Fréttir frá 2003

11 26. 2003

Skortur á samfélagslegri ábyrgð.

Undanfarin ár hafa stjórnvöld unnið markvisst að einkavæðingu sem hefur leitt til mikillar sameiningar fyrirtækja og hagræðingar. Yfirlýst markmið stjórnvalda hafa verið óheft og frjáls samkeppni, sem átti að leiða til hagsbóta fyrir alla, lækkandi verðlags og vaxta. Sjónarmið arðs og auðhyggju hafa smá saman náð undirtökum. Örfáir einstaklingar hafa náð algjörum undirtökum. Þeir hafa hrifsað til sín arðinn af samfélagslegri neyslu. Hin almenni borgari situr eftir og á nánast allt sitt undir ákvörðunum þessara einstaklinga. Þetta er sá veruleiki sem nú blasir við okkur í íslensku samfélagi. Kaupþings-Búnaðarbankamálið og þau mál sem tengjast því fyrirtæki eru talandi dæmi um þetta. Formaður RSÍ veltir fyrir sér þessu í tengslum við komandi kjarasamninga .  Mjög umfangsmiklar þjóðfélagslegar breytingar eru að eiga sér stað í Evrópu og ekki síst hér hjá okkur. Undanfarin ár hafa stjórnvöld unnið markvisst að einkavæðingu sem hefur leitt til mikillar sameiningar fyrirtækja og hagræðingar. Yfirlýst markmið stjórnvalda hafa verið óheft og frjáls samkeppni, sem átti að leiða til hagsbóta fyrir alla, lækkandi verðlags og vaxta. Sjónarmið arðs og auðhyggju hafa smá saman náð undirtökum og eru að verða allsráðandi. Örfáir einstaklingar hafa náð algjörum undirtökum og eru komnir í lykilstöðu á mörgum sviðum. Þeir hafa hrifsað til sín arðinn af samfélagslegri neyslu. Hin almenni borgari situr eftir og á nánast allt sitt undir ákvörðunum þessara einstaklinga. Þetta er sá veruleiki sem nú blasir við okkur í íslensku samfélagi. Kaupþings-Búnaðarbankamálið og þau mál sem tengjast því fyrirtæki eru talandi dæmi um þetta.   Okurvextir og sívaxandi þjónustugjöld er það sem okkur er boðið og bankar og fjármálastofnanir raka saman ofboðslegum hagnaði. Fjölskyldufólk á í vaxandi erfiðleikum við að losna frá skuldum vegna stofnunar heimila og gjaldþrotum fjölgar. Fjármagnseigendur þrífast vel og ná til sín fleiri og fleiri fyrirtækjum og fákeppni er orðin alsráðandi á flestum ef ekki öllum sviðum. Sameining fyrirtækja hefur ekki verið til góðs, ef við lítum á það frá samfélagslegu sjónarmiði. Starfsstöðvum fækkar og atvinnuleysi vex. Nýsköpun er lítil og samfélagslegri ábyrgð er ekki sinnt, það er arðsemi fjármagnsins sem ræður. Fólk sem hefur byggt upp fyrirtækin í sinni heimabyggð og verið þeim trygg og með því í raun skapað þau verðmæti sem í fyrirtækjunum liggja, situr eftir atvinnulaust í verðlausum eignum sínum. Það flýr og fámennið stendur ekki undir samfélagslegri þjónustu, byggðir hrynja. Hinir ráðandi aðilar hafa orðið uppvísir um samráð í stað samkeppni. Örfáir einstaklingar í stjórnunarsætum nýta aðstöðu sína til þess að hrifsa til sín drjúgan hluta hagnaðarins í stað þess að skila honum til starfsmanna og viðskiptavina í formi hækkandi launa, lækkaðra vaxta og þjónustu gjalda, lækkun trygginga, olíu og benzíns og lækkun almenns vöruverðs á dagvöru. Þessir hinir sömu setja undir sig hausinn þegar að því kemur að semja um launakjör hins almenna starfsmanns, og hóta lokun fyrirtækja og flutningi þeirra til annarra staða.   Stefna ríkjandi stjórnarflokka er að bíða skipbrot. Það er reyndar ekki bara hér á landi, hægri stjórnir á öllum norðurlöndum eru komnar í vandræði. Markmið og stjórnarstefnur þeirra hafa leitt til hratt vaxandi atvinnuleysis. Er þar ekki að finna skýringu á ofsafengnum viðbrögðum forsætisráðherra undafarna daga? Markmið hans voru góð og búið er að gera marga mjög góða hluti í stjórnartíð hans, en græðgi örfárra fjármagnseigenda er að eyðileggja þann árangur. Hvert eigum við að stefna? Við þurfum að tengja betur saman hagsmuni fyrirtækja og starfsmanna. Það vantar samfélagslega ábyrgð í stefnu fyrirtækja og fjármagnseigenda. Ofurhagræðingin hefur ekki skilað okkur fram á veg, þvert á móti er hún farin að vinna gegn þeim þjóðfélagslegu markmiðum sem við höfum.   Verkalýðshreyfingin hefur lengi hvatt til þess að starfsmenn fái að komast að ákvarðanatöku og mótun stefni fyrirtækja. Vel rekin fyrirtæki eru um margt lík íþróttaliði, Starfsmenn þurfa stanzlausa þjálfun í formi símenntunar og liðsheildin þarf að þekkja markmiðin svo hún viti að hverju er keppt. Verkefnin leita þangað sem þau eru leist. Verkalýðshreyfingin hefur lýst því yfir að hún vilji koma í vaxandi mæli að ákvarðanatöku um mótun þjóðfélagsins og kynnt markmið þar að lútandi eins og t.d. í velferðar- og atvinnumálum. Hún hefur sýnt ábyrgð við gerð kjarasamninga boðið stjórnvöldum upp á samráð um setningu markmiða. Stjórnvöld hafa oftar en ekki reynt að víkja sér undan þessu og reynt að komast hjá að standa við þau markmið sem sett eru. Íslenskir kjarasamningar bjóða upp á sveigjanleika, en því hefur verið stefnt í hættu með nánast óheftum innflutningi erlends vinnuafls þar sem sveigjanleiki kjarasamninga er nýttur til hins ítrasta þess að ná niður kjörum. Stórverkefnin eru ekki að skila þeim þjóðfélagslega markmiðum sem stjórnvöld vildu ná. Virðisaukinn streymir beint úr landi í launum erlends verkafólks og arði erlendra fyrirtækja. Komandi kjarasamningar geta skipt miklu um hvert verði stefnt. Stjórnvöld og fyrirtæki geta ásamt verkalýðshreyfingunni náð saman um að leiðrétta það sem miður hefur farið undanfarið.23.11.03. Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?