Fréttir frá 2003

05 1. 2003

1. maí ræða 2003 á hátíð verkalýðsfélagsins Afls í Skrúð á Fáskrúðsfirði

Til hamingju með daginn Um aldamótin birtist í Ísafold eftirfarandi lýsing. "Í Reykjavík og víðar í verslunarstöðum gengur sama óreglan, að daglaunamenn verða að vinna hjá kaupmönnum óákveðinn vinnutíma og þar á ofan er það beitt allmikilli hörku. Vinna hefst snemma á morgnana, stundum kl. 5.00 og stendur til kl. 10 á kvöldin. Þar við bætist, að þeir fá engan ákveðinn tíma til að neyta matar, heldur verða að stelast til að rífa í sig matinn undir pakkhúsveggjum og á bryggjunum, eins og hungraðar skepnur eða siðlausir menn. Skyldi í nokkrum höfuðstað nokkurs lands vera farið þannig með menn sem eru frjálsir í orði kveðnu? Á ekki hingað rót sína að rekja sljóleiki sá og hugsunarleysi, deyfð og doði, sem gjörir daglaunamenn almennt svo vanafasta og framtakslausa?" Við höfum náð langt síðan þessi staða var. Verkafólk hefur með samstöðunni tekist smám saman að brjóta niður múrana og skapa sér það frelsi og velmegun sem við búum við í dag. Verkalýðsfélögin hafa komið í gegn mörgum veigamiklum málum. Þar má nefna Vökulögin, slysatryggingar og lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Sjálfsákvörðunarrétt verkafólks, orlof, almenna frídaga, veikindarétt, bættan aðbúnað á vinnustöðum, uppsagnarfrest, lífeyrissjóði og þannig mætti lengi upp telja. Allar þessar réttarbætur hafa kostað verkafólk mikla baráttu og löng verkföll. Í dag er litið á þessi atriði sem sjálfsögð réttindi og fólk þekkir ekki annað. Oft er það svo að stjórnmálamenn eru að hreykja sér af því að það hafi verið þeir sem komu þessum réttlætismálum fram. Þrátt fyrir að þeir hafi oft staðið við hlið atvinnurekenda og barist harkalega gegn verkafólki þegar það stóð í hatrammri baráttu fyrir réttindum sínum. Virðing og velferð Þjóðfélag okkar hefur í vaxandi mæli mótast af harðnandi markaðs- og frjálshyggju. Fjölmiðlar eru í eigu fjármálamanna og þeir reka þá með því hugarfari einu að ná sem mestum hagnaði. Fjölmiðlar eru háðir auglýsingum og kostun. Það er ekki verkafólk sem auglýsir. Nú er svo komið að fréttatengdir viðtalsþættir eru kostaðir af fyrirtækjum. Það er ekki verkafólk sem kostar þessa þætti. Komast sjónarmið verkafólks þar að? Miklar þversagnir blasa við í íslensku samfélagi. Aldrei hefur þjóðfélag okkar verið jafn vel efnum búið. Við höfum aldrei átt betur menntað fólk á öllum starfssviðum. Aldrei fyrr höfum við ráðið yfir annarri eins tækni á öllum sviðum til að gera okkur lífið auðveldara. Við borum göng undir botn sjávar og undir stærstu fjöll á Íslandi. Í mörgum greinum tækni og vísinda erum við íslendingar í fararbroddi. Þegar hulunni er svipt af viðkvæmum umræðuefnum í þjóðfélagi allsnægtanna, þá blasa við hrópandi mótsagnir. Þrátt fyrir frábært fagfólk í heilbrigðisþjónustu og nægt húsnæði, þá er það ekki nýtt. Sárþjáð fólk þarf að bíða mánuðum og jafnvel árum saman á biðlistum eftir sjálfsagðri læknisþjónustu. Eldri borgarar, öryrkjar og fátækir hafa ekki efni á að kaupa nauðsynleg lyf, en á sama tíma erum við í forystu lyfjaframleiðslu. Við eigum að afmá þessar þversagnir úr þjóðlífinu. Okurverð á matvöru og vaxtaokur Fákeppnin er ríkjandi á mörgum sviðum. Öll þekkjum við olíufélögin og tryggingarfélögin og samtryggingu þeirra. Nýlenduvöruverzlun hefur færst á hendur örfárra aðila. Verðlag á nauðsynjavörum hefur hækkað hér á landi, meðan það lækkar í öðrum löndum. Verðlagskannanir sýna okkur fram á að við búum við mestu okurbúllur í heimi. Hér á landi er mesta vaxtaokur sem þekkist á byggðu bóli. Hvers vegna taka stjórnvöld ekki á því. Er það vegna þess að þá gæti lækkað í kosningasjóðunum? Þeir sem eiga fjármagnið borga mest og auglýsa mest. Peningastofnanir skila ofboðslegum tekjuafgangi, en engum dettur í hug að lækka vexti. Tekjuafganginum er skilað í tugmilljóna bónusgreiðslum til örfárra einstaklinga. Mesta