Fréttir frá 2003

10 25. 2003

Ársfundur ASÍ 2003

Nú er ársfundur ASÍ 2003 að baki. Fundurinn var mjög vel hepnnaður, starfsfólk ASÍ með Halldór Grönvold skrifstofustj. ASÍ í broddi fylkingar tryggði frábæra umgjörð og snurðulausan framgang. Góð samstaða var og málefnanlegar umræður. Fundurinn bar skiljanlega merki þess að framundan er ár kjarasamninga. Á fundinum var kjörinn nýr varaforseti, einnig voru gerðar nokkrar breytingar á lögum ASÍ um skatta og eins atkvæðavægi aðildarfélaga þar sem komið var verulega til móts við óskir RSÍ. Hér fer formaður RSÍ yfir helstu atriði ársfundarins   Kjaramál Nú er lokið ársfundi ASÍ fundinn sátu um 270 fulltrúar og þar af 18 fulltrúar rafiðnaðarmanna. Á næsta ári munu allir kjarasamningar verða endurnýjaðir og báru umræður á fundinum skiljanlega merki þess. Ársfundarfulltrúar voru flestir samstíga um að þeir vildu fylgja áfram sömu stefnu og fylgt hefur verið frá 1990, með áherslu á að samið verði samið um launahækkanir sem tryggi launafólki jafnan stíganda í kaupmætti án þess að stöðugleika verði stefnt í voða. Okkur hafi tekist að lyfta lægstu launum töluvert og halda ætti áfram á þeirri braut. Atvinnuleysisbætur verða að hækka og fara í amk 93 þús kr. strax og tekjutengja þær amk fyrstu mánuðina. Langvarandi atvinnuleysi er vaxandi vandamál hér á landi og atvinnuleysibætur orðnar stærri þáttur í tekjum margra íslendinga. Þess vegna eru settar fram kröfur um bættar tryggingar. Stjórnvöld hafa aftur á móti boðað lækkun atvinnuleysisbóta. ASÍ hafnar öllum við ræðum um atvunnuleysistryggingarkerfið þar til að félagsmálráðherra hefur dregið þessi lækkunaráform tilbaka.   Framundan eru varasamir tímar þar sem hætta er á auknum verðbólguþrýsting, háum vöxtum og of mikillar styrkingar krónunnar. Þróun í þá átt er andstæð hagsmunum launafólks. Fylgja þarf skynsamlegri efnahagsstjórn þannig dregið væri úr hættunni á of mikilli þenslu í hagkerfinu. Fulltrúar voru sammála um samstarf stéttarfélaganna í komandi kjarasamningum gagnvart stjórnvöldum, tryggingaákvæði samninga og sameiginleg mál gagnvart atvinnurekendum. Setja þarf aukin kraft í byggingu leiguhúsnæðis þar sem einhver ákveðin fjöldi íbúða eru byggðar sem félagslegar íbúðir. Gera á fólki sem þarf á aðstoð að halda kleift að leigja á almennum markaði. Nokkur umræða var um lengd samninga sumir vildu semja til langs tíma. Fulltrúar RSÍ bentu á að forysta ASÍ hefði fyrir skömmu haldið því fram að einvörðungu ætti að semja til eins árs í senn. Af hálfu rafiðnaðarmanna gæti það komið til greina að semja til 4 ára, en þá þyrftu að vera mjög skýr ákvæði um árlega endurskoðun samninga og möguleikar til þess að opna samningana. Einnig minntu fulltrúar rafiðnaðarmanna á það misrétti sem opinberir starfsmenn innan ASÍ byggju við í lífeyrismálum.     Erlent verkafólk Allnokkur umræða varð um innflutning erlends verkafólks og hvernig fyrirtæki nýttu sér aðstöðu þessa fólks til félagslegra undirboða á íslenskum vinnumarkaði, þar sem kjör og aðbúnaður erlendra starfsmanna væru langt undir því sem hér þekkist. Sérstök ástæða væri til þess að bregðast við erlendum starfsmannaleigum. Mikilvægt væri að ná samningum við Samtök atvinnurekenda um þessi mál sem endurspegli raunlaun á íslenskum vinnumarkaði. Bent var á að deilan við aðalverktakann við Kárahnjúka hefði hingað til snúist um lágmarksákvæði kjarasamninga. Full ástæða væri beina sjónum að því að launakjör við Kárahnjúka eru langt undir því sem þekkst hefur hingað til við virkjanaframkvæmdir hér á landi. Þetta hefur leitt til þess að þátttaka íslensks launafólks í þessum framkvæmdum er mun minni en hægt væri að sætta sig við og stjórnvöld hefðu gert ráð fyrir þegar ákveðið var að fara í þessa miklu framkvæmd. Atvinnuleysi íslensks verkafólks færi vaxandi á meðan inn væru flutt erlent verkafólk svo hundruðum skipti. Á þessu þyrfti að ráða bót og það væri ekki gert nema að laun á svæðinu væru sambærileg og þekktust hér á landi.   