Fréttir frá 2003

05 14. 2003

Ályktun um úrskurð Kjaradóms

Ályktun ASÍ um nýgenginn úrskurð kjaradóms á kjördag. Alþýðusamband Íslands mótmælir harðlega nýgengnum úrskurði Kjaradóms um hækkun launa og lífeyrisréttinda þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna. Fyrir liggur að þessar hækkanir eru algjörlega órökstuddar og í engu samræmi við launaþróun á almennum vinnumarkaði. Þetta eru því afar kaldar kveðjur til almenns launafólks sem eitt hefur mátt axla byrðarnar af því að tryggja hér stöðugleika.   Alþýðusamband Íslands telur að þessi úrskurður muni torvelda endurnýjun kjarasamninga um næstu áramót, m.a. hvað varðar tímalengd þeirra. ASÍ vekur jafnframt athygli á því að hluti þeirra sem þessara launahækkana njóta bera pólitíska ábyrgð á stöðugleikanum næstu misserin. Launafólk mun fylgjast með hver viðbrögð væntanlegrar ríkisstjórnar verða við þessum úrskurði.   Alþýðusambandið lýsir furðu sinni á því að Kjaradómur skuli hafa valið að birta þennan úrskurð daginn eftir kosningar, en ekki fyrir þær. Varla er hér um slíkt feimnismál að ræða að það þoli ekki pólitíska umræðu. Niðurstöðu dómsins má rekja beint til þess umboðs sem ráðherrar og ríkisstjórn hafa veitt embættismönnum og forstöðumönnum ríkisins í launa og kjaramálum starfsmanna ríkisins. Þess vegna hefði verið eðlilegt að þetta málefni hefði verið hluti af pólitískri umræðu í aðdraganda kosninga.   Það er orðin venja fremur en undantekning að Kjaradómur úrskurði þessum aðilum launahækkanir sem eru allmiklu meiri en launafólk á almennum vinnumarkaði hefur fengið. Síðast hækkaði Kjaradómur laun þessara aðila þann 1. janúar 2003 og þá tvöfalt meira en almennar launahækkanir kváðu á um. Samkvæmt venju má eiga von á því að Kjaranefnd ? sem úrskurðar um laun annarra háttsettra embættismanna ? sendi frá sér úrskurð um álíka hækkun á næstu dögum.   Nánari upplýsingar veitir Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, s. 896 4559.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?