Fréttir frá 2003

05 23. 2003

Um störf Jóns Árna Rúnarssonar í skólakerfi rafiðnaðarmanna.

Skýrsla Atla Þórs Þorvaldssonar, fjármálastjóra Rafiðnaðarskólans, um störf fyrrverandi skólastjóra.Undanfarið ár hafa ítrekað verið bornar margskonar ásakanir á stjórnarmenn í því skólakerfi sem rafiðnaðarmenn hafa rekið. Þar hefur oft verið farið æði fjarri raunveruleikanum og eins hefur óskyldum málum verið blandað saman og síðan dregnar ályktanir sem engar forsendur voru fyrir. Margoft hefur komið fram að ekki sé hægt að svara þessu fyrr en búið sé að fara yfir málin af hálfu endurskoðenda, lögmanna og dómskerfinu. Með því væri verið að flytja málsmeðferð út á götuna og RSÍ vildi ekki vera aðili að því. RSÍ og forystumenn sambandsins ásamt starfsmönnum gengu fram fyrir skjöldu til að leysa þau gífurlegu vandamál sem við blöstu. Búið var að keyra reksturinn í þrot og endurskipuleggja þurfti allt skólastarfið. Það var ekki auðvelt á meðan ásakanir af ýmsu tagi dundu á þessum mönnum og þeim var uppálagt að svara ekki fyrir sig. Ástæða er geta þess sérstaklega að það var ekki í Rafiðnaðarskólanum sem stærstu vandamálin voru heldur í skólum sem reknir voru í Faxafenshúsinu. Þeir skólar voru reknir í samstarfi við önnur samtök. Einnig er sérstök ástæða að geta þess að Rafiðnaðarsambandið stendur ekki eitt að rekstri Rafiðnaðarskólans, Samtök atvinnurekenda eru þar helmingsaðili. Þegar rekstrarvandi skólakerfisins blasti við á árinu 2001 og framúrkeyrsla Jóns Árna í skuldaaukningu, var lagt að Jóni Árna að ráða fjármálastjóra. Hann vék sér ætíð undan með margskonar afsökunum.  Formaður og gjaldkeri RSÍ gengu í málið og gengið var frá því að Atli Þór Þorvaldsson viðskiptafræðingur myndi hefja störf 1. janúar 2002. Jón Árni hafnaði að starfa með fjármálastjóra og framkvæmdastjórn, sem varð ein helsta ástæða þess að honum var vikið úr starfi. Skömmu eftir að Atli Þór hóf störf, kom í ljós margskonar fjárdráttur Jóns Árna. Atli Þór hefur skrifað eftirfarandi greinargerð um  stöðuna eins hún hefur komið honum fyrir sjónir.Guðmundur Gunnarsson   Mikil umræða hefur verið um skólakerfi rafiðnaðarmanna undanfarna mánuði.  Hefur fyrrverandi skólastjóri Rafiðnaðarskólans, Jón Árni Rúnarsson verið kærður og dæmdur til þess að endurgreiða um 32 mkr sem hann tók sér ófrjálsri hendi.  Sami maður, JÁR hefur farið mikinn m.a. í fjölmiðlum og talað um ofsóknir á hendur sér.  Undirrituðum þykir því rétt að fara aðeins yfir verk JÁR, eins og þau koma mér fyrir sjónir, eftir ítarlega skoðun á bókhaldi, fundargerðum og öðrum gögnum skólakerfisins.  Við þá athugun kom ýmislegt í ljós sem ekki getur talist eðlilegt. Ýmis lögbrot. Í fyrsta lagi hefur Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt Jón Árna Rúnarsson til endurgreiðslu á tæpum 32 mkr, auk vaxta og málskostnaðar, sem þýðir að hann þarf að greiða til baka yfir 41 mkr.  Þessa fjármuni greiddi JÁR sjálfum sér út af reikningi Endurmenntunarnefndar rafeindavirkja  án nokkurs samþykkis og án þess að gera grein fyrir því með bókhaldi. Ýmislegt fleira tengt störfum Jóns Árna er vafasamt.  Hann tók sér oft til persónulegs láns háar fjárhæðir, svo nam milljónum króna, án þess að leita heimildar hjá sínum yfirmönnum.  