Fréttir frá 2003

04 15. 2003

Fátæktargildrur - tekjutenging bóta - skattalækkanir.

Í kosningabaráttunni er mikið rætt um skattalækkanir og nú virðast miklir möguleikar vera til staðar. Framundan eru mestu framkvæmdir Íslandssögunnar. Heimsmet miðað við fólksfjölda með heildarfjárfestingu upp á 187 milljarða kr.Í kosningabaráttunni er mikið rætt um skattalækkanir og nú virðast miklir möguleikar vera til staðar. Framundan eru mestu framkvæmdir Íslandssögunnar. Heimsmet miðað við fólksfjölda með heildarfjárfestingu upp á 187 milljarða kr. Þetta mun skapa mikla spennu með efnahagslegum áhrifum í aukinni eftirspurn, viðskiptahalla og verðbólgu í skamman tíma (ef rétt er haldið á spilunum). Miklar skattalækkanir núna eru því í raun ekki skynsamleg ákvörðun og ætti frekar að grípa til þeirra í lok framkvæmdatímans, þ.e.a.s. árið 2007, þá mun myndast slaki í hagkerfinu.   Mann rekur reyndar í vörðurnar þegar hlustað er á umræðuþættina, þar tala stjórnmálamenn eins og það séu þeir sem hafi staðið að kjarasamningum undanfarin ár og þeir tala um skattalækkanir eins og þar sé um að ræða einhverja skiptimynt í komandi samningum á næsta ári. Mesta hættan sem blasir við ef fiktað er í skattakerfinu, er að við gætum lent í eftirágreiddum sköttum, með tekjusveiflur. Atvinnuþátttaka hér er mjög há og tekjusveiflur eru miklar, langt umfram það sem þekkist í öðrum löndum.   Það hefur verið nefnt að setja allt að 20 milljarða kr. í skattalækkanir og velferðarkerfið. Rætt hefur verið um nokkrar mismunandi leiðir, en flestir hafa staldrað við hækkun skattleysismarka. Það muni koma þeim sem minnst mega sín best. Það væri hægt að lækka skatta sem næmi allri þessari upphæð. En skilar sú leið mestum árangri? Í umræðum hér á RSÍ höfum við komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Við getum náð mun lengra í jöfnun fyrir sömu upphæð. Hverjir eru það sem eru verst settir í okkar þjóðfélagi? Það eru einstæðar mæður, öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Þetta fólk er fast í fátæktargildrum. Hækkun skattleysismarka hjálpar lítið, flestum ekkert. Eru einhverjir aðrir sem eru með tekjur á þessu bili. Jú, en flestir eru ungt fólk, einstæðingar sem vinna hlutastörf og búa á hótel mömmu.   Ef persónuafslátturinn væri hækkaður þannig að skattleysismörkin verði um 79. þús. kr. Það svarar til um 9.404 kr. hækkun skattleysismarka á mánuði: Það kostar ríkissjóð um 8 milljarða kr. Þessi leið hefði mestu áhrif fyrir þá tekjulægstu. Vitanlega er hægt að hækka skattleysismörkin enn meir, en það fer upp í gegnum allan skattstigann og kostar miklar fjárhæðir.   Skerðingar í íslenska bótakerfinu byrja við allt of lág mörk og þær eru mjög brattar. Þetta leiðir til þess að ef sá sem er á bótum er nú þannig stemmdur og hefur vilja til að reyna að bjarga sér t.d. með hlutastarfi, þá hegnir kerfið honum og bæturnar lækka jafnvel meir en nemur launum. Skilaboð kerfisins til þessa fólks; þið eruð í slæmri stöðu og verið nú ekki að reyna breyta því. Það sem kæmi þessu fólki best er að hækka skerðingarmörkin í bótakerfinu verulega, t.d. um helming eða upp í 140 þús. kr., sem við teljum vera þau lágmarkslaun til þess að geta framfleytt sér. Ef skerðingarmörk í barnabótakerfinu væru hækkuð í 140 þús. kr. kostar það um 1.7 milljarða kr.   Með þessu móti er hægt að ná mun lengra í jöfnun lífskjara en með því að hækka skattleysismörk umfram það sem getið er um hér framar. Sama gilti um ef skerðingarmörk á öðrum bótum væru hækkuð verulega, eins og t.d. örorkubótum og ellilífeyri. Oft stendur þeim sem hafa skerta starfsorku eða einstaklingum á lífeyrisaldri til boða að grípa til hendinni og afla sér aukatekna og losa um fátæktargildruna. Í dag er kerfið þannig að það borgar sig ekki og þetta fólk situr í sömu súpunni.    15.04.04 Guðmundur Gunnarsson  

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?