Fréttir frá 2003

03 15. 2003

Ályktun um skattbyrði

Miðstjórnarfundur Rafiðnaðarsambands Íslands haldinn 14. marz 2003 tekur undir þau mótmæli sem fram hafa komið m.a. frá Félagi eldri borgara um aukna skattbyrði þeirra sem minna mega sín. Fréttastofa Stöðvar 2 hefur í vetur birt gögn sem unnin voru af hagdeild ASÍ sem sýna sömu niðurstöðu.   Stjórnvöld hafa lagt fram gögn sem eiga að sýna annað, þau gögn eru byggð á öðrum forsendum og segja hálfsannleikann. Það er nöturlegt að heyra stjórnvöld afgreiða gögn sem byggð eru á góðum og traustum grunni með því að þau séu tilkomin sakir þess að viðkomandi hafi horn í síðu stjórnvalda.   Það er óhrekjanlegt að skattbyrði þeirra sem minna mega sín hefur aukist um allt að 5%. Þeir sem eru í þessari stöðu eru oft eldra fólk eða einstaklingar sem af einhverjum ástæðum geta ekki tekið fullan þátt kapphlaupi um betur launuð störf. Einstaklingar sem þurfa að sækja aðstoð til heilsgæslustofnana og eru með meiri lyfjakostnað en aðrir. Ástæða er að geta þess að á sama tíma og skattbyrðin hefur verið að aukast hafa lyfjaverð og þjónustugjöld hækkað, allt bitnar þetta á sama hópnum.   Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands hvetur til þess að þessi mál verði tekin til alvarlegrar athugunar og réttlátrar leiðréttingar. 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?