Fréttir frá 2003

10 1. 2003

Umfjöllun um Kárahnjúkana

Hvernig er umfjöllun fjölmiðlanna um framkvæmdir við Kárahnúkavirkjun?  VIð hverja er talað og afhverju?Það hefur vakið athygli fjölmargra að fjölmiðlar virðast einvörðungu snúa sér til stéttarfélaganna í leit að upplýsingum um deilurnar sem eru við Impregilo. Aldrei virðist leitað til forsvarsmanna Impregilo og þeir keyrðir upp að vegg með spurningum um hvað sé í raun að gerast. Það er látið gott heita þó það komi einhverjar einkennilegar yfirlýsingar frá ráðherrum og forsvarsmönnum Landsvirkjunar um að allt sé fínasta lagi. Þar er því haldið fram að verið sé að reisa vönduðustu vinnubúðir sem reistar hafi verið á Íslandi. Það sé bara af einhverjum fordómum og einkennilegum hvötum að því virðist, að eftirlitsmenn eins og frá Heilbrigðistofnun, Brunaeftirliti, Vinnueftirliti og trúnaðarmönnum starfsmanna eru að gera athugasemdir. Það er látið í veðri vaka að það sé vegna andstöðu við verkið sem menn eru að gera athugasemdir. Það geti ekki leitt til annars en að verkið verði dýrara eða á jafnvel stöðvist. Áfram heldur verktakinn eins og ekkert hafi í skorist, hann greiðir ekki reikninga á vöruúttektum hjá íslenskum birgjum. Hann býður starfsmönnum upp á það lök kjör að íslendingar vilja ekki fara í störf á Kárahnjúkasvæðinu. Atvinnuleysi vex hér á landi á meðan flugvélafarmar af erlendu verkafólki er flutt hingað. Svo einkennilegt sem það nú er, þá er mikil óánægja meðal margra af erlendu verkamönnunum vegna þess að ekki hefði verið staðið við það sem þeim var lofað áður en þeir komu hingað. Þessir menn segja að þeim hafi verið lofað 10 evrum á tíman, en þegar hingað var komið var ekki staðið við það og launin lækkuð. Þeim var lofað yfirvinnukaupi, ekki var staðið við það. Þeim er gert að standa næturvaktir á dagvinnukaupi. Þeim var lofuð frí heimferð um jólin nú væri búið að tilkynna að af því yrði ekki. Þeim var lofað mun betri aðstöðu í búðunum, en þessar búðir sem íslenskir ráðaherrar eru að hrósa eru að mati erlendu verkamannanna ekki boðlegar. Herbergi lítil og margt af þeim tækjabúnaði vantaði sem þeim var lofað, eins og t.d. sjónvörp og þvottavélar, þannig mætti lengi telja. Þannig að óánægjan er ekki öll tilkominn vegna krafna íslenskra stéttarfélaga um að standa við Virkjanasamning. Erlendu starfsmennirnir gerðu sér ekki grein fyrir sínum réttindum hér á landi, fyrr en þeir fóru að bera sig upp við íslenska trúnaðarmenn vegna vanefnda Impregilo. Enn hefur Impregilo gefið íslendingum langt nef, þeir lifa í sinni veröld og fjölmiðlar láta þá vera. 01.10.03.g.g.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?