Fréttir frá 2004

12 30. 2004

Um hvað er deilt við Kárahnjúka?

Á það var bent strax í upphafi af þekktum aðilum sem höfðu tekið að sér byggingu virkjana þegar Landsvirkjun gekk til samninga við Impregilo, að tilboð Impregilo gæti aldrei staðist ef farið væri að íslenskum lágmarkskjörum Á það var bent strax í upphafi af þekktum aðilum sem höfðu tekið að sér byggingu virkjana þegar Landsvirkjun gekk til samninga við Impregilo, að tilboð Impregilo gæti aldrei staðist ef farið væri að íslenskum lágmarkskjörum.  Ljóst væri að fyrirtækið ætlaði sér að nota verkafólk af láglaunasvæðum.  Þessu var mótmælt harkalega af forsvarsmönnum Landsvirkjunar og ráðherrar fullyrtu hið sama.  Nú virðist vera komið í ljós að okkur hafi ekki verið sagður allur sannleikurinn.  Málið er að snúast upp heiftarlega pólitíska varnabaráttu þar sem öllu á að fórna til varna.  Jafnvel þó það kosti lögbrot.   Flest ríki Evrópu og Norður-Ameríku hafa þrifist á innflutningi fólks.  Allar mest skapandi borgir þessara heimshluta einkennast af fjölbreyttri menningu íbúanna.  En undanfarið hefur í vaxandi mæli borið á deilum um innflytjendur sprottnum af rasisma.  Þar er oftast frekar um að ræða heimsku en einhver ný átök samtímans.  Hún er oftast réttlætt með einhverjum tilvitnunum í trúarbrögð.  Hér má benda á barnalegan hugarheim og röksemdir forystumanna Bandaríkjanna um að bandaríska þjóðin sé stórkostleg.  Hún hafi mikilvægu hlutverki að gegna við berjast gegn hinu illa í heiminum og breiða út hið góða sem í þeirra augum er lýðræði og bandarísk gildi.  Þetta er lagt að jöfnu við boðun kristinnar trúar, jafnvel að þeir séu sérstakir boðberar Jesú Krists.  Við þessar aðstæður virðast menn finna til þarfar að búa til ímyndað samfélag með sama guð og þörf til að verja sig fyrir þjóðum sem trúa á annan guð.  Þessu má líkja við ættbálkastríðin eða þá afleiðingar heimsku rasismans, sem við lærðum um í sögutímunum.   Í vörnum sínum fyrir innflutning verkafólks falla forsvarsmenn Impregilo og Kárahnjúkavirkjunar í þessa gryfju þegar þeir veitast að forsvarsmönnum verkalýðsfélaganna.  Við erum sökuð um rasisma og fordóma gagnvart erlendu launafólki.  Með þessu víkja þeir sér undan því að fjalla um þau atriði sem verkalýðshreyfingin hefur bent á.  Margítrekað hefur verið bent á að hún hafi ekkert við komu erlends verkafólk hingað að athuga.  Málið snúist um að verja umsamin launakjör og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.  Afköst launamanna og tryggð þeirra við fyrirtækin byggist á þokkalegum aðbúnaði og launakjörum.  Hluti af launakjörum í virkjanasamning er bónus og hann hefur vegið allt að 25% af mögulegum tekjum.  Eftir mikla eftirleit tókst loks á fyrri hluta þessa árs að fá Impregilo til þess að semja um bónus, en fyrirtækið hefur aftur á móti ekki staðið við þann samning.  Einnig má benda á að fjölmargir íslendingar og norðurlandabúar hafa sótt um vinnu hjá hinu ítalska fyrirtæki en þeim hefur ekki verið svarað.  Fyrirtækið hefur notað harla einkennilega útreikninga þegar það finnur út í hvernig þeir geti fullnægt lágmarkskjörum, með því að nýta sér til tekna ef tekjuskattar í öðrum löndum eru hagstæðari en hér.  Þá eru launin heildarlaunin lækkuð þar til útborguð laun eru þau sömu og þau væru í íslensku skattumhverfi.  Það hefur vantað töluvert upp á að aðbúnaðarmál þetta séu í lagi við Kárahnjúka.  Þetta hefur vitanlega leitt til þess að starfsmannaveltan þar er gífurleg og verkefnin ganga hægt, eins og komið hefur fram í fréttum undanfarna daga.   Á alþjóðlegum ráðstefnum verkalýðshreyfingarinnar sem ég komið á, hafa fulltrúar hinna vanþróuðu landa komið reglulega til okkar norðurlandafulltrúanna og sagt við okkur; "Þið megið undir engum kringumstæðum slaka á kröfum ykkar um kaup og kjör.  Við vitum að þið liggið undir áskorunum um að gera það, svo bæta megi hina svokölluðu samkeppnistöðu.  Þið standið ofar en við í stiganum, ef þið færið ykkur neðar þýðir það ekki að við stöndum kyrr, okkur verður einfaldlega gert að færa okkur niður jafnmörg þrep.  Þið hafið að vissu leiti líf og framtíð okkar í ykkar hendi.  Fjármagnseigendur standast ekki þá freistingu að nýta sér bláfátækt fólk til þess að hámarka arð sinn. Neðanjarðarhagkerfi blómstra og gjöld til samfélagsins skila sér ekki.  Samfara því gera þau eðlilegan rekstur innlendra fyrirtækja erfiðan eða jafnvel vonlausan. Aðgerðaleysi félagsmálaráðherra okkar hefur valdið því að langtímaatvinnuleysi hefur margfaldast hér á landi.   Fluttir eru inn þúsundir blásnauðra erlendra verkamanna, sem greinilega ofbýður.   Hvergi er meiri starfsmannavelta en við Kárahnjúka, eins og komið hefur fram í fréttum undanfarið.   Við Kárahnjúka virðast gilda sérstök lög samin og sett af ítölskum auðhring og þeim er framfylgt í skjóli aðgerðarleysis og síendurtekinna undanþágna félagsmálaráðherra og íslenskra stjórnvalda.  Ef forsvarsmenn stéttarfélaga vekja athygli á þessu, er þeim gert að þurfa að sitja undir aðdróttunum manna sem syngja þessum þrælabúðum lofsöngva í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna.  Stóriðjufyrirtæki vilja hafa sömu möguleika til þess að sniðganga íslenskt verkafólk og þá um leið gjöld til íslensks samfélags og nýta sér stöðu bláfátækra launamanna til þess að keyra niður launakostnað.  Við sáum í fréttum nýverið hvernig alþjóðleg fyrirtæki níðast á launamönnum og börnum í Kína og leggja líf þeirra og heilsu í rúst.  Aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda við Kárahnjúka er að koma í bakið á íslenskum fyrirtækjum og launamönnum.  Fram koma önnur fyrirtæki og segja; "Af hverju megum við ekki líka?  Af hverju þurfum við að fara eftir íslenskum kjarasamningum og reglum um aðbúnað þegar þess þarf ekki við Kárahnjúka?"  Þetta er bein aðför að íslenskum fyrirtækjum og launamönnum sem hér starfa, sama hvort þeir séu íslenskir eða af erlendu bergi brotnir.  Það er um það sem þessi deila snýst ekki um einhverja fordóma okkar gagnvart erlendum félögum okkar, það er klár heimska að halda því fram. 30.12.04. Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?