Í einu tilviki fékk hann lánaðar 3 mkr hjá RTV Menntastofnum og greiddi til baka þremur mánuðum síðar.  Þá eru tilvik sem hann gefur ekki eðlilegar skýringar á og litið hefur verið á sem tilraun til þjófnaðar.  Þannig gefur hann sjálfur út ávísun að fjárhæð kr. 800.000 af reikningi RTV án þess að gera grein fyrir fjárhæðinni.  Þegar hann var inntur skýringa á því segir hann þetta vera vegna bílakaupa, en við athugun kom í ljós og svo var sannanlega ekki. Með sama hætti skýrir hann 500.000 krónur sem hann fékk hjá Viðskipta- og tölvuskólanum, sem fasteignaviðskipti, en mun hafa notað þá peninga í eigin þágu. Einnig vitum við um tilfelli þar sem JÁR lét greiða sér persónulega fyrir nám nemenda í VT skólanum og lét síðan fella skólagjöld viðkomandi nemenda niður.  Má þar nefna árskort í líkamsrækt sem hann notaði sjálfur í stað þess að nemandi greiddi skólagjöld.  Í öðru tilviki fékk hann í hendur málverk, sem áttu að koma sem greiðsla fyrir skólagjöld.  JÁR lét fella niður skólagjöld nemandans, seldi síðan  Rafiðnaðarskólanum eitt málverkið á 65.000 krónur og seldi líka VT skólanum annað málverk á 450.000 krónur, en þar gerðist hann auk þess sekur um skjalafals.  Nótan sem hann hafði fengið með málverkinu hljóðaði upp á 150.000 krónur, en JÁR breytti upphæðinni í 450.000 krónur (breytti tölustafnum 1 í 4). Þá er rétt að geta tilvika í sambandi við fasteignaviðskipti þar sem JÁR hagnast um nokkrar milljónir á kostnað VT skólans.  Þannig var að um mitt ár 1998 var VT að kaupa nokkur fasteignabil á 2. hæð Framtíðarhússins í Faxafeni 10 fyrir 25 mkr. af Íslandsbanka.  JÁR kaupir þar sama dag, í sömu viðskiptum, í eigin nafni hluta af einu bilinu á 3,6 mkr.  Í árslok 1999 selur hann VT sama bil á yfir 9 mkr.  Hann sem skólastjóri VT skólans og framkvæmdaraðili allra fasteingaviðskiptanna í Faxafeni hefði að sjálfsögðu átt að gæta þess að VT fengi húsnæðið beint frá Íslandsbanka eða á sama verði og hann keypti bilið á sjálfur. Viðskipti með fyrirtæki. Jón Árni stóð fyrir því að nokkur fyrirtæki voru keypt til skólakerfisins.  Tölvuskóli Reykjavíkur var keyptur á 24,5 mkr.  Þar var um að ræða skóla sem barðist við gjaldþrot og verðið margfalt of hátt.  Hafi ætlunin verið að kaupa upp samkeppni, þá var það óþarfi því skólinn var að komast í þrot.  Auk þess að Rafiðnaðarskólinn sjálfur sett upp allt það nám hjá sér sem TR hafði upp á að bjóða.  Annað fyrirtæki, Fjarvídd, var keypt, án þess að hægt sé að réttlæta það verð sem fyrir var boðið.  Þannig var að fjórir einstaklingar sem áttu Fjarvídd höfðu verið ráðnir til starfa í skólaumhverfinu.  Þrír þeirra áttu að kenna við CTEC deild Rafiðnaðarskólans og einn átti að sjá um tæknimál Margmiðlunarskólans.  JÁR bauð þeim 7 mkr. fyrir Fjarvídd, sem átti að nýta sér afsláttarkjör Fjarvíddar til tækjakaupa fyrir skólana.  Ætla má að ná hefði mátt góðum kjörum í nafni Rafiðnaðarskólans eða RTV menntastofnunar, þannig að ekki er hægt að réttlæta svo háa greiðslu til þess að ná afsláttarkjörum.  Eins átti að nýta Fjarvídd til þess að innskatta virðisaukaskatt af tækjakaupum.  Þar sem Fjarvídd seldi síðan tækin aftur til hinna skólanna, með 7,5% álagningu, þá varð til útskattur á móti hjá Fjarvídd sem var hærri en innskatturinn, sem nam þessum sömu 7,5 %.  