Fréttir frá 2003

10 14. 2003

Þú skalt fá að finna fyrir því ef þú hafnar þessum launum

Við kynnningu á fjárlögum kom í ljós að stjórnvöld hyggjast lækka atvinnuleysisbætur. Þetta kom mörgum ef ekki öllum í opna skjöldu. Sé td litið til kosningabaráttunar í vor var eitt af því sem okkur var lofað af stjórnarflokkum að hækka bæturnar. Nú er hafinn vinna við undirbúning komandi kjarasamninga, RSÍ er með trúnaðarmannaráðstefnu sína þ. 31. okt og ASÍ með ársfund sinn 23. okt.  Þar verður vafalaust mörkuð stefnan í komandi kjarasamningum. Hér lítur formaður RSÍ yfir stöðuna eins hún snýr við okkur og kemst að þeirri niðurstöðu að ekki er hægt annað en líta til afstöðu sömu manna í Kárahnjúkadeilunni.Margir hafa litið til hinna stóru verkefna sem hafin eru fyrir austan og átt von á að atvinnuástand myndi batna. En horfur í atvinnumálum í dag eru ekki eins góðar og ætla mætti við fyrstu sýn. Vel á fimmta þúsund manns eru skráðir atvinnulausir og atvinnuleysi hefur farið vaxandi. Til landsins eru flutt fleiri hundruð erlendra verkamanna og íslensk verkalýðshreyfing hefur þurft að standa í hörðum bardaga til þess að þessu fólki sé boðið mannsæmandi viðurværi í samræmi við gildandi lög um aðbúnað verkafólks.    Nokkrir, þám ráðherrar, hafa sent okkur tóninn og haldið því fram að við ættum að láta af ofsóknum í garð hins erlenda fyrirtækis. Nær væri að þakka fyrirtækinu sérstaklega fyrir að koma hingað. Við færum offari með hefðbundnum upphrópunum sem gæti ekki leitt annars en að gera verkið óhagkvæmara fyrir Landsvirkjun. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig alls ekki á þessum ummælum. Öllum er ljóst er eftir því sem Landsvirkjun hefur sagt, þá var hinu erlenda fyrirtæki tryggður launaþáttur verkefnisins. Eftir að tilboðið var endurskoðað af hálfu Landsvirkjunar fékk fyrirtækið einn milljarð að auki svo það gæti staðið við Virkjanasamninginn. Í ljósi þessa er vart hægt að skilja þessi ummæli með öðrum hætti en svo að þetta fólk vilji að tökum aftur upp þrælahald. Flytjum inn vinnuafl og greiðum því mun lægri laun en kjarasamningar kveða á um og við eigum að búa þannig að þessu fólk að mestar líkur eru á að það bíði þess verulegan skaða, jafnvel endanlegan.   Ég er sannfærður um að fólk sem lætur svona fullyrðingar frá sér fara, er ekki í sambærilegum störfum og unnin eru á Kárahnjúkasvæðinu. Ekki virðist það skipta neinu þó þeir 1000 íslendingar sem sóttu um störf á Kárahnjúkasvæðinu fengu þau ekki, vegna þess að þessir samlandar okkar eru ekki tilbúnir að sætta sig við launakjörin og aðbúnaðinn sem í boði er. Margir þeirra eru á atvinnuleysiskrá, eða ef þeir hefðu farið þangað til starfa, þá hefðu önnur störf losnað. Við það hefði atvinnuleysið minnkað og útgjöld atvinnuleysissjóðs lækkað verulega. Ný störf hefðu skilað margfeldisáhrifum inn í íslenskt samfélag og við hefðum náð tilætluðum árangri við að byggja upp öflugra mannlíf fyrir austan.   Þrátt fyrir að tekist hafi að hækka lægstu laun umtalsvert í undanförnum kjarasamningum, eða frá tæpum 40 þús. kr. í 93 þús. á um 8 árum, þá hafa nokkrir orðið útundan í kaupmáttaraukningu síðustu ára. Um 10% ASÍ fólks er með undir 100 þús. kr. í laun á mánuði og um helmingur ASÍ félaga eru með 150 þús. kr. á mánuði eða minna. Atvinnuleysisbætur eru um 78 þús. kr. á mánuði og þær hafa hækkað mun minna en lágmarkslaun.   Takmark okkar hlýtur alltaf að tryggja samkeppnishæfni og hlúa að vaxtarmöguleikum íslensks atvinnulífs. Þannig að það geti verið undirstaða hagvaxtar og góðra starfa. Íslenskir launamenn hafa tekið virkan þátt í því að tryggja stöðugleika og með því renna stoðum undir þá kaupmáttaraukningu sem við höfum fengið frá 1990. Við höfum fylgt markvissri stefnu í kjarasamningum, horft frekar fram á við en til skammtíma launahækkana og með því skapað stöðugleika. Við höfnuðum kollsteypuaðferðinni. Með því höfum við rennt stoðum undir íslenskt atvinnulíf, það gerðum við ma með því að láta hluta launa okkar renna í starfsmenntasjóði og efla starfsmenntun á vinnumarkaði, sem hefur gert það að verkum hingað hefur leitað ný tækni og framleiðni aukist.   Í síðustu kosningabaráttu heyrðum við ítrekað loforð ma frá núverandi stjórnarflokkum um að atvinnuleysisbætur skyldu hækkaðar upp í tæpar 100 þúsund krónur á mánuði. Nú heyrum við þetta sama fólk boða að það hyggist að lækka atvinnuleysisbætur um 10 þús kr. og jafnframt er það að hrósa erlendu fyrirtæki og þakka því sérstaklega fyrir að greiða hér laun sem eru langt undir lágmarkslaunum. Það á að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur.   Ekki er hægt að skilja þennan boðskap öðru vísi en svo, að vinnandi fólk skal fá að vita það ef það lendir í því að missa vinnuna, þá er örbyrgðin á næsta leyti. Skapa á umhverfi þar sem launamenn skulu vera svo hræddir við að verða atvinnulausir að þeir láta bjóða sér hvaða vinnu sem er, á hvaða kjörum sem er og við hvað aðstæður sem bjóðast. Til þess eru hinir nytsömu sakleysingjar frá Portúgal heppilegir og fyrir það skulum við þakka hinu erlenda fyrirtæki. En nú er svo komið að það erum ekki bara okkur sem er misboðið. Portúgalirnir  hafa sagt hingað og ekki lengra, við höfum aldrei upplifað aðra eins framkomu og okkur er boðin hér á landi. Eins og ég hafði eftir þeim fyrir nokkru ?Af hverju er þetta svona á Íslandi??.14.10.03 gg

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?