Fréttir frá 2003

03 12. 2003

Félagsfundur hjá Félagi rafeindavirkja

Félag rafeindavirkja stóð fyrir almennum félagsfundi í gærkvöldi í félagsmiðstöð rafiðnaðarmanna að Stórhöfðanum. Fundurinn var vel sóttur. ...Félag rafeindavirkja stóð fyrir almennum félagsfundi í gærkvöldi í félagsmiðstöð rafiðnaðarmanna að Stórhöfðanum. Fundurinn var vel sóttur. Í upphafi fundarins fór formaður félagsins Oddur Sigurðsson yfir helstu atriði er snúa að félaginu og þakkaði mönnum góða fundarsókn. Hann bauð svo formanni RSÍ pontuna og bað hann um að fara yfir helstu aðtriði í starfsemi sambandsins. Eftir að hafa farið yfir starfsemi RSÍ voru nokkrar umræður um þá þróun sem skólakerfið hefir gengið í gegnum undanfarin misseri. Þar kom m.a. fram í máli formanns RSÍ að menn alhæfðu um of og fjölluðu oft um þetta mál á röngum forsendum. Allir einkaskólar sem væru í almennri tölvukennslu hafa átt við mikinn rekstrarvanda að stríða og það hefði verið tekin ákvörðun um það af stjórn skólakerfisins fyrir allnokkru að draga sig út af af þeim markaði, þetta mætti ekki tengja við önnur leiðindamál sem upp hefðu komið. Öllum var ljóst að þessari ákvörðun myndi fylgja mikill kostnaður m.a. vegna mikilla afskrifta á tölvubúnaði. Eftir mikla skoðun var ljóst að hagkvæmasti kosturinn hefði verið að draga sig alfarið úr þessu á síðasta ári.   Formaður RSÍ sagðist vilja minna menn á í þessu sambandi að það hefði m.a. ítrekað komið fram frá félagsmönnum innan RSÍ að skólakerfi rafiðnaðarmanna ætti að draga úr öðrum rekstri en fagnámskeiða. Einnig væri ljóst að stór hluti þess vanda sem glímt væri við væri vegna 30% verðfalls á skrifstofuhúsnæði. Þessi tvö atriði væru undirstaða þess vanda sem glímt væri við. Þetta væri málefnum fyrrverandi skólastjóra óviðkomandi og enginn gæti verið að saka hann um þetta eins og ítrekað væri gefið í skyn. Það væri einkennilegt að heyra menn færa skólanám sem tap, ljóst væri að menntun sem rafiðnaðarmenn hefðu staðið fyrir væri komin til félagsmanna. Þeir væru betur menntaðir og hefðu betri stöðu á vinnumarkaði. Margir hefðu fengið betri störf og hærri launuð. Menn yrðu að líta til þess að námskeið hefðu verið niðurgreidd til félagsmanna um 230 millj. kr. á síðustu 4 árum. Það hefðu augljóslega verið haldið of mikið af námskeiðum með of fáum þátttakendum, hér vildi hann benda á að margir hefðu einmitt verið að krefjast þess af skólakerfinu að námskeið væru ekki felld niður, þó þátttakendur væru fáir.   Rafiðnaðarskólinn stæði fyrir fagnámskeiðum eftir sem áður og rekstur hans væri tryggður. Reyndar hefðu þessar uppákomur ekki verið hjá Rafiðnaðarskólanum heldur í öðrum skólum, en mönnum væri oft tamt að tala alltaf um Rafiðnaðarskólann þegar þessi mál bæri á góma, reyndar væri það óþægilega oft sem menn töluðu um Rafiðnaðarsambandið þegar þessi mál bæru á góma. Rafiðnaðarsambandið væri fjárhagslega gífurlega sterkt. Það væri einnig rangt eins og sumir héldu fram að Rafiðnaðarskólinn væri gjaldþrota.   Næst fjallaði Friðjón Sigurðsson framkvæmdastjóri Lífiðnar, um stöðu séreigna- og sameignadeilda sjóðsins. Staða Lífiðnar er góð, hann er eini lífeyrissjóðurinn sem á fyrir skuldbindingum, þrátt fyrir að reglugerð sjóðsins væri í mörgu ?dýrari? en hjá öðrum lífeyrissjóðum, þ.e.a.s. að sjóðsfélagar nytu betri réttinda. Friðjón sagði að menn gætu ekki og ættu ekki að ræða um ávöxtun lífeyrissjóða með því að líta til eins árs. Menn yrðu að taka a.m.k. 5 ára meðaltal. Það hefði á síðustu árum verið mikið fall á verðbréfamarkaði í heiminum öllum, það væri ekki kreppa en við værum á næsta stigi við það. Ástæða væri að geta þess að ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða hefði verið mun betri en í öðrum löndum.   Þá fór Örlygur Jónatansson framkv.stj. veikstraumssviðs Rafiðnaðarskólans yfir starfsemi skólans. Hann sagði að unnið væri að endurnýjun námskeiða og eins væri nú á þessari önn boðið upp á ný námskeið og til stæði að bjóða upp á fleiri nýjungar næsta haust. Hann sagði að menn kvörtuðu um of og gagnrýndu starfsemina án þess að koma og skoða hvort gagnrýnin ætti við rök að styðjast.   Ísleifur Árni Jakobsson framkv.stj. Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins fór yfir þá vinnu sem nú stendur yfir við endurskoðun og endurskipulagningu námsbrauta í rafiðnaðargeiranum. Verið væri að undirbúa endurskoðun námsskráa og eins samræmdra prófa. Ísleifur sagði að undanfarinn áratug hefði átt sér stað mikil þróun í raiðnaðargeiranum, þörf á sérhæfðu fólki í tölvugeiranum hefði aukist verulega mikið Það hefðu verið gerðar kannanir meðal rafeindavirkja og í ljós hefði komið að um liðlega 40% starfaði á tölvusviði og um 40% á fjarskiptasviði. Einungis tæplega 10% þeirra starfaði við viðgerðir á tækjum. En námskráin byggði á þeim tíma þegar hlutfallið hefði verið nákvæmlega öfugt við þetta. Hann benti á það eins og reyndar Örlygur kom einnig inn á, að mönnum hætti um of að ræða um að tölvunámskeið væru ekki fagnámskeið, menn yrðu að gæta sín að alhæfa ekki á þessu sviði.   Í lok fundarins var almenn umræða um stöðu félagsins, bókaútgáfu og fleira. Farið var yfir kostnað vegna útgáfu sögu rafeindavirkjunar. 13.03.03.g.g. 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?