Fréttir frá 2003

10 3. 2003

Af hverju er þetta svona á Íslandi?

Eins og ávalt eru a.m.k. tvær hliðar á hverju máli.  Þegar farið er um virkjanasvæðið við Kárahnjúka verður manni fljótt ljóst að verkinu miðar vel áfram og er nálægt því að vera á áætlun.  Framkvæmdirnar hafa mikil og jákvæð áhrif á atvinnu- og mannlíf fyrir austan. Stéttarfélögin og eftirlitsstofnanir hafa litið með velvilja til þessa mikla verkefnis og sætt sig við margskonar undanþágur á settum reglum hvað varðar aðbúnað á meðan fyrirtækið hefur verið að koma verkefninu af stað.  ?Ég er búinn að vera við byggingarverkefni í Finnlandi, Svíþjóð, Hollandi og Sviss, þar hefur þetta alltaf staðist. En þegar við komum til Íslands þá er komið fram við okkur eins og hunda, aðstaðan er ekki mönnum bjóðandi og við erum sviknir um launin okkar? sagði portúgalskur verkamaður við Kárahnjúka.  Formaður RSÍ er staddur á Kárahnjúkum og fjallar hér um stöðuna.Landsvirkjun hefur undanfarna áratugi byggt mikil og glæsileg raforkuver hér á landi og gert það af miklum myndarskap. Frágangur virkjana og umhverfi þeirra ber vott um að hjá fyrirtækinu eru færir starfsmenn og því er í mun að landsmenn séu sáttir við þessi mannvirki. Orkuverin hafa verið undirstaða að öflugri uppbyggingu atvinnulífs, sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi. Vitanlega hafa verið skiptar skoðanir um hvort og þá hvar eigi að virkja, en ljóst er að landsmenn sætta sig við virkjanaframkvæmdir ef undirbúningur þeirra er í samræmi við settar leikreglur, umhverfismat og skipulagstofnanir. Hér má benda á að mikill meirihluti landsmanna reis upp gegn fyrirhuguðum framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun og Eyjabakkalón, sakir þess hvernig stjórnvöld stóðu að málinu og ekki hafði verið farið að settum leikreglum. Margir umhverfissinnar hafa bent á að framkvæmdir við Kárahnjúka séu meiri náttúruspjöll en fyrirhugaðar voru á Eyjabökkum, en landsmenn sætta sig við þessar framkvæmdirnar sakir þess að nú hefur verið farið að settum leikreglum.  Kárahnjúkavirkjun er gífurlegt mannvirki. Til þess að takast á við það verkefni þarf fyrirtæki sem hefur yfir að ráða góðri þekkingu og skipulagi. Impregilo hefur tekist á við mörg stór verkefni og skilað þeim fullkláruðum. Þegar farið er um virkjanasvæðið við Kárahnjúka verður manni fljótt ljóst að verkinu miðar vel áfram og er nálægt því að vera á áætlun. Á nokkrum mánuðum er búið að grafa tæpa 3 km af jarðgöngum, leggja nokkra tugi kílómetra af vegum, hreinsa undan stíflustæðinu og reisa búðir fyrir fleiri hundruð manns. Unnið er að miklum krafti við undirbúning að koma upp færibandi, sem er feiknarlegt mannvirki og mun flytja jarðveg í stíflustæðið. Framkvæmdirnar hafa mikil og jákvæð áhrif á atvinnu- og mannlíf fyrir austan. Einstaklingar og fyrirtæki eru farin að fjárfesta og margskonar framkvæmdir eru komnar af stað, verslun og þjónusta nýtur góðs af þessu. Stéttarfélög hafa margsinnis lýst yfir stuðningi við þessar framkvæmdir.   