Fréttir frá 2003

02 28. 2003

Misrétti í lífeyrisréttindum. Orð skulu standa, þegar það hentar

Þróun vaxandi misréttis lífeyrisréttinda er ískyggileg og hlýtur að halda vöku fyrir forystu ASÍ. Almennir lífeyrissjóðir hafa undanfarið orðið að minnka réttindi sjóðsfélaga, sakir þess að þeir mega ekki lofa framtíðarréttindum sem ekki er hægt að standa við. Á sama tíma er mótframlag ríkissjóðs í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna sem eru í ákveðnum stéttarfélögum utan ASÍ, allt að því helmingi hærra. Í lífeyrissjóð fjármálaráðherra og alþingismanna er mótframlag margfalt hærra. Ekki nóg með það, þessir lífeyrrissjóðir þurfa engar áhyggjur að hafa af skuldbindingum sínum, því ríkisstjórnin hefur ákveðið að ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar þeirra. Ef ekki er til aur fyrir skuldbindingum, þá er bara sendur reikningur til fjármálaráðherra og hann tekur upp ávísanaheftið og skrifar ávísun ef háa iðgjaldið dugar ekki. (En eins og lesandi veit, þá er það hans vasi sem stendur undir útgjöldum sem skapast vegna ávísanaheftis fjármálaráðherra).   Það hefur komið fram í fjölmiðlum undanfarið að sumir lífeyrissjóðir almenns verkafólks, verða að skerða réttindi enn frekar en þegar er orðið. Sú hrikalega staðreynd blasir við að lífeyrisréttindi almenns launafólks sem eru í þessum sjóðum, stefna í að vera helmingi lakari en þeirra opinberra starfsmanna sem fá að vera í lífeyrissjóðum sem fjármálaráðherra hefur velþóknun á. Í þessu sambandi er rétt að minna enn einu sinni á þríhliða samning sem fjármálaráðherra er aðili að og gekk frá fyrir rúmu ári gagnvart Samtökum atvinnulífsins og ASÍ. Hlutur ríkisstjórnarinnar í samningnum var að jafna réttindi launafólks sem væru starfsmenn hins opinbera, sama hvaða stéttarfélögum þeir væru í, þar á meðal lífeyrisréttindi. Launamenn hafa staðið við sinn hluta samningsins og það hafa Samtök atvinnulífsins einnig gert, en þrátt fyrir mikinn eftirgang forseta ASÍ hefur fjármálaráðherra sífellt vikið sér undan því. Ég veit að ráðherra krefst þess aftur á móti að launamenn standi við gerða samninga og stundi sína vinnu í samræmi við ákvæði gildandi samnings og fái fyrir það umsamið endurgjald. Ef við gerðum það ekki værum við annað hvort rekin úr starfi eða lögmönnum sigað á okkur, nema hvort tveggja væri. Orð skulu standa (þegar mér hentar).      Ég stoppaði við þegar ég heyrði ummæli höfð eftir formanni samtaka opinberra starfsmanna á Alþingi, um að nú eigi að taka fjármuni úr lífeyrissjóðum og lána þá á lágum vöxtum til þess að reisa leiguíbúðir. Hvaða lífeyrissjóði er maðurinn að tala um? Er hann að tala um lífeyrissjóði almenns launafólks? Ef svo er þá er hann að lýsa því yfir að hann vilji auka misréttið enn frekar. Ég trúi því ekki, hann er vitanlega að tala um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, hann situr þar í stjórn. En ég sem skattgreiðandi velti því fyrir mér hvort ég sé tilbúinn að leyfa fjármálaráðherra að fara enn dýpra í vasa minn og minnar fjölskyldu til þess að fjármagna dæmið.   Það er með ólíkindum að heyra alþingismenn sífellt tala um lífeyrissjóði eins og þeir séu einhver batterí sem eigi gífurlega fjármuni sem alþingismenn og ráðherrar geti ráðstafað í gæluverkefni. Þessi hugsun er forn og ótæk í nútímasamfélagi. Öll vitum við að lífeyrissjóðir eiga sáralítið fé. T.d. á sjóðurinn minn Lífiðn sáralítið. Hann er nú samt einn af þeim stærstu og er með öflugustu réttindinn, hann á nokkrar tölvur og símtól ásamt húsnæði undir nokkrar skrifstofur. Í þessum sjóði er geymt sparifé mitt og fjölmargra annara rafiðnaðarmanna, sem við ætlum okkur að taka út þegar við hættum að vinna og hafa það huggulegt. Ég kæri mig ekkert um eins og aðrir sparifjáreigendur að ráðherrar eða alþingismenn séu að ráðskast með mína peninga, ég ætlast til þess að þeir séu ávaxtaðir með eðlilegum hætti. 28.02.03. Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?