Fréttir frá 2003

12 30. 2003

Árið 2003 og hvað er í vændum - Gleðilegt komandi ár þökk fyrir hin liðnu

Áramótagrein formanns RSÍ. Þar er fjallað um Kárahnjúkana og hvernig reynt er að fela þær deilur sem þar hafa verið og komið inn á umræðu við nokkrar af fyrri virkjunum. Hann veltir fyrir sér hvernig stjórmálamenn forðast málefnanlega umræðu og spáir í hvað muni gerast á næsta ári.  Kárahnjúkar Í árslok fara menn oft yfir árið sem er renna sitt skeið á enda og velta því fyrir sér helstu uppákomum og svo við hverju búast megi við á komandi ári. Það sem kemur fyrst upp í hugann á þessu ári eru hinar miklu framkvæmdir á Austfjörðum og atvinnuuppbyggingin þar. Það er fagnaðarefni að þessar framkvæmdir séu komnar af stað. Hér er ekki einvörðungu um að ræða Kárahnjúka, verið er að grafa mikil göng á milli Reyðafjarðar og Fáskrúðsfjarðar og það er farin af stað mikil uppbygging í byggðarkjörnunum á þessu svæði. Verkalýðshreyfingin hefur verið ákaflega jákvæð gagnvart þessum framkvæmdum, en hún hefur ásamt opinberum eftirlitsmönnum mótmælti því að á sama tíma og atvinnuleysi væri vaxandi hér væri verið óheft flutt til landsins erlendir starfsmenn og þeim greidd laun sem eru langt undir umsömdum launum og aðbúnaður víðsfjarri því sem hægt er að sætta sig við.   Staðreyndum snúið á haus Þau ummæli sem verða líklega lengi í umræðunni eru þegar formaður Framsóknarflokksins hrósaði ítalska fyrirtækinu í hástert og þakkaði því sérstaklega fyrir að koma hingað. Var hann að þakka því fyrir að þverbrjóta gildandi lög um aðbúnað og hollustuhætti og lög um lágmarkskjör, spurðu margir. Hvað var hann að þakka þeim fyrir?. Í kjölfar þessara einkennilegu ummæla hafa sumir stjórnmálamenn úr stjórnarliðinu ítrekað reynt að snúa þessu upp í að verkalýðshreyfingin sé á móti atvinnuuppbyggingu, því fer fjarri.   Þessi málflutningur er álíka og sá sem fór í gang þegar RSÍ sendi frá sér ályktun um Fljótsdalsvirkjun. Því var snúið upp í að RSÍ væri á móti þeirri virkjun!! Í ályktun miðstjórnar Rafiðnaðarsambandsins frá 16. des. 1999 stendur m.a. : ?Umræða um byggingu orkuvers á Eyjabökkum hefur því miður snúist yfir í öfgakennda "allt eða ekkert umræðu". Þar sem valkostum um áframhaldandi mannlíf á Austfjörðum er stillt upp gegn náttúrunni, gæsastofninum og hreindýrum landsins. Forysta RSÍ hefur verið og er því fylgjandi að virkjunin fari í umhverfismat. Það er ekki sakir þess að RSÍ sé því mótfallið að þarna verði virkjað, heldur þvert á móti. Sambandið er því eindregið fylgjandi að virkjað verði á þessu svæði og er því einnig fylgjandi að atvinnulíf á Austfjörðum verði eflt með byggingu iðjuvers og frekar fleiri en einu. Við hljótum að geta gert kröfur um að stjórnvöld hafi burði til þess að taka af skarið og beina þessari umræðu, sem er farin að hafa óheppileg áhrif á þjóðlífið, inn á brautir þar tekist er á um val á þeim kostum sem í boði eru?   Í þessu sambandi ætla ég einnig að rifja upp part úr grein sem birtist á heimasíðu RSÍ í des. 1999 : Það má aldrei leika nokkur vafi um lögmæti athafna stjórnvalda, annars er lýðræði ógnað ef stjórnvöld eru komin á það stig, að telja sig vera æðri þeim leikreglum sem í gildi eru. Miðstjórn RSÍ er ósátt við hvernig stjórnvöld hafa haldið á málinu. Þau eru í raun að leggja andstæðingum virkjana vopn í hendurnar og stefna málinu í öngstræti. RSÍ er að krefjast þess að vafanum sé eytt og málið sett í eðlilegan farveg og með stillt til friðar í þjóðfélaginu. Ef það verði ekki gert er hætt við að eðlilegri áframhaldandi uppbyggingu orkukerfisins sé stefnt í hættu um ókomna framtíð og þá sé gengið gegn hagsmunum Austfirðinga og reyndar landsmanna allra. Draga eigi þá valkosti sem í boði eru fram, og síðan að leggja síðan heildstætt mat á hvort og þá hvernig hægt sé að virkja á þessu vatnasvæði með þeim hætti að náttúran biði sem minnstan skaða og með sem víðtækastri sátt meðal þjóðarinnar.   