Þar var það hagræði farið fyrir bí.  Miklu einfaldara hefði verið að stofna sérstakt fyrirtæki um tækjakaup, heldur en að kaupa þetta. Gífurleg tækjakaup. Skólakerfið þandist mikið út á árinu 2000 og með kaupum á Faxafeninu var  skólakerfið með gríðarstórt húsnæði til umráða.  JÁR réðist í geysimikil tækjakaup á árunum 2000 og 2001 og var greinilega gert ráð fyrir fullri nýtingu alls húsnæðis án þess að nemandafjöldi væri til staðar í samræmi við þetta.  Þannig voru fengnar 520 nýjar tölvur fyrir skólakerfið árið 2001.  Á rekstrarleigu voru fengnar 140 tölvur fyrir Margmiðlunarskólann og sama magn fyrir VT skólann.  Þá voru keyptar 140 tölvur fyrir Rafiðnaðarskólann og aðrar 100 fyrir CTEC deild skólans.  Þarna er ótrúlega mikið í lagt, ekki endurnýjað í áföngum heldur öllu skipt út í einu.  Fullyrða má að aldrei hafi þurft allan þennan tækjakost á sama tíma. Skólinn var í vandræðum með rekstrarfé á þessum árum.  Einkennilegt er að horfa á ýmis tækjakaup sem áttu sér stað, eins og t.d. vorið 2000 þegar keyptir er 2 flatir tölvuskjáir á 450.000 stykkið, án þess að þeir séu teknir í notkun.  Aðrir þrír í viðbót eru keyptir haustið 2000 á samtals um 1 mkr.  Allir þessir 5 skjáir voru enn ónotaðir og ofan í kössum, í ársbyrjun 2002 þegar JÁR lét af störfum.  Hjá Margmiðlunar­skólanum var keyptur 800.000 króna plasmaskjár, gríðarstór, á sama tíma og starfsfólk átti í erfiðleikum með að fá að kaupa möppur og ritföng, svo dæmi sé tekið. Þá má geta þess að innréttingar og húsgögn sem keypt voru til skólanna voru mjög dýr.  Hægt hefði verið að fá t.d. stóla í stofur á miklu lægra verði, án þess að gæðum væri fórnað.   Mikill taprekstur Skólarnir voru reknir með miklu tapi.  Rekstartap Viðskipta- og tölvuskólans var um 40 mkr á hverju ári, á árunum 1999-2001.  Þegar nemendafjöldinn var mestur var tapið stærst, þannig að fyrst hann stóð ekki undir sér þá, er erfitt að sjá hvernig hann átti að geta gengið.  Var hann þó með rekstrarstyrk frá Menntamálaráðuneyti.  Þess má geta að fjárfestingar í tækjum og húsgögnum koma ekki nema að litlu leyti fram í rekstrarreikningi, þar sem um eignfærslur er að ræða og aðeins afskriftarhlutinn kemur fram sem kostnaður innan ársins.  Margmiðlunarskólinn, Rafiðnaðarskólinn og Tölvuskóli Reykjavíkur voru einnig allir reknir með umtalsverðu tapi á þessum tíma. Fyrsta rekstrarár Margmiðlunarskólans (árið 2000) var að vísu gert upp með 20 mkr. hagnaði, en í raun var ekki innistæða fyrir þeim gróða, þar sem búið var að tekjufæra vorönn 2001 að miklu leyti á árinu 2000, en útgjöldin komu síðan 2001.  Endurskoðandi var búinn að gera upp skólann með tapi, en JÁR bað hann um að breyta uppgjörsaðferð, í samræmi við aðra skóla rafiðnaðarmanna og þar með breyttist uppgjörið.   Mikill rekstarkostnaður og há risna. Persónulegur risnukostnaður JÁR hjá Rafiðnaðarskólanum var mjög hár.  Fjölmargir veitingahúsareikningar voru færðir sem útlagður kostnaður hjá honum vegna funda.  Breytti það hann engu þó starfsmaður skólans hitti hann úti að borða með eiginkonu sinni.  Hann kom síðar með reikning fyrir þeirri máltíð til sama starfsmanns og lét endurgreiða sér sem fundarkostnað.  