Fréttir frá 2003

03 22. 2003

Hvað gerðist neðst á blaðsíðu 42?

Ráðstefna rafiðnaðarkennara 21. marz 2003 um kennslugögn í rafiðnaðiRáðstefna rafiðnaðarkennara 21. marz 2003 um kennslugögn í rafiðnaði   Ég man alltaf eftir spurningu úr prófi í sögu þegar ég var í gagnfræðaskóla. ?Hvað gerðist neðst á blaðsíðu 42?? Þessi spurning átti eftir að marka afstöðu mína til kennsluefnis til framtíðar. Nám og kennsla byggðist á því að prófa minni ekki skilning. Ég skildi aldrei hvers vegna sá sem gat munað 10 blaðsíður af ljóðum var talinn betur gefinn en sá sem gat ekki munað eina ljóðlínu en gat tekið í sundur flókna vélasamstæðu, fundið bilun og sett hana saman aftur. Þegar ég hóf kennslu síðar hvatti ég alltaf nemendur mína til þess að taka með sér í próf allt það efni sem þeir teldu að þeir gætu haft not af. Málið snérist um skilning, ekki hversu löng ljóð eða formúlur þeir gætu munað. Ég lagði í mikla vinnu við að þýða frábærar kennslubækur sem samtök danskra rafiðnaðarmanna höfðu látið útbúa. Svo einkennilegt sem það nú var þá sá ég suma kennara nota ljósrit úr dönsku bókunum eftir að bækur á íslensku voru komnar út.     Oft er það svo þegar kennari er ráðinn til starfa að honum er fyrst tilkynnt þegar hann mætir til vinnu hvaða áfanga hann á að kenna. Hann fær stofunúmer og stundatöflu. Engin fer með honum yfir hvað hann eigi að kenna og honum er ekki bent á nein kennslugögn og oft eru engin kennslugögn til. Kennarinn reynir svo að bjarga sér með því að ljósrita úr bókum sem hann finnur. Þetta er afrakstur afstöðu margra fyrrverandi kennara. Þeir hafa haldið því fram að það sé skerðing á frelsi þeirra hvernig þeir standi að kennslu ef það sé ákveðið í námskrám hvaða bækur eigi að nota. Þeir hafa jafnvel fengið styrki til þess að taka saman kennsluefni sem er samansafn af ljósritum úr bókum, en þeir hafa svo alfarið hafnað því að láta þetta af hendi til annarra kennara. Þetta hefur leitt til þess ófremdarástands sem við búum við. Lítið samræmi er á milli skóla því kennsluefni er svo misjafnt, það er jafnvel ósamræmi milli bekkja í sama skóla.   Er heppilegt að kennari sé að ljósrita það sem honum finnst sniðugt að kenna og búi svo til próf úr því efni? Við erum öll þannig að við reynum að fara auðveldustu leiðina, (eins og rafmagnið) þannig að þetta fyrirkomulag hefur leitt til þess að nemar fá stundum ekki kennslu í öllu efninu sem ætlast er til að farið sé yfir í viðkomandi námsáfanga. Það er grundvallarréttur nema að fá kennslu í því efni sem námsskrá segir til um. Hann á rétt á að honum sé sköpuð aðstaða til þess að ná þeim markmiðum sem sett eru, kennslugögn, kennslutæki, aðbúnað og hæfa kennara. Kennarar eiga sama rétt. Rétt á að þeim sé sköpuð aðstaða til þess að vinna þau störf sem ætlast er til af þeim.   Það lendir svo á atvinnulífinu að útvega atvinnu á viðunandi launum. En það gerist ekki nema að neminn hafi tileinkað sér færni sem er umfram það sem gengur og gerist meðal ómenntaðra. Laun eru endurgjald fyrir vinnuframlag. Þar gilda sömu lögmál og fyrir brauðið sem keypt er út í búð. Gæði brauðsins ráða því hvað þú ert tilbúinn að greiða fyrir það og hvað þú leggur á þig til þess að nálgast það. Það hefur stundum vantað á samstarf milli aðila vinnumarkaðar og verkmenntaskóla. Stundum hefur það verið vegna áhugaleysis af hálfu aðila vinnumarkaðar og stundum hefur ríkt það ástand að yfirstjórn verkmenntaskóla banna fulltrúum stéttarfélaga að koma í skólana.   Ég sá nýverið haft eftir fyrrverandi skólastjóra fjölbrautarskóla sem nú er alþingismaður, að hann hefði aldrei orðið var við að fulltrúar atvinnulífs vildu koma í skólann hjá honum. Það vill svo til að í skólastjórnartíð þessa manns gerðu fræðslunefnd og sveinsprófsnefnd í rafiðnaði ítrekaðar tilraunir til þess að fá að koma í skólann og fá að sjá aðstæður þar, sakir þess að ítrekað féllu nær allir nemar úr þeim skóla á sveinsprófum. Skólastjórinn fyrrverandi lagði blátt bann við því að þessir menn fengju að koma í skólann það myndi einungis verða til þess að trufla starf í skólanum.   Sem betur fer er þetta nær óþekkt í dag og samstarf milli aðila vinnumarkaðar er að aukast. Þar hefur núverandi skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík stigið mörg stór skref. Aðilar vinnumarkaðar geta haft jákvæð áhrif, á þann hátt að skapa þrýsting á menntayfirvöld og sveitarstjórnir um að nemendum og kennurum sé sköpuð viðunandi aðstaða. Þar fara hagsmunir okkar saman.  Við erum ekki að koma í skólana til þess að skamma kennarana, og við erum ekki mættir þar til þess að stofna til óeirða vegna kjarabaráttunnar. Við viljum hjálpa til þess að skapa viðundandi starfsaðstöðu. Það sama gildir um þá og okkur, við getum ekki unnið okkar störf nema að hafa bítara, skrúfjárn, lóðbolta, borvél og mælitæki.   En við verðum að gera kröfur um gæði og þau þurfa að vera skilgreind svo allir viti um sína stöðu. Ljósrit úr hinum og þessum bókum sem kennaranum finnast skemmtilegar, þurfa ekki að vera það besta. Við erum ekki að taka eitthvert sjálfstæði af kennurum  þó við setjum fram kröfu um þau lágmarkskennslugögn sem þeir eiga að fara í gegnum. Það er svo annað mál hvort þeir ljósriti einhver blöð úr öðrum bókum til þess að ná fram betri skilning hjá nemum. Þessi kennslugögn geta legið miðlægt á heimasíðu fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins. Sama gildir um prófabanka. Þá vita allir til hvers er ætlast af þeim. Ef neminn getur á augabragði fundið viðfangsefni prófverkefnisins í kennslubókinni og hann finnur svarið neðst á blaðsíðu 42, er það gott mál. Hann sýnir að hann skilur verkefnið og veit að þetta er rétta svarið. Ef neminn kann svörin við öllum spurningunum í prófabankanum á hann sannarlega skilið að fá 10 í prófinu. Hann er búinn að læra það sem ætlast var til af honum. 22.03.03 Guðmundur Gunnarsson.  

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?