Fréttir frá 2003

08 14. 2003

Kárahnjúkar

Spurt er:  Er verið að stofna til ófriðar?  Leiðtogar verkalýðsfélaganna heimsóttu Kárahnjúka í síðustu viku og skoðuðu svæðið og aðbúnað starfsfólks.  Vinna er hafin á Kárahnjúkasvæðinu. Í dag er verið að sprengja aðkomugöng og undirbúa komu hinna þriggja stóru jarðborvéla sem samkvæmt áætlun koma í vetur, sú fyrsta í október. Gerð gatnakerfis um svæðið er vel á veg komið. Verið er að leggja síðustu hönd á raforkudreifikerfið, sem er 30KV jarðstrengjakerfi. Í dag er allt rafmagn framleitt með díselvélum, en þegar tengja á vinnubúðirnar inn á raforkunetið verður það tilkynningarskylt og tekið út af rafmagnseftirliti. Á stíflusvæði er verið að hreinsa lausan jarðveg ofan af væntanlegu stíflustæði, svo þétta megi jarðlög þar undir og hefja smíði botnrása. Um er að ræða um milljón rúmmetra af efni sem ýtt er með allmörgum jarðýtum af stærstu gerð í Jöklu, sem sér um að flytja það á brott án sérstakrar gjaldtöku, enda lítil viðbót við þann mikla aur sem hún flytur með sér. Við Kárahnjúka er einnig er verið að sprengja aðkomugöng, frárennslisgöng og svo göngum fyrir framhjáhlaup árinnar meðan botnrásir verða steyptar. Þar eru að störfum 12 ítalskir rafiðnaðarmenn sem sjá um vinnurafmagn í gögnunum. Vandræði í vinnubúðum og í samskiptum.  Nú í upphafi verksins hefur skapast svipað ástand og við upphaf annarra stórframkvæmda hér á landi. Farið er af stað af fullum krafti og sem kallar á mikinn mannskap, sem er vitanlega gott, en það er í takmarkað húsnæði að venda og mötuneyti ráða ekki við allt þetta starfsfólk. Reglugerðir og kjarasamningar kveða með skýrum hætti á um lágmarksaðbúnað starfsfólks. Framkvæmdaaðilar fara fram á undanþágur þegar starfsmenn stéttarfélaga, eftirlitsmenn Vinnueftirlits og heilbrigðisfulltrúi krefjast þess að farið sé að settum reglum. Setja má fram þá einföldu spurningu; hvers vegna var vinna við uppsetningu búða ekki hafinn fyrr? Það lá vitanlega fyrir að þær þyrfti að reisa strax og ákvörðun lá fyrir að fara ætti í þessar framkvæmdir. Þar var svigrúm meðan samið var um hverjir tækju framkvæmdirnar að sér. Nú er kominn miður ágúst og það styttist í að þarna gætu skollið á erfið veðurskilyrði hvenær sem er. Fulltrúar stéttarfélaganna fóru austur í lok síðustu viku að beiðni aðaltrúnaðarmanns og skoðuðu svæðið og aðbúnað starfsfólks. Undantekningalítið eru a.m.k. tveir í herbergi sem ætlað er einum. Herbergin eru yfirleitt um 6 ferm. Það þýðir að þegar tvö rúm eru komin þar inn, þá er ekki pláss fyrir neitt annað eins og t.d. borð og stól til þess að leggja frá sér föt o.fl. Mötuneyti eru nýtt af mun fleira fólki en þau ráða við með eðlilegum hætti. Í reglugerðum eru t.d. ákvæði um forstofur þar sem skilja á eftir útiföt, þær eru ekki til staðar, heldur gengið beint inn í matsal. Snyrtingar eru mun færri en kveðið er á um í reglugerðum. Vitanlega væri þetta ?eðlilegt? ástand ef um væri að ræða upphaf framkvæmda, þ.e.a.s. hjá þeim sem væru ?undanfarar? og væru að setja upp búðir, ganga vatnsveitum og frárennsliskerfum, leggja dreifikerfi raflagna o.fl.  En svo er ekki þarna er um að ræða hundruði starfsmanna við aðalframkvæmdir og þeim fjölgar stöðugt. Þetta hefur leitt til þess að hljóðið meðal starfsfólks í búðunum er skiljanlega ákaflega þungt. Það hefur einnig valdið auknum vandræðum að þegar undanþágur hafa verið veittar hefur verið farið langt út fyrir undanþáguheimildir og vikmörk hafa ekki haldið. Einnig hafa verið vandamál vegna vaktakerfa og launagreiðslna. Í viðræðum við erlenda starfsmenn kom fram að telja verður verulegar líkur á að launakjör þeirra sem mun lakari en kveðið er á um í gildandi