmenn.   Kröfugerðir eru vitanlega mismunandi, en eiga þó margt sameiginlegt. Hér er um að ræða fastlaunasamninga og þar verða menn að taka með öðrum hætti á launahækkunum en í opnum almennum markaðslaunasamningum eins og td almenna samning RSÍ. Þar sem einvörðungu er samið um lágmarkstaxta og lágmarkslaunahækkanir, markaðsaðstæður eru látnar ráða launaskriði og myndum launastiga. Á fastlaunasamningum eru einvörðungu um að ræða umsamdar launahækkanir og svo umsamdar hreyfingar milli launaflokka. Það verður að segjast eins og er, að það er ótrúlegt að heyra hve margir fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn blanda þessum tveim gjörólíku samningsgerðum saman í fullkomnu skilningsleysi í einfeldningslegum umræðum sínum um kjarasamninga. Þá sérstaklega þar sem lágmarkstaxtar á fastlaunakerfum og opnum markaðslaunakerfum eru borin saman, og umsamdar launahækkanir á þessum kerfum lagðar að jöfnu.   Að venju höfum við með viðsemjendum okkar hafið vinnuna á því að leggjast í útreikninga á hvert launaskrið hafi orðið á þessum samningum og bera það saman við það sem gerst hafi í sambærilegum störfum á almennum markaði. Einnig er farið yfir launaflokka og innröðun í þá og beiðnir um lagfæringar skoðaðar. Þegar þessum venjubundnu byrjunaratriðum er lokið, vonandi fyrir næstu mánaðarmót, munu viðræður hefjast um önnur atriði eins og kröfur um breytingar á greiðslum í lífeyris- og séreignarsjóði, eins framkvæmdar voru í samningum okkar í vor. Tryggingarákvæði voru endurskoðuð í öllum okkar samningum í vor og verða til umræðu nú. Kröfur eru hjá okkur um endurskoðun á ákvæðum um útköll, hvíldartímaútreikninga og bakvaktir.   Í verksmiðjusamningum hafa í upphafi verið áberandi viðræður um gildissvið samninganna og lagfæringar á bónuskerfum. Viðræður eru á öllum stigum í eðlilegu fari og í sjálfu sér ekki óeðlilegt að reikna með að þeim geti lokið fyrir jól. Hluti þessara samninga renna út 31. nóvember en hinir renna út 31. des. Reiknað er með að þeir muni ná til ársloka 2008, en þeim hugmyndum hefur verið varpað fram sumstaðar að semja jafnvel til enn lengri tíma.   Í samninganefndum okkar eru að venju 1 ? 2 af starfsmönnum sambandsins auk 3 ? 5 trúnaðarmanna rafiðnaðarmanna á viðkomandi kjarasamning. Þeir fara svo í sitt bakland og bera niðurstöður undir félaga okkar. 10.11.04 g.g.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?