Fréttir frá 2003

09 24. 2003

Háaðallinn fer í partý!

Undanfarin áratug hafa átt sér umtalsverðar breytingar á rekstrarformi íslenskra fyrirtækja. Margar þeirra hafa verið af hinu góða. Það hefur verið hreinsað til, rekstrarmarkmið skýrari og flokkspólitísk áhrif og valdabarátta hefur orðið að víkja. Á þessum tíma hafa laun efstu stjórnunarlaga í fyrirtækjum hækkað verulega mikið, langt umfram almenna launaþróun í landinu. Þetta hafa svo embættismenn og stjórnmálamenn nýtt sér til samanburðar og við höfum orðið að horfa upp þann aðal skenkja sér launahækkanir langt umfram það sem þeir fást til þess að ræða um við samningaborðið þegar kemur að kjarasamningum fyrir hinn almenna starfsmann.En það er ekki allt sem kemur fram í þessari umræðu og samanburði. Þessir einstaklingar eru með ákvæði í ráðningarsamningum sínum um starfslok sem eru víðsfjarri því sem almennt tíðkast. Greiðslur í lífeyrissjóði, séreignargreiðslur auk margskonar hlunninda, t.d. eins og hirða ofurjeppann og annað dótarí með sér þegar horfið er á braut. Því er gjarnan haldið að fram að þarna sé um að ræða umbum fyrir góð störf. Spyrja má, eru ekki aukagreiðslurnar fyrir það? Er ekki verið að greiða mörgum sinnum fyrir sama hlutinn? Þessir hinir sömu myndu alla vega spyrja okkur fulltrúa starfsmannanna þegar við mættum að samningaborðinu : Er ekki verið að greiða góð laun vegna þess að starfsaldur er venjulega stuttur? Er ekki ákvæði ráðningarsamning um góða starfslokasamninga ef viðkomandi er sagt upp? Eru ríflegar lífeyrisgreiðslur ekki tilkomnar vegna þess að starfsaldur er stuttur? Er ekki verið að greiða umbun í formi hlutabréfa eða sérgreiðslna? Þar fyrir utan eru svo hlunnindagreiðslur, eins og t.d. bíll og risna. Laun forstjóra og næstu stjórnunarlaga hafa hækkað langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Ekki verðum við vör við að laun eða aukagreiðslur hafi lækkað þó svo sé komið fyrir mörgum þessara fyrirtækja að hlutabréf hafi kolfallið, og reyndar er það nú  svo að allmörg íslensk heimili hafa nánast farið í rúst vegna athafna þessara einstaklinga. Við höfum upplifað það undanfarin ár, að margir starfsmenn sem hafa varið besta hluta starfsævi sinnar fyrir viðkomandi fyrirtæki hafa verið látnir fara. Þeir hafa verið fyrirtækjunum traustir og ekki farið þó stundum hafi gengið illa og þegið oft á tíðum minni laun en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Oft eru helstu afrek þeirra sem ofurlaunin hafa fólgin í því að senda þetta fólk (oftast á aldrinum 45 ? 60) út á götu og ráða til sín ungt fólk á mun lægri launum. Við starfslok þessa fólk er ekki um að ræða glæsta starfslokasamninga og oft er ráðist í þessar aðgerðir skömmu áður en þetta fólk öðlast aukin starfslokaréttindi innan fyrirtækjanna. Nú er svo komið að öll helstu fyrirtækin eru komin í eigu bankanna. Bankarnir eru að skila milljarða hagnaði og þrátt fyrir það er okkur gert að búa við okurvexti, margfalda á við það sem þekkist í sambærilegum þjóðfélögum. Örfáir menn hafa kverkatak á okkur. Verzlun með alla nauðsynjavöru, bankar og vextir og svo stærstu fyrirtækin. Þetta gerir það að verkum að kröfur gagnvart stjórnmálamönnum hafa vaxið mikið. Hafa þeir dug og getu til þess að setja leikreglur? Hafa þeir dug til þess að standa við bakið á eftirlitstofnunum og skapa þeim fjárhagslegt bolmagn til þess að starfa? Við erum að upplifa að svo er ekki. Við búum við mun hærri vexti en tíðkast annarsstaðar, vöruverð er hærra. Hér er erlent fyrirtæki sem virðist komast upp með að gera það sem því sýnist og atvinnuleysi vex. Og aðallinn leigir sér breiðþotur til þess að skella sér í partý erlendis. 24.09.03 gg  

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?