Fréttir frá 2003

04 11. 2003

Albert Karl Sanders - Minning

Góður félagi rafiðnaðarmanna hefur kvatt okkur. Albert, eða Alli Kalli eins við kölluðum hann alltaf, var eitt af þessum félagsmálatröllum. Hann hafði djúpan félagslegan þroska, ákaflega góða yfirsýn, var hreinlyndur, heilsteyptur og góður drengur. Einn af þessum mönnum sem dró til sín verkefnin og vann að lausn þeirra. Þurfti ekki að olnboga sig áfram, það var leitað til hans. Alli Kalli nam rafvirkjun á Ísafirði og tók sveinspróf 1951. Hann flutti suður 1963 og settist að í Njarðvík og vann lengst af hjá Varnarliðinu, en var bæjarstjóri í Njarðvík 1974 ? 1986, mikill sjálfstæðismaður og vann mikið fyrir flokkinn og sat í nánast í öllum stjórnum og nefndum sjálfstæðismanna á Suðurnesjum. Eftir að hafa látið af störfum sem bæjarstjóri tók hann við starfi veitustjóra á Keflavíkurflugvelli þar til hann fór á eftirlaun.   Nánast sama dag og Alli Kalli kom suður voru starfsfélagar hans búnir að átta sig á að þarna var á ferðinni góður félagsmálamaður og fólu honum margskonar trúnaðarstörf. Á þeim tíma var Félag íslenskra rafvirkja landsfélag, en unnið var að undirbúningi stofnunar Rafiðnaðarsambands Íslands. Alli Kalli tók mjög virkan þátt í þeirri vinnu. Stofnað var Rafiðnaðarfélag Suðurnesja úr Félagi íslenskra rafvirkja fyrir það  svæði og Alli Kalli varð fyrsti formaður þess. Hann sat í undirbúningsstjórn RSÍ og tók sæti í fyrstu miðstjórn RSÍ við stofnun þess 1970 og sat þar til 1976. Hann hafði mikinn áhuga á að efla menntun rafiðnaðarmanna og tók þátt í því starfi og var m.a. í sveinsprófsnefnd. Óhætt er að fullyrða að Alli Kalli hafði mjög mikil áhrif á mótun skipulags og innra starfs RSÍ. Skipulag RSÍ er með töluvert öðrum hætti en hjá öðrum stéttarfélögum, en þetta skipulag hefur reynst ákaflega farsælt og þeir sem lögðu þann grunn hafa greinilega haft djúpan skilning á félagslegu starfi og verið framsýnir.   Fljótlega eftir að ég tók sveinspróf var ég kominn í trúnaðarráð og í samninganefnd. Ég kynntist Alla Kalla í samningunum löngu þegar nánast gjörvöll verkalýðsforystan hélt til á Hótel Loftleiðum í tvær vikur 1974. Mestur tíminn fór í bið og sátum við löngum stundum við að spila bridge og fylgdumst með gangi mála í útvarpsfréttum, þær sögðu okkur oft meir hvað væri að gerast í húsinu en við vissum þó við værum þarna á staðnum. Það geislaði af Alla Kalla og hann var hrókur alls fagnaðar en eldsnöggur að setjast að þeim málum sem undir okkur voru borin og fljótur að átta sig á hvaða afstöðu við ættum að taka.   Fyrir hönd rafiðnaðarmanna þakka ég góð kynni og gott framlag til okkar samtaka. Rafiðnaðarmenn senda fjölskyldu Alla Kalla hugheilar samúðarkveðjur Guðmundur Gunnarsson form. Rafiðnaðarsambands Íslands       

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?