Fréttir frá 2003

05 8. 2003

Löggilding starfsheitisins Raffræðingur

Í byrjun árs 2001 komu nokkrir áhugasamir einstaklingar, starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur saman og ræddu sín á milli um það ófremdarástand sem ríkti hjá rafvirkjum, sérstaklega  þeim sem störfuðu hjá ríki og borg, að mjög erfitt væri að fá menntun sína metna, bæði í störfum og launum, allir virtust jafnir óháðir menntunarstigi og hétu allir rafvirkjar eða rafiðnaðarmenn. Ákváðu þessir einstaklingar í framhaldi, að skrifa iðnaðarráðherra bréf og óska efir löggildingu á starfsheitinu raffræðingur, til handa þeim sem lokið hafa meistaraskóla eða framhaldsmenntun sem gæfi rétt til A og B eða C löggildingar í faginu. Var fyrsta bréfið sent þann 17. júni 2001  og fylgdu nokkkur þar á eftir. Vel þurfti að vanda til málsins og rökstyðja fyrir þingnefnd, ráðuneyti ofl. aðilum. Þann  2.maí 2002  voru svo samþykkt frá Alþingi lög no.69 um breytingar á lögunum no. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni og hönnunargreinum(EES-reglur). Með lagabreytingu þessari var starfsheitið Raffræðingur löggilt, og reglugerð um starfsheitið nr.660, kom 30.ágúst 2002   En betur má ef duga skal, því í framhaldi af þessu, á Umhverfisráðuneytið eftir að breyta skipulags og byggingarlögum no.73/1997 og reglugerð no. 610 26. nóv. 1996 þannig að allir rafvirkjar fái aftur réttindi sín sem þeir eiga samkvæmt 17. gr. iðnlaga, og 70 ára hefð. Þarna er um að ræða raflagna-teikniréttindi sem allir rafvirkjar þurfa og eiga  að hafa, svo allir raffræðingar og rafvirkjar sitji við sama borð, því allir uppfylltu þeir kröfu sveinsprófsnefnda.  Áður áttu menn rétt á sérstöku löggildingarskjali sem staðfesti rétt rafvirkja að loknu meistaranámi. Nú hefur löggildingarstofan hætt að löggilda rétthafana nema þeir uppfylli kröfur sem gerðar eru til að öðlast rafverktakaleyfi, verður þetta að teljast mjög hæpið og vægast sagt mjög vafasamt þar sem ekki þarf að fara saman  þörf á löggildingu annarsvegar og  rafverktakaleyfi hinsvegar. Mörg fyrirtæki þurfa á kunnáttumönnum að halda sem hafa löggildinu en þurfa ekki að vera rafverktakar.  Ekkert ætti því að koma í veg fyrir útgáfu löggildinga eftir meistaranám, enda er greitt fyrir löggildinguna.  Löngu var orðin þörf á betri skilgreiningu á störfum rafvirkja, þ.e. að þeir rafvirkjar  sem lokið hafa námi í meistaraskóla eða lokið námsáföngum, og framhaldsnámi sem gefur  þeim rétt til að öðlast A eða B  löggildingu til rafvirkjunarstarfa, fái þetta nám sitt metið eins og önnur framhaldsmenntun er metin í öðrum greinum, of mikill ruglingur var og er í gangi meðal rafiðnaðarmanna með eða án sveinsprófs, iðnbréfs frumréttindaveitinga, sem og annara í sérhæfðum störfum, með mislangan  starfsaldur og menntun á sviði rafiðnaðar. Þessi ruglingur virðist jafnvel hafa leitt til þess að þessi löggilti starfsréttur hafi verið sniðgenginn og er það brot á iðnlögum. Við rafvirkjar viljum og verðum að standa vörð um iðnréttindi okkar, glötum ekki þeim réttindum sem við höfum öðlast, því þá glötum við líka laununum. Það er von okkar að þessi nýja skilgreining eigi eftir að auðvelda yfirmönnum fyrirtækja, ráðningastofum, og öllum þeim sem annast gæðastjórnun á rafmagnssviði hjá fyrirtækjum og þurfa á kunnáttumönnum að halda, val á réttindamönnum þar sem starfsheitið gildir á öllu EES svæðinu og tryggir að ekki geta aðrir verið raffræðingar, en þeir sem lokið hafa námi sem gefur rétt til löggildingar samkvæmt reglugerð no.264/1971 um raforkuvirki með síðari breytingum sérstaklega reglugerð no. 285/1998   Nú þegar hafa um 50 einstaklingar fengið leyfi sem raffræðingar og enn fleiri sótt um, eru því allir sem telja sig eiga rétt til starfsheitisins kvattir til að sækja um starfsheitið. Umsóknareyðublöð ásamt gátlista er hægt að nálgast á vef Iðnaðarráðuneytisins. Sigurbjörn Ingi Sigurðsson. Raffræðingur

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?