Fréttir frá 2003

02 21. 2003

Erum við að búa til atvinnutækifæri fyrir aðra?

Núverandi staða í íslensku efnahagslífi er um margt sérstök. Mikill slaki er í efnahagslífinu og atvinnuleysi umtalsvert. En innan fárra missera má búast við að framkvæmdir við álver og virkjanir valdi aukinni þenslu og jafnvel ofþenslu í hagkerfinu. Fyrir einu ári börðumst við fyrir því að krónan styrktist og náðum verulegum árangri. Nú horfumst við í augu við þann vanda, að krónan er orðin of sterk og sumir spyrja hvort við þurfum að fara að krefjast þess að gengi krónunnar sé veikt, svo hægt sé að verja störf og launakjör.   Með því að viðhalda sterkri krónu er verið að skerða samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem starfa á samkeppnis- og útflutningsmarkaði. Áhrifin af sterkri krónu eru til skamms tíma þau að innflutningsverðlag lækkar og það dregur úr verðbólgu. Við það eykst kaupmáttur launa og staða þeirra sem eru með atvinnu batnar. Tekjur útflutningsgreina dragast saman vegna styrks krónunnar og samkeppnisgreinarnar lenda í svipaðri stöðu. Lakari staða þessara greina mun óhjákvæmilega leiða til samdráttar á vinnumarkaði, enda höfum við verið að upplifa vaxandi atvinnuleysi.   Sú innspýting sem ríkisstjórnin er að spila út, m.a. að kröfu verkalýðshreyfingarinnar, er til þess fallin að styrkja krónuna enn frekar. Í kjölfar þess hafa sumir sett fram þá skoðun að hag launamanna væri líklega best borgið, ef sem flestir þeirra sem vinni við uppbyggingu Kárahnjúka og álvers í Reyðarfirði verði erlendir. Þá muni framkvæmdirnar hafa sem minnst áhrif á íslenskt efnahagslíf og ekki myndist illviðráðanlegur slaki og atvinnuleysi þegar framkvæmdunum verði lokið 2007. Miðaldra fólk man vel hvað gerðist þegar byggingu álversins í Straumsvík og Búrfellsvirkjun lauk 1969 og iðnaðarmenn flúðu í tugavís til Norðurlanda.   Haldi krónan áfram að styrkjast geta vandamál í ákveðnum greinum orðið það stór að leiðrétta verði rekstarumhverfi þeirra með því að lækka laun, ef verja á störfin. Jafnvel  þurfum við að horfast í augu við þennan vanda í næstu kjarasamningum. Verulegar líkur eru á því að við verðum í þessari stöðu 2007 þegar framkvæmdum lýkur. Það mætti skilja orð mín þannig að ég sé að undirbúa kröfurgerð um lækkun launa. En við hljótum að beina sjónum okkar að þeirri hagstjórn sem við búum við. Hagstjórn sem leiðir til þess að það sé betra að sem flestir erlendir starfsmenn séu hér á landi, á meðan íslendingar búa við atvinnuleysi.   Það eru spennandi tímar framundan og hagvöxtur mun vaxa. Eigum við að sitja með hendur í skauti og láta Seðlabankann um vextina og ríkisvaldið um gengi krónunnar. Það er full ástæða til þess að árétta það að við erum ekki að panta gengislækkun. Við höfum síðan 1990 kallað á stöðugleika og lagt mikið af mörkum til þess að það tækist og gerum  það enn. Við höfum hafnað kollsteypuaðferðinni. Sú stefna sem við höfum barist fyrir hefur skilað okkur stöðugri  og jafnri kaupmáttaraukningu. Við börðumst fyrir styrkingu krónunnar, því marki er náð, frekari styrking er óþörf, hún er óheppileg. Stjórn hagkerfisins verður að taka mið af því. Núverandi hagstjórn virðist frekar auka á þennan þrýsting. 21.02.03 gg

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?