Það þarf ákveðið og sérstakt hugarfar til þess að lesa úr þessu að RSÍ sé á móti virkjunum   Staðreyndir faldar Stundum hefur afstöðu RSÍ vegna virkjunar við Sultartanga verið blandað saman við þessa umfjöllun. Hér er hluti úr grein sem við birtum á heimasíðu okkar þ.17. marz 2000: En meir svíður okkur undan því mismunandi mati sem lagt er á fagleg vinnubrögð. Þess er krafist réttilega af íslenskum rafiðnaðarmönnum að þeir skili verkum sínum með faglegum hætti og noti viðurkenndan búnað. Gagnvart erlendum fyrirtækjum er allt annað upp á teningnum. Þau komast upp með ótrúlega lélegan frágang og að því að mér er tjáð þá eru þau stundum að setja upp búnað sem ekki er viðurkenndur gagnvart íslenskum fyrirtækjum. Vanir íslenskir rafiðnaðarmenn sem hafa starfað við uppsetningu á fleiri en einni virkjun segja að Sultartangavirkjun sé faglegur ruslahaugur, hún sé í raun ónýtt drasl. Það blasi við þegar erlendu rafiðnaðarmennirnir verða farnir þá verði starfsmenn Landsvirkjunar árum saman að laga þann búnað sem erlendu fyrirtækin hafa komist upp með að setja þar upp og endurmontera þurfi alla skápa sem þeir hafi sett upp. Íslensku rafiðnaðarmennirnir kvarta undan því að eftirlitsmenn hafi í raun hag af því að þetta sé svona því þeir séu að skapa sér verkefni um ókomin ár.   Í skoðunarferð til Sultartanga sem framkvæmdastjórn RSÍ var boðið í af forstjóra Landsvirkjunar fór nokkru eftir að virkjunum var gangsett, voru okkur sýndir rafmagnsskápar ásamt frágangi í virkjuninni. Allt var með miklum ágætum. Einnig var farið með nokkra okkar afsíðis og sýndir þeir  skápar sem höfðu verið fjarlægðir. Rafiðnaðarmenn hjá Landsvirkjun eru mjög færir og fyrirbyggjandi viðhald þar á mjög háu stigi. Fullyrðing rafverktakans sem vitnað er til í greininni stóðst því fyllilega, það var búið að lagfæra allt sem miður hafði farið. Ástæða er að geta þess að aldrei mótmæltu rafiðnaðarmenn byggingu þessarar virkjunar.  Rafiðnaðarmenn hafa snúið bökum saman og aukið menntun innan starfsgeirans þannig að þeir geti tekist á við hvaða verkefni sem hingað koma. Íslensk fyrirtæki í rafiðnaðargeiranum eru að taka að sér verkefni um víða veröld. Við viljum að gerðar séu faglegar kröfur til okkar, en förum fram á að það séu gerðar sömu kröfur til annarra sem hingað koma.   ?Heimildarmynd? Eitt af því einkennilega sem maður upplifði á síðasta ári var sjónvarpsmynd sem var kynnt nú rétt fyrir jólin sem heimildarmynd um byggingu Kárahnjúka. Þar er með mjög áberandi og nákvæmum hætti vikist undan því að taka á öllum þeim atriðum sem voru og eru deiluefni, þe starfsmannaleigur og aðbúnaður starfsmanna á Kárahnjúkasvæðinu og baráttu hinna bláfátæku verkamanna ma með verkfalli. Þess í stað er rætt við forsvarsmenn íslensks fyrirtækis sem á mikið undir því að fá vinnu hjá aðalverktakanum. Í þessari ?heimildarmynd? eru allir opinberir eftirlitsmenn og trúnaðarmenn launamanna á svæði afgreiddir á einu bretti sem lygarar!!   Pólitíska umræðan Eitt af því sem við höfum upplifað á síðasta ári er hvernig forsvarsmenn stjórnarflokkanna víkja sér í vaxandi mæli undan því að taka þátt í málefnanlegri umræðu. Ef settar eru fram skoðanir um störf stjórnarherrana, þá er því ekki svarað með málefnanlegum hætti. Þetta kom mjög vel fram í umræðu um eftirlaunamálið. Frumvarpið er lagt fram að kvöldi dags og það er kemur fram í seinni fréttum Sjónvarpsins. Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar átta sig strax á hvað sé á ferðinni og morguninn eftir er farið mjög ítarlega yfir frumvarpið ásamt hagfræðingum ASÍ. Þá er haft samband við þingmenn, þar kemur fram að þeim hefur ekki verið kynnt innihaldið og hver verði heildarkostnaður þess. Þeir komu fullkomlega af fjöllum. Í umræðum ráðherra og stjórnarþingmanna í fjölmiðlum var að venju farin sú leið að ata verkalýðshreyfinguna auri og hún sökuð um að hafa ekki kynnt sér innihald tillögunnar. Allir vissu að það var hið gagnstæða, þingmenn höfðu ekkert kynnt sér frumvarpið. Engu er svarað með málefnanlegum hætti. Sumir þingmenn opinberuðu sig í því að þeir skilja ekki upp eða niður í launamálum og þaðan af síður í lífeyrismálum. Allt sem við sögðum hefur verið staðfest og stjórnarþingmenn og ráðherrar sitja ekki á háum hesti eftir þetta mál. Flestir stjórnarandstöðumennirnir sýndu þá ábyrgð að taka með málefnanlegum hætti á þessu máli, það gerðu hins vegar stjórnarþingmenn ekki.   