Nýr varaforseti Á fundinum var gengið til kosninga um varaforseta, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir formaður landssambands verzlunarmanna og Kristján Gunnarsson varaformaður Starfsgreinasambandsins og formaður verkalýðs- og sjómannafélagsins í Keflavík gáfu kost á sér. Ingibjörg náði kjöri. Ljóst er að hún hefur náð töluverðu fylgi úr röðum Starfsgreinasambandsins og þótti líklegt að það kæmi helst frá kvenfólkinu í salnum. Einnig var það áberandi að margir töldu þörf á því að í forsetasæti væri einstaklingur sem ekki kæmi úr röðum þeirra sambanda sem hefðu starfsemi í sama húsi og ASÍ.   Breytingar á lögum um skattkerfi ASÍ Samþykktar voru nokkrar breytingar á lögum um skattgreiðslur til ASÍ, en um þær hafa verið nokkuð skiptar skoðanir, þar hafa ma rafiðnaðarmenn gagnrýnt skattkerfið um að það sé of flókið og það hafi leitt til mikilla hækkana á skattinum umfram aukningu félagsgjaldatekna. Í nýjum lögum er komið verulega til móts við þau sjónarmið sem við höfum sett fram, kerfið var einfaldað mikið og það á að miða að jöfnum greiðslna frá landssamböndunum. Einnig var samþykkt tillaga RSÍ um breytt fyrirkomulag á vinnu við rekstraráætlanir sambandsins.   Misjafnt vægi ársfundarfulltrúa Það hefur verið gagnrýnt á að atkvæðavægi bak við hvern ársfundarfulltrúa sé mjög misjafnt. Á ársfundinum voru samþykktar töluverðar breytingar á núverandi kerfi sem leiðir til þess að vægið verður jafnt. Fulltrúar RSÍ bentu á að við undirbúning þingsins hefði það uppgötvast það væri mjög misjafnt hvernig aðildarfélög skráðu gjaldfría félagsmenn, hér er um að ræða helst eldri félagsmenn og svo atvinnulausa. Rafiðnaðarmenn við hefðu gefið upp til ASÍ fullgreiðandi félagsmannafjölda. En sum félög innan Samiðn og Starfsgreinasambandsins hafa annan hátt á. Td. gefur Efling upp til ASÍ að hjá þeim séu vel á fjórða þúsund fullorðnir félagsmenn sem ekki greiða félagsgjöld og fá fyrir það úthlutað ársfundarþingsætum og taka til sín völd innan ASÍ í samræmi við það. Eða allt að 40% fulltrúa ákveðinna aðildarfélaga Samiðnar og Starfsgreinasambandsins væru á ársfundinum á þessum forsendum. Ef öll aðildarfélög ASÍ fylgdu fordæmi þessara félaga og teldu fram alla sína eldri félagsmenn, þá væru td fulltrúar rafiðnaðarmanna helmingi fleiri og með helmingi meira atkvæðavægi, það sama myndi gilda um mörg önnur félög. Eða öfugt ef fulltrúar  þessara aðildarfélaga innan Samiðnar og Starfsgreinsambandsins færu eftir sömu reglum og hin stéttarfélögin þá væru fulltrúar td. Eflingar allt að því þriðjung færri og atkvæðavægi mun minna. Þessi aðildarfélög teldu fram 10 þús. félagsmenn á þessum forsendum og hefðu mikið atkvæðavægi umfram hin félögin innan ASÍ á þessum forsendum. Á grundvelli þessarar nýfengnu vitneskju lögðu fulltrúar RSÍ fram tillögu á ársfundinum, þar var lagt til að á næsta ári verði farið yfir þessi mál og lagðar fram ákveðnar vinnureglur í þessu sambandi. Viðbrögð viðkomandi formanna á ársfundinum voru harla einkennilegar svo ekki sé nú meira sagt. En tillaga rafiðnaðarmanna hlaut mikið fylgi og var samþykkt.25.10.03 gg

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?