Þetta er sú hlið sem við viljum sjá á þessu máli. En því miður er ekki öll sagan sögð. Stéttarfélögin og eftirlitsstofnanir hafa litið með velvilja til þessa mikla verkefnis og sætt sig við margskonar undanþágur á settum reglum hvað varðar aðbúnað á meðan fyrirtækið hefur verið að koma verkefninu af stað. En þrátt fyrir margskonar eftirfylgni er það að renna upp fyrir mönnum að fyrirtækið virðist hafa það á stefnuskrá sinni að virða að vettugi allar beiðnir um úrbætur fyrr en nánast allt er komið á annan endann. Í þessu sambandi má t.d benda á ákaflega einfaldan hlut, það eru kaffistofur eða vinnuskúrar eins og við köllum það gjarnan. Vinnutími á svæðinu er yfirleitt nálægt 10 ? 11 tímum á dag. Þetta er útivinna sem krefst líkamlegs álags. Í kjarasamningum og reglum um aðbúnað starfsmanna er vitanlega gert ráð fyrir neysluhléum, morgunmat, kaffi, hádegismat, eftirmiðdagskaffi og svo kvöldmat að vinnudegi loknum. Í allt sumar hefur það verið þrýst á um að komið sé upp aðstöðu út á vinnusvæðunum til þess að taka kaffihlé. Beiðnum starfsmanna og trúnaðarmanna þeirra hefur í engu verið sinnt, farið hefur verið fram á að starfsmenn séu þá keyrðir í mötuneytin. Því hefur verið algjörlega hafnað sakir þess að það taki svo langan tíma. Þetta er í sjálfu sér ekki mikið mál, það eru til gámar sem eru innréttaðir sem snyrtilega kaffistofur. Nú þegar allt er komið á annan endann og fyrirtækinu tilkynnt að starfsmenn muni verja allmiklum tíma í að ganga í mötuneytin, þá hófust nú loks fyrir nokkrum dögum framkvæmdir við að klæða gamla gáma að innan með krossviðsplötum. Engir gluggar, engin loftræsting. Þetta er mikil bót, haustveðrin farin að blása á hálendinu og skjól hvaða nafni sem það nú nefnist er gott.  Í viðtölum við erlenda starfsmenn á svæðinu hefur m.a. komið fram mikil vonbrigði þeirra um framkomu verkstjóra, aðbúnað og laun. Til er undirrituð yfirlýsing mjög margra portúgalskra iðnaðarmanna þar sem fram kemur að þeim var lofað 10 evrum á tímann, 8 tíma dagvinnu og svo 2 ? 3 yfirvinnutímum á dag. Í portúgölskum kjarasamningum er yfirvinnuálag aðeins öðru vísi en við eigum að venjast, það er 50% álag fyrsta yfirvinnutíma, 75% álag þann næsta og svo 100% þann þriðja og einnig um helgar. Þegar hingað var komið þá fá þeir 9 evrur á tímann. Vinnuvika þeirra er 10 tímar á dag 6 daga vikunnar, stundum er unnið fyrir hádegi á sunnudögum. Sumir þeirra vinna eingöngu á nóttunni og má geta þess að þeir hafa löngum ekkert neysluhlé fengið alla nóttina. Þeir fá alltaf 9 evrur á tímann og aldrei yfirvinnuálag. Ef erlendu starfsmennirnir eru veikir umfram 2 daga þá er þeim hótað brottrekstri og að verða sendir heim til Portúgals.  Áður en þeir fóru frá Portúgal var þeim lofað eins manns herbergi með salerni og vaski. Setustofu með sjónvarpi í hverjum skála og einnig að það væri þvottavél og þurrkari í hverjum skála. Þeim er aftur á móti þegar hingað er komið boðið upp á að vera tveir í herbergi, það eru fáar snyrtingar í hverjum skála, engar seturstofur. Eitt sjónvarp er í matsal, sem er lokað kl. 21.00. Skálarnir sem búið er að reisa eru fallegir að utan, sumar gerðir þeirra eru óþéttar og menn vakna stundum við að rúmin þeirra eru þakin mold og ryki og