Fréttir frá 2003

09 15. 2003

"Passaðu þig á skúrkunum í íslensku verkalýðsheyfingunni."

Nú um helgina var gengið á milli Rúmena á Kárahnjúkasvæðinu sem vinna við að reisa búðir. Þess var krafist að þeir skrifuðu undir samning þar sem fram kom að þeir væru með 265 þús kr. á mánuði í laun. Sumir gerðu það en aðrir höfnuðu. Þeim sem höfnuðu var hótað með því að þeir yrðu umsvifalaust sendir heim og séð til þess að þeir væru ekki gjaldgengir á þessum vinnumarkaði. Einn þeirra sem neitaði að skrifa undir var sendur suður í dag. Hann varð að greiða sjálfur flugfarið frá Egilsstöðum til Reykjavíkur og finna gistingu og svo koma sér til Keflavíkur í fyrra málið. Þegar hann réði sig hingað fékk hann flugmiða sem gilti báðar leiðir frá Rúmeníu til Keflavíkur. Hann sat undir gífurlegum hótunum og svo svívirðingum ef hann skrifaði ekki undir. Auk þess var hann ákaft varaður við að ræða við íslenska starfsmenn verkalýðsfélaga, það væru annálaðir skúrkar.   Ég ræddi við þennan Rúmena ásamt lögmönnum verkalýðshreyfingarinnar þegar hann kom suður í dag með aðstoð túlks. Rúmeninn var ásamt félögum sínum ráðinn hingað til þess að reisa búðir á Kárahnjúkasvæðinu. Hann fór að heiman 13. júlí og átti að fara heim 13. nóvember. Laun hans áttu að vera 1.000 Evrur á mán. fyrir 8 tíma dagvinnu virka daga. Auk þess var þeim lofað mikilli yfirvinnu auk svo stundum vinnu á sunnudögum, þannig að launin áttu að vera umtalsvert hærri. Þegar hann fór af svæðinu í morgun fékk hann launin sín fyrir ágústmánuð greidd í reiðufé, 1.164 Evrur. Hann vann alla daga mánaðarins, flesta daga 10 tíma á dag en stundum um helgar 5 tíma. Erlendir starfsmenn á Kárahnjúkasvæði öðlast engan orlofsrétt, hafa engan veikindarétt og eiga ekki rétt á löghelgum frídögum. Þeir fá engar aðrar greiðslur en strípuð daglaunin, hverju nafni sem þær nefnast og það stóð aldrei til að þeir fengju þær. Þeir fá frítt fæði og gistingu . Hann ásamt öðrum rúmenskum og portúgölskum verkamönnum og reyndar eru í hópnum iðnaðarmenn líka, hafa verið mjög óánægðir með að þeir hafa ekki fengið greidd laun fyrir yfirvinnu eins og þeim hafði verið lofað.   Rúmenanum var boðið að vera hér áfram á kostnað íslenskrar verkalýðshreyfingar og farið yrði með mál hans gegn vinnuveitanda hans og krafist fullra launa ásamt kjaratengdum atriðum samkvæmt gildandi kjarasamningum, þ.e. Virkjanasamning.  15.09.03 Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?