Fréttir frá 2003

06 13. 2003

Félagsdómur um útköll

Starfsmaður RARIK á Suðurlandi sem ræstur var í 2 útköll sama daginn en fékk greitt fyrir aðeins eitt og RSÍ höfðaði mál fyrir Félagsdómi.  Guðmundur Gunnarsson fjallar um dóminn og birt er niðurstaða Félagsdóms og dómsorð.Félagsdómur felldi þ. 28. maí dóm í deilu RSÍ við RARIK um útköll. Ástæða þess að RSÍ fór fram með málið var að Starfsmaður RARIK á Suðurlandi var ræstur út laugardag kl. 13.00 í útkall og er kominn heim til sín upp úr kl. 14.00. Hann er ræstur aftur út kl. 15.00. Starfmaðurinn skrifaði tvö útköll (2 x 4 tíma) eins og alltaf hefur verið gert. Þegar hann fékk útborgað var búið að breyta tímaskrift hans í samfelldan tíma og hann fékk greitt 6 klst. Það var farið fram á að þetta væri leiðrétt en RARIK hafnaði því alfarið. RSÍ féllst ekki þá niðurstöðu og höfðaði var mál fyrir Félagsdómi. Starfsmenn RSÍ og trúnaðarmenn hjá RARIK sögðu að þetta hefði ætíð verið framkvæmt með þeim hætti að ef maður væri komin heim og ræstur aftur út þá væri það nýtt útkall. Ef starfsmaður maður væri aftur á móti ekki kominn heim og væri sendur í annað verk þá væri skrifaður samfelldur tími.  RSÍ hélt því fram að þarna væri um að ræða einhliða breytingu á túlkun kjarasamnings á miðjum samningstíma. Í andsvörun af hálfu SA fyrir dómi kom fram að þetta ætti ekki við á þeim tíma sem um væri ræða með 4 tíma útköll, þ.e. um nætur og um helgar. Á öðrum tímum eru ákvæði um 3 klst. útköll. Enginn samningarnefndarmanna RSÍ kannaðist við þessa túlkun, það hefði ekki komið fram við gerð kjarasamnings. Ástæða þess þegar samið var um 4 klst. útkall frá 00.00 - 06.00 á virkum dögum og svo frá föstudagskvöldi fram á mánudagsmorgun, hefði verið sú að sá tími væri mun verðmætari en aðrir tímar og raskaði frítíma þeirra meir. Félagsdómur féllst á túlkun SA. Þessi niðurstaða hlýtur að kalla á orðlagsbreytingu í komandi kjarasamningum vegna útkalla, eins og Félagsdómur reyndar bendir sjálfur á í úrskurði sínum.gg Niðurstaða Félagsdóms :Mál þetta á undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Ekki er ágreiningur milli aðila um framkvæmd útkallsákvæða á virkum dögum samkv. 1. m.gr. greinar 2.6. í kjarasamningi aðila. Fallist er á með stefnda að útkallsákvæði kjarasamninga séu frávik frá þeirri meginreglu kjarasamninga að laun séu einungis greidd fyrir þær vinnustundir sem starfsmaður innir af hendi og verður að túlka ákvæðin með hliðsjón af því. Er ekki greitt fyrir óunnin tíma nema skýr og ótvíræð ákvæði kjarasamnings kveði á um slíkt. Samkæmt því verður að skýra ákvæði 2. mgr. greinar 2.06 í kjarasamningi aðila á þann veg að það eigi eingöngu við þegar starfsmaður er kallaður til starfa innan þeirra tímamarka, sem þar greinir og hann er ekki þá þegar að störfum eða í greiddum vinnutíma. Því er ekki um nýtt útkall að ræða þegar haft er samband við starfsmann, sem þegar hefur verið kallaður út, og hann beðin að vinna annað verk innan útkallstímans. Skiptir þá ekki máli hvort starfsmaðurinn er á þeirri stundu staddur á vinnustaðnum eða utan hans. Verður því að líta svo á að starfsmaður, sem kallaður hefur verið út, sé þar með kominn í vinnuna næstu 4 klst en það er sú lágmarksgreiðsla sem umrætt samningsákvæði tryggir um helgar. Hefur ekki verið sýnt fram á af hálfu stefnanda að framkvæmd umþrætts kjarasamningsákvæðis hafi verið á annan veg en stefni heldur fram. Samkæmt framansögðu ber að sýkna stefna af kröfum stefnanda í máli þessu en eftir atvikum þykir mega ákveða að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. DómsorðStefndi Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Samtaka verslunar og þjónustu vegna Rafmagnsveitna ríkisins er sýkn af kröfum stefnanda Alþýðusambands Íslands fyrir hönd Rafiðnaðarsambands Íslands vegna Félags íslenskra rafvirkja í máli þessu.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?