Fréttir frá 2003

07 8. 2003

Fyrrverandi skólastjóri ákærður.

Ákæra gefin út á hendur fyrrverandi skólastjóra Rafiðnaðarskólans fyrir fjárdrátt.  Málið tekið fyrir dóm að loknu réttarhléi.Rannsóknarlögreglan hefur nú  lokið rannsókn sinni á meintum fjárdrætti fyrrverandi skólastjóra og er nú búið að gefa út ákæru á hendur honum.  Málið verður tekið fyrir að loknu réttarhléi. Í maí féll fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur dómur þar sem hann var dæmdur til þess að endurgreiða eftirmenntunarnefnd rafeindavirkja 32 millj. kr. ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði. Dómurinn var afdráttarlaus og þótti sannað að skólastjórinn hefði tekið fé út af tékkareikningi eftirmenntunarsjóðs rafeindavirkja og nýtt sér það í eigin þágu án heimildar og vitundar stjórnarmanna sjóðsins. Margir hafa talið að það hafi verið eina málið gegn skólastjóranum fyrrverandi en svo er ekki. Lögreglurannsókn er lokið og búið er að gefa út ákæru á hendur honum fyrir að hafa misfarið með fé eftirmenntuanrsjóðs rafeindavirkja. Hér er um að ræða refsiþátt fjárdráttarmálsins. Þegar réttað hefur verið í því máli, kemur í ljós hvort og þá hve lengi skólastjórinn muni sitja í fangelsi. Mál skólastjórans fyrrverandi eru margþætt og fleiri mál vegna reiknings- og bókhaldssvika af hendi hans eru í dómskerfinu. Þann 27. júní síðastliðinn féll fyrir Héraðsdómi dómur á hendur skólastjóranum. Stefnandi var eignarhaldsfélag sem átti húseignina í Faxafeni þar sem Margmiðlunarskólinn og VTskólinn voru til húsa. Skólastjórinn hafði greitt sér 800 þúsund krónur af reikningi eignarhaldsfélagsins. Dómurinn er jafn afdráttarlaus og dómurinn sem féll í maí. Þar kemur m.a. fram að skólastjórinn hafi í krafti stöðu sinnar greitt sjálfum sér þessa fjármuni án heimildar og vitundar stjórna. Hann hafi fært fram skýringar sem á engan hátt stóðust þegar málið var kannað. Í ljós hafi komið að fjámunirnir hafi runnið til þess að greiða skuldir hans sjálfs auk þess að hluti þeirra hafi farið inn á bankareikning eiginkonu hans.  Það hafi staðið skólastjóranum næst og í raun verið skylda hans að gæta þess að hann hefði heimildir til úttektar á fjármunum og eins að tryggja að færslur væru gerðar í bókhaldi um hvernig á greiðslum stóð og til hvers féð hafi runnið. Skólastjórinn var dæmdur til þess að endurgreiða fjármunina auk dráttarvaxta og kr. 280.000 í málskostnað. Auk þessara mála eftirmenntunarsjóðs rafeindavirkja, saksóknara og RTV eignarhaldsfélags eru fleiri mál í dómskerfinu og verða þau tekin fyrir í haust að loknu réttarhléi. 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?