kjarabót sem við gætum fengið er lækkun á vöxtum og lækkun á matvöru. Hvort tveggja eru þetta atriði sem stjórnvöld gætu staðið að. Atvinnuleysi og atvinnustefna Í atvinnumálum stöndum við Íslendingar og þá sérstaklega Austfirðingar á krossgötum. Við blasir mikil atvinna vegna framkvæmda í samgöngumálum og mannvirkjagerð. Þessu mun fylgja fólksfjölgun og fjölgun atvinnutækifæra í öðrum greinum ef rétt er á málum haldið. Við verðum að huga að árangursríkri atvinnustefnu til framtíðar. Hún byggir á nýsköpun í atvinnulífinu og aukinni menntun. Þekkingariðnaði, þróaðri ferðaþjónustu og framsækinni stefnu í vísindum og listum. Við þurfum að marka okkur ákveðnari atvinnustefnu sem byggir á því að setja fleiri og öruggari stoðir undir atvinnulíf landsmanna til framtíðar. Velferðarmál Verkalýðshreyfingin hefur lagt fram stefnu í velferðarmálum sem unnin hefur verið í nánu samstarfi við almannaheillasamtök. Tillögurnar taka á helsta afkomuvanda atvinnulausra, öryrkja, eldri borgara, foreldra langveikra barna og sjúkra. Einnig á húsnæðisvanda þeirra tekjuminni, heilbrigðismálum og bráðavanda fátækra. Það er forgagnsverkefni að styrkja og efla velferðarkerfið. Árlega kemur í ljós að framlög til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana eru stórlega vanáætluð. Forstöðumenn þeirra eru síðan kjöldregnir af stjórnvöldum og skipað að segja upp starfsfólki og draga úr þjónustu. Þetta er gert þrátt fyrir að ljóst sé að bæta þurfi stöðu hópa þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Allt þetta kostar peninga. Við verðum að standa vörð um velferðarkerfið og þétta öryggisnet þess. Það verður ekki gert um leið og stórfelldar skattalækkanir eiga sér stað. Það er gríðarleg þversögn fólgin í þeirri skattaumræðu sem fram hefur farið í kosningabaráttunni. Stjórnmálamenn í kosningabaráttu hafa gefið fyrirheit á báða bóga sem útilokað er að standa við nema vegið verði enn frekar að velferðarkerfinu. Ef svigrúm reynist vera fyrir hendi til að lækka skatta, þá á að gera það með þeim hætti að þær gagnist þeim sem eru með lægri tekjurnar. Það á að gera með því að draga úr jaðarsköttum á lægri tekjur og jaðaráhrifum barnabóta með því að hækka skerðingarmörk bóta verulega. Til að auðvelda þeim sem tekjulægri eru til þess að vinna sig úr fátæktargildrum. Skattbyrði þeirra sem minna mega sín hefur aukist um allt að 5%. Þeir sem eru í þessari stöðu eru oft eldra fólk eða einstaklingar sem af einhverjum ástæðum geta ekki tekið fullan þátt kapphlaupi um betur launuð störf. Fátæku fólki hér á landi fer fjölgandi. Það gagnar ekki að berja hausnum við steininn og neita að vandinn sé fyrir hendi. Stjórnvöld verða að horfast í augu við þennan vanda. Sérstök ástæða er til þess að minna á að skattalækkanir verða ekki skiptimynt í stað réttmætra launahækkana sem launamenn mun semja um í næstu kjarasamningum. Verkalýðshreyfingin vill raunsæi í umræðu og aðgerðum í skattamálum. Launamisréttið Þrátt fyrir að verkalýðshreyfingunni hafi tekist að lyfta kaupmætti lægstu launa umtalsvert umfram önnur laun á undanförnum árum, er enn mikið verk að vinna í launamálum. Almennt launafólk þarf að horfa upp á algert siðleysi varðandi laun stjórnenda. Forstjórar á ofurlaunum hafa sannarlega boðið heilbrigðri skynsemi og öllu siðgæði í landinu birginn. Það eru launamenn sem skapa arðinn með vinnu sinni. Fjármagn eitt út fyrir sig er einskis virði, það skapar ekki arð. Það eru starfsmenn fyrirtækjanna sem skapa arð með vinnu sinni við að breyta hráefni í verðmæta vöru. Við krefjumst réttlátara þjóðfélags þar sem virðing og velferð eru höfð að leiðarljósi. Velferðarkerfi þar sem allir hafa jafnan aðgang með því að renna stoðum undir atvinnulíf landsmanna til framtíðar með árangursríkri atvinnustefnu sem byggir á nýsköpun og aukinni menntun. Með samstöðu getum við útrýmt fátækt og launamisréttinu. Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?