Fréttir frá 2003

10 11. 2003

Barátta í upphrópunarstíl

Loks náðu starfsmenn við Kárahnjúka árangri í baráttu sinni. Hér fjallar formaður RSÍ um þróun mála og þá sérstaklega hversu einkennilegt það sé fyrir starfsmenn stéttarfélaga að þurfa ítrekað að berjast við stjórnvöld og þvinga þau til þess að sjá til þess að farið sé að settum lögum og reglugerðum. Valin hafi verið sú leið að mótmæla á opinberum vettvangi og beina augum almennings að staðreyndum málsins, frekar en að stöðva framkvæmdir, sem reyndar var oft fullt tilefni til. Það kalla ráðamenn upphrópunarstíl þegar þeir með ólund hafa orðið að beigja sig undir staðreyndir málsins. Árangrinum ber að fagna og nú vonast menn til þess að Kárahnjúkar verði góður vinnustaður og gott samstarf takist með öllum aðilum á svæðinu.    Sigur starfsmanna Loks náðu starfsmenn og stéttarfélögin við Kárahnjúka árangri í baráttu sinni. Lögmenn Impregilo komu frá Ítalíu og skrifuðu undir samning þar sem fyrirtækið fellst á að standa við gildandi kjarasamning og tryggt var að starfsmenn fengju rétt laun og ólöglegir ráðningarsamninga ógiltir. Ólögleg fyrirfram undirrituð uppsagnarbréf voru ógilt. Tryggt að starfsmenn fái fríar ferðir, jafnvel þó þeir séu reknir heim. Undirritaður var samningur við heilsugæsluna á Egilsstöðum um að hún taki að sér stjórn heilslugæslu á svæðinu. Unnið er að því að koma brunavörnum í lag. Viðræður eru í gangi um að bæta löggæslu á svæðinu. Hafinn er vinna við að þétta svefnskála og unnið við að klæða gáma að innan með krossviðsplötum sem eiga að verða kaffistofur og skjól starfsmanna út á svæðunum. Verið er að bæta skjólfatnað. Menn eru sammála um að bætt verði úr samskiptum á svæðinu og framkomu gagnvart starfsmönnum.    Það er ekki annað hægt að að minnast á sviðssetningu mikils sjónarspils í byrjun þessarar viku þar sem reynt var að telja okkur í trú um að heilsugæsla og brunavarnir hafi verið í fínu síðan í júní. Í því sambandi má minna á að þ. 22. ág. síðastl. var á Egilsstöðum sameiginlegur fundur fulltrúa Vinnu- og Heilbrigðiseftirlits, Brunamálastofnunar, sýslumanns sveitarstjórna, byggingarfulltrúa, Landsvirkjunar og stéttarfélaganna. Þar var samdóma álit allra á fundinum að því færi fjarri að ástandið við Kárahnjúka væri viðunandi. Impregilo hefði fengið margskonar undanþágur en fyrirtækið hefði í raun virt þær að vettugi og gengið sífellt engra. Ástandið væri hreint út sagt svakalegt í brunavörnum, löggæslu og heilbrigðismálum. Starfsmenn fengju ekki tilskyld neysluhlé og oft ekki næturmat. Það var samdóma álit að sumar gerðir svefnskálanna myndu ekki standast vetrarálag nema þeir væru lagfærðir. Vorum við dregin á asnaeyrunum allan þennan tíma, af hverju sögðu þeir ekki frá þessu á fundinum þ. 22. ág.?   Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að Impregilo sé þessa dagana loks að stíga stór skref í framfaraátt, eftir að heilbrigðisfulltrúar hafi árangurslítið og margítrekaðar gert athugasemdir fram til þessa. Og Félagsmálaráðherra fór í sína fyrstu heimsókn á svæðið í dag og skoðaði það með eigin augum í fylgd yfirtrúnaðarmanns. En eins og við höfum heyrt hefur hann ásamt iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra verið með margskonar einkennilegar athugasemdir, reyndar nánast aðdróttanir og ásakanir í garð okkar sem höfum staðið í þessari bará¡ttu fyrir verkafólkið á Kárahnjúkasvæðinu. Við höfum oft bent á að það hefði oft verið svo að farið væri með fólk í svokallaða "glanstúra" um svæðið. Félagsmálaráðherra segir eftir sína ferð með fulltrúum starfsmanna, að margt sé búið að bæta, en einnig þurfi að taka á ýmsum þáttum.    Við getum nú alið þá von í brjósti okkar að við Kárahnjúka verði góður vinnustaður, þar sem starfsmönnum sé boðið upp á þann aðbúnað sem þeir eiga rétt á og fái þau laun sem þeim ber. Merki um góðan vinnustað þar sem afköst og framleiðni er með eðlilegum hætti, eru góð samskipti fyrirtækis og starfsmanna. Fulltrúar stéttarfélaga og starfsmanna taka fagnandi móti þeim breytingum sem eru að eiga sér stað og vænta mikils af góðu samstarfi við Impregilo.    Af hverju kynna ráðamenn sér ekki málvöxtu?  Verkalýðshreyfingin hefur verið sökuð um að fara offari í þessu máli. Það er ekki hægt annað en að spyrja á móti. Voru menn virkilega að ætlast til þess að við sætum með hendur í skauti meðan verið er þverbrjóta kjarasamninga og landslög um aðbúnað verkafólks? Ég bendi á að verkalýðsfélögin hefðu í mörgum tilfellum í fulllum rétti getað gripið til mun harkalegri aðgerða en gert var. En þær vinnuaðferðir sem við völdum eru að bera árangur, án þess að verkið hafi verið tafið.   Það er kannski ekki einkennilegt að þurfa að takast á við erlent fyrirtæki sem er koma sér fyrir hér á landi og koma því í skilning um hvaða lög gildi á íslenskum vinnumarkaði. Á meðan unnið er að þessu þurfum við að sitja undir aðkasti frá ráðamönnum og embættismönnum. Í stað þess að ræða um málið með hreinskilnum hætti og vinna með okkur að úrbótum, þá er brugðið upp heilmiklu sjónarspili og reynt að gera okkur tortryggileg. Það er svo sem vel þekkt aðferð hér á landi, því miður. Alltaf ef er tekinn málstaður fyrirtækisins og því hrósað fyrir vel unnin störf og gefnar út yfirlýsingar að allt sé í lukkunnar velstandi.   Ráðamenn voru með óábyrgum vinnubrögðum sínum að stefna þessu mikilvæga verkefni í óvissu. Fullt ástæða er að geta þess að stéttarfélögin hafa margoft lýst yfir fullum stuðningi við þetta verkefni.    Hverjir eru með "Hefðbundnar upphrópanir" ?  Framkvæmdastjóri SA lýsir baráttu okkar sem hefðbundnum upphrópunum, sama hefur heyrst frá nokkrum ráðherra. Eftir því var tekið þegar tveir þingmenn stóðu upp og vildu þakka ráðherrum sínum sérstaklega fyrir góða stjórnahætti!! Nú er komið í ljós að við höfðum rétt fyrir okkur í öllum tilfellum? Væri þeim sem hafa verið að bera þessar ásakanir á okkur ekki nær að líta sér nær, það eru kannski þeir em hafa verið með hefðbundnar upphrópanir. Ég vill ljúka þessu helgarspjalli með því að óska okkur öllum og ekki síst starfsmönnum við Kárahnjúka til hamingju með sigurinn og vænti þess að við eigum eftir að eiga mjög góð samskipti við Impregilo. Samningurinn ætti að geta markað tímamót í samskiptum við erlenda verktaka hér á landi. 11.10.03.Guðmundur Gunnarsson 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?