ekki sést í gólfin, ef það hefur skafið þá er snjór á ofan á loftþiljum sem bráðnar ofan í rúmin. Þessir skálar eru ekki fyrir íslenskar aðstæður. Allir íslendingar sem hafa skoðað þá segja að ef ekki verði bætt úr einangrun og fleiri atriðum, verði þessir skálar ekki í notkun ef einhverjar vetrarhörkur verða. Mötuneyti eru lítil, það er reyndar verið að byggja stærri, en það myndast langar biðraðir og þeir sem lenda aftast geta stundum ekki klárað matinn sinn áður en þeim er skipað út í rúturnar aftur. Í svefnskálum er ekki aðstaða til þess að skilja vinnufatnað eftir í upphituðum rýmum þannig að á morgnana eru þeir að fara í raka og gegnkalda kuldagallana. Þeir fá vinnuskó sem eru með stáltá en þeir eru þunnir og verð fljótt gegnblautir. Þessir skór eru vitanlega jafnblautir að morgni og þeir eru að kvöldi. ?Ég fer stundum frekar í spariskóna mína á morgnanna af því mér verður svo kalt á fótunum að fara í blauta vinnuskóna? sagði einn mér. Þeir fá örþunna bómullarvettlinga. Ástæða er að geta þess að þetta eru fátækir fjölskyldumenn og flestir eru með einn alfatnað hér og eina skó. Þeir fá engin laun á löghelgum frídögum, í orlofi fá þeir engin laun. Slasist þeir eða veikjast fá þeir engin laun, ?Þeir eru ekki að vinna og eiga þar af leiðandi ekki rétt á launum?, er viðkvæði verkstjóranna.  Í viðtölum mínum við marga þessara manna hefur komið fram undrun þeirra. ?Ég er búinn að vera við byggingarverkefni í Finnlandi, Svíþjóð, Hollandi og Sviss, þar hefur þetta alltaf staðist. En þegar við komum til Íslands þá er komið fram við okkur eins og hunda, aðstaðan er ekki mönnum bjóðandi og við erum sviknir um launin okkar?, kom fram hjá nokkrum þeirra.  Þetta svíður Íslendingunum sem eru að vinna með þeim. Ég hef hitt allmarga af okkar félagsmönnum á svæðinu, viðkvæðið er alltaf það sama, ?Guðmundur, það gengur ekki að komið sé svona fram við þá! Það er ömurlegt að sjá til þeirra í vondum veðrum. Félagið okkar á að beita sér í þessu máli?. Þetta er hin hliðin. Við vitum vel að flest ef ekki allt af þessu er óþarfi. Íslensk fyrirtæki hafa reist búðir uppfrá og það er verið að reisa stórar íslenskar búðir í Fljótsdal. Erlendu starfsmennirnir hafa komið og skoðað þær og segja ?Þetta er það sem okkur var lofað og það sem okkur er boðið upp á þegar við erum við störf í öðrum löndum en Íslandi. ? Meðal íslensku starfsmannanna verður maður var við mikla reiði vegna þessa. Það eru skipulagðir ?glans útsýnistúrar? um svæðið og snætt í mötuneyti Landsvirkjunar sem er hluti af dæmigerðum íslenskum búðum og er fjarri því sem hinir erlendu gestir okkar þurfa að upplifa. Ráðherrar og fleiri koma svo fram í fjölmiðlum með yfirlýsingar sem eru fjarri öllum raunveruleika. Íslensku starfsmennirnir á svæðinu eru agndofa og reyndar mjög reiðir yfir þessum tvískinnung. ?Af hverju láta menn svo, það á bara að ganga beint til verks og laga þetta!? heyrir maður oft í viðtölum við þá. ?Allir vilja að þetta verk gangi upp. Það á ekki að leyfa þessum mönnum að hleypa því í þessa tvísýnu.? Kárahnjúkum 03.10.03, Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?