Engin málefnanleg svör Stjórnarþingmenn þola ekki mótbárur af neinu tagi og það er mikið veikleikamerki. Þeir afgreiða allt sem birtist Fréttablaðinu, DV og Norðurljósastöðvunum, með því að þetta séu bara einhverjir ómerkilegir auglýsingapésar auðmanna sem hafa eitthvað óhreint í pokahorninu. Starfsfólk þessara fjölmiðla eru nokkur hundruð manns og margt af því eru með bestu fjölmiðlamönnum þessa lands. Þetta fólk er að mati forsvarsmanna stjórnarflokkanna skoðana- og viljalaus verkfæri í höndum Baugsveldisins.   Davíð Oddsson tók með svo myndarlegum hætti á umræðunni um Græðgisvæðinguna og tuktaði til strákana sem voru að hrifsa til sín drjúgan hluta af ofboðslegum hagnaði bankanna með ofurlaunum og skenka sér gildum eftirlaunasamningum í stað þess að lækka vextina og þjónustugjöldin. En byltingin étur börnin sín og Græðgisvæðingin er kominn vel á veg með að kokgleypa þá sem leiddu hana yfir okkur. Það sjáum við m.a. á eftirlaunafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Nú er komið í ljós að nokkrir stjórnmálamenn hafa skenkt sjálfum sér á sínum tíma aðgang að því að gerast stofnfjárfestar. Nú virðist vaka fyrir þeim að hrifsa til sín verulegar fúlgur af almannafé með því að selja sparisjóðina.   Hvað gerist á næsta ári Það verða að teljast verulegar líkur á hún verði brött brekkan fyrir ríkisstjórnina næstu mánuðina og það verði miklar hræringar í hinum pólitíska heimi. Eins og staðan er í dag er ekki ólíklegt að það gætu orðið harkaleg átök við gerð kjarasamninga seinna í vetur vegna tilrauna stjórnvalda að færa niður laun hér á landi með óheftum innflutningi á bláfátækum og bjargarlausum erlendum verkamönnum og ekki síður hvernig þau mismuna launamönnum í lífeyriskerfinu.   Einnig er ekki ólíklegt að inn í þessar deilur fléttist umræður um hver viðbrögð eigi að vera þegar Evrópska efnahagsvæðið stækkar í vor og 104 milljónir íbúa bætast við. Þetta mun valda miklum þjóðfélagslegum breytingum og harkalegum átökum á vinnumarkaði ef ekki verður brugðist við með réttum hætti.   Skortur á samfélagslegri ábyrgð. Mjög umfangsmiklar þjóðfélagslegar breytingar eru að eiga sér stað í Evrópu og ekki síst hér hjá okkur. Undanfarin ár hafa stjórnvöld unnið markvisst að einkavæðingu sem hefur leitt til mikillar sameiningar fyrirtækja og hagræðingar. Yfirlýst markmið stjórnvalda hafa verið óheft og frjáls samkeppni, sem átti að leiða til hagsbóta fyrir alla, lækkandi verðlags og vaxta. Sjónarmið arðs og auðhyggju hafa smá saman náð undirtökum og eru að verða allsráðandi. Örfáir einstaklingar hafa náð algjörum undirtökum og eru komnir í lykilstöðu á mörgum sviðum. Þeir hafa hrifsað til sín arðinn af samfélagslegri neyslu. Hin almenni borgari situr eftir og á nánast allt sitt undir ákvörðunum þessara einstaklinga.   Sameining fyrirtækja hefur ekki verið til góðs, ef við lítum á það frá samfélagslegu sjónarmiði. Starfsstöðvum fækkar og atvinnuleysi vex. Nýsköpun er lítil og samfélagslegri ábyrgð er ekki sinnt, það er arðsemi fjármagnsins sem ræður. Fólk hefur komið sér fyrir og byggt upp hús, skóla og samfélagslega aðstöðu í sinni heimabyggð, þetta hefur gert fyrirtækjum kleift að byggja upp starfsemi sína. Starfsfólkið hefur með þessu í raun skapað þau verðmæti sem í fyrirtækjunum liggja. Það situr eftir atvinnulaust í verðlausum eignum sínum þegar eigendur fjárgnsins selja fyrirtækið og starfsemin er flutt fyrirvaralaust í burtu. Örfáir einstaklingar í stjórnunarsætum nýta aðstöðu sína til þess að hrifsa til sín drjúgan hluta hagnaðarins í stað þess að skila honum til starfsmanna. Það vantar samfélagslega ábyrgð í stefnu fyrirtækja og fjármagnseigenda og það verður að taka á því máli strax. Ofurhagræðingin hefur ekki skilað okkur fram á veg, þvert á móti er hún farin að vinna gegn þeim þjóðfélagslegu markmiðum sem við höfum. Gleðilegt  komandi ár þökk fyrir hin liðnu 30.12.03 Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?