Fréttir frá 2003

09 18. 2003

Erum við ekki lausir við Technopromexport?

Margir eru að rifja það upp þessa dagana, þegar Technopromálið kom upp.  Því er ekki úr vegi að birta aftur grein sem formaður Rafiðnaðarsambands Íslands ritaði í febrúar 1999 um þau mál.Erum við ekki lausir við Technopromexport? Laugardag 6. febrúar birtist í Mbl. viðtal við einn framkv.stj. Technopromexport, þar kemur fram að fyrirtækið hafi áhuga á að taka að sér virkjanaframkvæmdir hér á landi. Hann heldur því fram að þeir hafi átt mjög góð samskipti við alla hér á landi utan stéttarfélögin, þrátt fyrir að staðið hafi verið við alla samninga og greidd of há laun! Þessar yfirlýsingar koma ekki á óvart ef litið er til háttlags starfmanna samtaka atvinnurekenda og opinberra embættismanna eftir deilurnar í haust. Yfirlýsingarnar framkv.stj. hvað varðar tæknilega getu eru ósvífnar. Allir vita að þegar að byggingu línunnar var komið þá réði Technopromexport ekki við tæknilega hluti eins og að reisa hæstu möstrin og þaðan af síður við útdrátt og strekkingar á línum. Það eina sem þeir réðu við var að skrúfa saman lægstu möstrin og reisa þau. Til þess að bjarga málinu varð Landsvirkjun að taka af þeim öll flóknari verkefnin og setja þau í hendur íslenskra og norrænna rafiðnaðarmanna. Það væri með ólíkindum ef Landsvirkjun ætlar síðan að ganga fram hjá íslenskum fyrirtækjum og án útboðs að semja við Technopromexport um Sultartangalínu. Rafiðnaðarsambandið og Landsvirkjun hafa ítrekað fengið bréf frá framleiðanda mastranna með beiðnum um að séð verði til þess að Technopromexport standi við samninga og greiði möstrin svo þeir geti greitt starfsmönnum sínum laun. Íslenskir kjarasamningar Í haust lýsti ég því ítrekað yfir að þessi barátta snérist í raun ekki bara um þetta eina verkefni, hún snérist um stöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum. Afstaða starfsmanna samtaka atvinnurekenda kom á óvart, þegar þeir ítrekað tóku upp hanskann fyrir Technopromexport. Framkv.stj. VSÍ viðhafði þau ummæli að laun við línuna væru of há. Laun við línuna voru samkvæmt þeim kjarasamning sem hefur gilt um allar línur. Íslenskir og norrænir línuflokkarnir sem voru að störfum við línuna á vegum Landsvirkjunar og norsks fyrirtækis, voru með um 30% hærri laun en starfsmenn Technopromexport og undirverktaka þeirra. Þeir fengu greitt fyrir atriði sem Technopromexport komst hjá að greiða starfsmönnum sínum með þeim ógeðfellda hætti að hóta starfsmönnum sínum og fjölskyldum þeirra ævilöngum ærumissi og atvinnuleysi þegar heim kæmi. Íslensku starfsmennirnir létu þá undan beiðnum rússneskra félaga sinna og láta þetta frekar yfir sig ganga. Allir íslendingar vita hvernig opinberir embættismenn báru fyrirtækið á höndum sér og vörðu það þrátt fyrir að það margítrekað virti íslenskar reglugerðir um atvinnuleyfi og aðbúnað að vettugi. Vitanlega túlka forsvarsmenn Technopromexport þetta á þann veg að hér sé lag og fyrirtækið geti með aðstoð þessara aðila brotið á bak aftur óvinveitta íslenska launþegahreyfingu.   Sigur launamanna Íslenskir starfsmenn Technopromexport og undirverktaka þeirra þurftu að leggja niður vinnu til þess að þvinga fram að staðið væri við gerða kjarasamninga og aðbúnaður væri lagaður, m.a. að mötuneyti í bílaverkstæði væri lokað. Íslendingar höfðu ítrekað verið sendir heim un miðja vinnudaga og sagt að athuga hvort þeir mættu kannski koma til vinnu eftir nokkra daga. Hér var ekki síður um hagsmuni undirverktakans að ræða. Það kom því mörgum í opna skjöldu þegar starfsmenn samtaka atvinnurekenda sendu bréf með hótunum um aðgerðir ef starfsmenn létu ekki af ólöglegum aðgerðum! Síðar reyndu þeir að réttlæta gerðir sínar með því að halda fram að starfsmennirnir hefðu verið að knýja fram breytingar á kjarasamningum! Allir vita að í framhaldi af þessu þá var trúnaðarmaður rafiðnaðamanna rekinn þegar hann vann að því að staðið væri við samkomulagið um bættan aðbúnað. Lögmaður VSÍ tapaði því máli glæsilega. Mikill fjöldi forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja hafa haft samband við mig og þakkað baráttu okkar í þessu máli og um leið fordæmt afstöðu starfsmanna atvinnurekendasamtakanna. Sömu menn hafa ásamt fjölda launamanna hafa lýst óblandinni fyrirlitningu á vinnubrögðum opinberra embættismanna. Ísland er í þeirri ógeðfelldu stöðu að vera Evrópumeistari í að vilja ekki staðfesta lög og reglugerðir er vernda réttindi launamanna. Landsmenn hafa orðið vitni að því undanfarið að dómstólar kveðið upp hvern dóminn á fætur öðrum sem tryggja réttindi íslenskra þjóðfélagsþegna. Það er mikil skammsýni hjá embættismönnum og starfsmönnum atvinnurekenda samtakanna að halda það sé til íslendingum hagsbóta að inn í landið sé hleypt álíka fyrirtækjum og Technopromexport. Hvar verður þá framtíð íslensku fyrirtækjanna? Hver á borga skatta og hver á að greiða félagsgjöld í samtök atvinnurekenda? Með leyfi, halda þessir menn virkilega að Technopromexport komi til með að gera það?   Lærdómur verkalýðshreyfingarinnar Technopromexportmálið er á margan hátt lærdómríkt. Hér áttu verkalýðsfélög í raun í baráttu við erlent glæpafyrirtæki, sem svífst einskins til að ná sínu fram. Fyrirtækið virðir ekki leikreglur samfélagsins eða stofnanna þess. Starfsmenn sjá aldrei neina launaseðla enda virðast launaseðlar einungis útbúnir til afhendingar verkalýðsfélögum og opinberum stofnunum. Starfmenn njóta hvorki viðunandi aðbúnaðar né öryggis. Ljóst þykir að hefðbundnar baráttuaðferðir duga seint og illa við svona aðstæður. Á miðstjórnarfundi ASÍ þann 14. október 1998 urðu fundarmenn sammála um nauðsyn þess að yfirfara viðbrögð allra málsaðila, með það að markmiði að efla baráttuna gegn félagslegum undirboðum.   08.02.99 Guðmundur Gunnarsson Form. Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?