Mjög mikil áfengiskaup voru á vegum skólans.  Þá var geysimikið fjárfest í auglýsingum og auglýsingavörum, án þess að stýring á því væri með hagkvæmum hætti, eða skoðað hve miklu rétt væri að auglýsa til þess að ná til tiltekins hóps nemenda.  Þegar CTEC deildin fór af stað var auglýst fyrir milljónir bara hjá Morgunblaðinu einu, svo dæmi sé nefnt.  Í einu tilviki eru keyptar 10.000 músamottur á 1,5 mkr.  Þykir það nokkuð vel í lagt. Þegar CTEC deildin var sett af stað voru ráðnir þangað kennarar á miklu hærri launum heldur en aðrir starfsmenn Rafiðnaðarskólans voru á.  Þessi launakjör voru ekki borin undir stjórnarmenn skólans.  Kennsla var að miklu leyti á kvöldin og fengu menn þá greitt ríflega aukalega ofan á góð grunnlaun. Um starfsskyldur JÁR. Jón Árni var á góðum launum hjá Rafiðnaðarskólanum.  Auk þess hafði hann verktakagreiðslur sem skólastjóri VT skólans.  Í samningi hans þar sagði að hann mætti ekki láta störf sín hjá VT koma niður á starfsskyldum sínum við Rafiðnaðarskólann.  Hann var þó kominn með skrifstofu í Faxafeni 10 í húsnæði VT og varði þar miklu meiri tíma í dagvinnu sinni heldur en í Rafiðnaðarskólanum, sem hann sinnti orðið lítið.  Hann var helsti hvatamaður útþenslu og framkvæmda í skólaumhverfinu og studdi þetta með áætlunum sem áttu sér litlar stoðir í raunveruleikanum.  Þá upplýsti hann menn ekki um raunverulegar skuldir og í árslok 2001 sagði hann skuldir vera um 25 mkr. þegar hið rétta var að á sama tíma námu þær nokkuð hundruð milljónum, með bráðavanskilum upp á rúmar 200 mkr. Þá notaði hann í bönkum og fyrirtækjum í heimildarleysi yfirlýsingar frá eftirmenntunarnefndum og tókst þannig að stofna til mun hærri skulda en stjórnarmenn vissu af.  JÁR hefur hælt sér af því að hafa rekið skólaumhverfið vel, en þessi upptalning bendir til annars.  Þegar hann fór frá voru skuldir margfaldar á við það sem hann hafði gert stjórnarmönnum grein fyrir.  Var svo komið að fjárhagslega var skólakerfið að sligast og hefur vinnan verið gríðarleg síðan við að bjarga málum út úr þeim ógöngum sem fullyrða má að hann hafi átt lang stærstan þátt í að koma þessu skólaumhverfi í. Niðurstaða. Þegar þetta allt er tekið saman þá verður niðurstaðan sú að Jón Árni hafi farið mikinn og byggt upp ímynd um traust og stöndugt skólakerfi, en þegar gríman er tekin niður þá sjáum við að þessi sami Jón Árni hafði stolið miklum fjármunum, svikið út fé og látið greiða sér ýmsan kostnað sem hann átti ekki tilkall til.  Hann fjárfesti óskynsamlega, bæði í fyrirtækjum og búnaði.  Virðast margar hans framkvæmdir hafi verið gerðar í þeim tilgangi að hagnast persónulega.  Hér hefur verið týnt til það helsta, en því fer fjarri að allt hafi verið upptalið sem finna má til foráttu hjá JÁR og jafnvel brotlegt við lög. Allt tal um að vegið hafið verið að honum með óeðlilegum hætti er því hin mesta fjarstæða.  Brot hans eru svo mörg að hjá þeim verður með engu móti litið framhjá.  Það er skylda stjórnarmanna í skólakerfinu að kæra það sem brotlegt telst hjá honum og láta hann gera skil á þeim fjármunum sem honum ber. Atli Þór Þorvaldssonfjármálastjóri Rafiðnaðarskólans. 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?