Fréttir frá 2003

09 15. 2003

Hvað eru lágmarkslaun?

Í Virkjanasamning reyndar í öllum öðrum  íslenskum kjarasamningum er kveðið á um hver lágmarkstímalaun séu. Auk þess eru margskonar ákvæði um önnur kjaratengd ákvæði, þar má nefna, vaktaálag, orlof, lögbundna frí daga, veikindadaga, orlofs- og desemberuppbót, bakvaktar álag ofl. Einnig má þar nefna ákvæði um bónusa og afkastahvetjandi launabætur. Allt myndar þetta samanlagt lágmarkskjör. Nú menn geta svo verið á hærri launum, t.d. vegna ábyrgðar, verkstjórnar eða þá bara vegna þess að þeir eru góðir starfskraftar sem fyrirtækið vill hafa í vinnu.   Í umræðum um launakjör starfsmanna á Kárahnjúkasvæði hafa orlofsuppbætur, desemberuppbætur, staðaruppbót, desemberuppbót og vaktaálag verið lögð við tímalaun portúgala (sem er uppgefin 2.71 Evra á tímann). Svo hefur verið deilt í með dagvinnutímafjölda og því svo haldið fram að ákvæðum um lágmarkslaun sé fullnægt. Í viðræðum íslendinga og trúnaðarmanna stéttarfélaga við erlenda starfsmenn við Kárahnjúka hefur aftur á móti komið fram að þeir hafi um 5 - 7  Evrur á tímann. Þeir hafi ekki löghelga frídaga, orlofsdaga, veikindadaga eða staðaruppbót, það komi fram einhverjum heimatilbúnum launaseðlum fyrirtækisins sem þeir kannast ekki við að hafa séð. Auk þess hefur komið fram að þeir sitji undir hótunum um að ef þeir segi frá því opinberlega hver raunkjör þeirra séu, þá séu þeir umsvifalaust sendir heim á eigin kostnað auk þess að þurfa að greiða kostnað við að senda nýjan starfsmann hingað.   Nýverið féll dómur í máli sem danska rafiðnaðarsambandið höfðaði vegna svona máls sem upp kom í Kaupmannahöfn. Dómsniðurstaðan varð sú að fyrirtæki sem starfar í Danmörku, hvort sem það notar innlenda eða erlenda starfsmenn, verður að gera upp við starfsmenn sína samkvæmt dönskum kjarasamningum og dönskum lögum um vinnumarkað. Um þetta snýst deilan við Kárahnjúka, það skiptir engu hvort um sé að ræða einhvern lítinn kjarasamning eða stóran, eða hvort um sé að ræða einhverja lítils megandi félaga okkar innlenda eða erlenda.   Nokkrir forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja hafa haft samband við RSÍ og bent á að það sé harla einkennilegt ef SA eða eitthvert fyrirtæki telji sig geta starfað og gert upp eftir eigin geðþótta gagnvart starfsmönnum. Á sama tíma er þess krafist að öll íslensk fyrirtæki starfi samkvæmt ákvæðum lögbundinna íslenskra kjarasamninga og ákvæða um aðbúnað starfsmanna og uppgjör til skattyfirvalda og launatengdra gjalda. Þetta var staðfest í danska dóminum og við munum vitanlega láta á þetta reyna.   ?Fráleitt að þetta hafi einhver víðtæk áhrif?, segir forsvarsmaður SA. Já, það er nú það, hér er nú einfaldlega verið að takast á um grundvallaratriði um samskipti á íslenskum vinnumarkaði. 15. september 2003 Guðmundur Gunnarsson.       

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?