kjarasamning. Verktakinn hefur verið krafinn um ráðningarsamninga og fullnægjandi upplýsingar um launakjör þessa fólks. Tungumálaerfiðleikar hafa verið allnokkrir á svæðinu og verkskipanir hafa stundum miskilist með þeim afleiðingum að starfsmenn hafa setið undir röngum ávirðingum. Þarna eru hópar auk ítalanna af tyrkjum, rúmenum og portúgölum. Íslenskir starfsmenn eru þarna nokkrir, en þeir halda því fram að þeim virðist ástandið vera þannig að vertakinn vilji losna við þá svo flytja megi inn enn fleiri erlenda starfsmenn. Rafiðnaðarmenn á svæðinu Við fulltrúar RSÍ komum að tveim rúmönskum rafiðnaðarmönnum sem voru að störfum við að leggja raflagnir í nýjum skálum. Í ljós kom að þeir höfðu ekki atvinnuleyfi sem rafiðnaðarmenn og það var heldur ekki búið að ganga frá málum gagnvart Löggildingarstofu um tilkynningarskyldu. Við höfum undanfarna daga átt nokkra fundi með fulltrúum ítalska fyrirtækisins og hefur nú verið ráðinn bót á þessu með því að semja við íslenskt rafverktakafyrirtæki um löggildingu fyrir svæðið. Mál rúmensku rafiðnaðarmannanna eru í skoðun hjá Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins og RSÍ.P> Launakjör og komandi kjarasamningar. Hvað varðar íslenska rafiðnaðarmenn þá hefur ítalski verktakinn ekki ráðið neinn, hann hefur auglýst en þeir sem hafa kynnt sér málið hafa ekki sætt sig við þau launakjör sem í boði eru. En á svæðinu hafa verið nokkrir íslenskir rafiðnaðarmenn sem hafa verið við uppsetningu á búðum fyrir íslensku verktakana á svæðinu. Við höfum heyrt hjá vertökum að þeir séu ekki í góðri stöðu gagnvart erlendum samkeppnisaðilum vegna þess að þau lágmarkskjör sem getið er í kjarasamningum séu ekki í samræmi við raunlaunakjör. Þessu er til að svara að við höfum ítrekað bent forsvarsmönnum samtaka fyrirtækja að það ætti að vera þeim keppikefli að hafa laun í kjarasamningum og þá kannski sérstaklega í virkjanasamning í samræmi við raunlaun í landinu. Hér má minna á ítrekaðar ályktanir og kröfur RSÍ í deilum sem vorum með vegna Búrfellslínu vegna deilna um rússneska rafiðnaðarmenn og framvæmda við Sultartanga vegna deilna um írska rafiðnaðarmenn. Um allt þetta var fjallað hér á heimasíðunni. Þessar kröfur voru ítrekaðar af okkar hálfu við endurnýjun virkjanasamnings síðastliðinn vetur. Okkur til mikillar undrunar hafnaði SA þessu alfarið. ?Þetta væri gott dæmi um sveigjanleika íslensk vinnumarkaðar?. Þetta er nú að koma heldur betur í bakið á þeim og þeir eru að hafa samband og kvarta undan því við okkur. Er verið að stofna til ófriðar? Landsvirkjun afhendir virkjanasamning við afhendingu útboðsgagna án frekari skýringa. Við vitum að í mörgum löndum er ríkjandi það fyrirkomulag að raunlaun eru í kjarasamningum og vinnuveitendur ganga að því að svo sé. Erlendir verktakar verða því undrandi og eiga erfitt með að skilja og sætta sig við þetta íslenska fyrirkomulag, þar sem einvörðungu er getið um lágmarkslaun í upplýsingum sem verkkaupi sendir og heldur ekki um þá bónusa eða hvatningarkerfi sem eru ríkjandi á íslenskum vinnumarkaði. Verkkaupa er vel kunnugt um hvaða raunlaun eru í gildi í stærri framkvæmdum, þannig að það getur vart talist annað en ábyrgðarleysi af þeirra hálfu að hafa ekki bent erlendum verktökum á þetta. Ekki er ólíklegt að sum íslensk verktakafyritæki hyggist nýta tækifærið til þess að keyra laun niður hér, og þá spyr ég ?Er þetta fyrirkomulag ekki ábyrgðarleysi gagnvart íslenskum vinnumarkaði og þeim friði sem þar hefur ríkt undanfarin ár?? Næsta víst er að þetta verður ofarlega í kröfugerðum okkar rafiðnaðarmanna við endurnýjun kjarasamninga næsta vetur. 14.08.03 gg

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?