„Það var sérstaklega gaman að hitta formanninn þarna á Skógarnesi og fara með honum um svæðið,“ segir Ágúst Geirsson, fyrrverandi formaður Félags íslenzkra símamanna í samtali við RSÍ. Ágúst var formaður símamanna í tvo áratugi en félagið gekk í Rafiðnaðarsambandið árið 1998. Það var í hans formannstíð sem félagið festi kaup á spildu úr jörðinni Austurey við Apavatn, það svæði sem við þekkjum í dag sem Skógarnes. Þetta var árið 1965.

Fram kemur í viðtali við Ágúst í Símablaðinu frá árinu 1975 að kaupverðið hafi verið um 13 þúsund krónur á hektara en landið er um 25 hektarar. Það gera 337 þúsund nýjar krónur á hektara en árið 1981 var gerð myntbreyting þar sem felld voru brott tvö núll af verðgildi krónunnar. 100 gamlar krónur urðu að einni nýrri.

Arkitektar voru fengnir að borðinu strax í kjölfar kaupanna. Þeir teiknuðu svæðið upp og áttu drjúgan þátt í því hve vel hefur tekist til.

Skipulögðu svæðið strax í upphafi

Ágúst segir í samtali við RSÍ í kjölfar kaupanna hafi félagið fengið í lið með sér þá Reyni Vilhjálmsson landslagsarkitekt og Þorvald S. Þorvaldsson húsaarkitekt. Þeir hafi skipulagt landið með félaginu. „Það var ákveðið í upphafi að skipuleggja svæðið og vinna eftir því skipulagi. Við gróðursettum tré, þar sem nú er rjóður eða  skógur og húsin eru á þeim stað þar sem þau voru hugsuð. Þetta er mjög líkt því sem við lögðum upp með – og ég er afar ánægður með hvernig til hefur tekist,“ segir hann.

Það var tilviljun sem réði því að þeir formennirnir hittust á Skógarnesi á þessum fallega degi fyrr í sumar. „Ég hafði ekki komið á svæðið í allmörg ár og langaði að sjá hvernig þetta liti allt saman út. Það var svo dóttir mín og tengdasonur sem buðu okkur hjónunum í bíltúr. Við höfðum jafnframt látið okkur detta í hug að leigja við tækifæri Stóra húsið, undir fjölskylduna,“ segir Ágúst um aðdraganda og tilurð heimsóknarinnar.

Fljótlega eftir að þau komu í Skógarnes rákust þau á Kristján Þórð, formann RSÍ, sem var þar staddur í útilegu með fjölskyldunni. „Ég sá þarna formanninn – kannaðist við hann úr fréttum – og við tókum saman tal. Við fengum þessar fínu móttökur og við skoðuðum svæðið saman.“

Ágúst er afar ánægður með þær móttökur sem hann fékk á Skógarnesi. Þeir Kristján Þórður áttu þar saman góða stund.

Símamenn voru brautryðjendur

Ágúst segir að símamenn hafi snemma farið að huga að orlofshúsum en félagið var stofnað 1915 og er að hans sögn elsta félag opinberra starfsmanna á Íslandi. „Við vorum svolítið sér á parti í því að byggja orlofshús svona snemma,“ segir hann. Á vef Félags íslenzkra símamanna segir að á fundi þann 12. júní 1931 hafi verið samþykkt að byggja 70 fermetra frístundahús að Vatnsenda við Elliðavatn. Þannig hafi símamenn verið í forystu í sumarbústaðamálum meðal samtaka launafólks á Íslandi. Árið 1934 var svo byggt hús í Vaglaskógi, árið 1936 í Tungudal og 1939 í Egilstaðarskógi.

Eins og fyrr segir var spildan úr Austurey keypt árið 1965. „Við auglýstum eftir landi eða hluta úr jörð og fengum mörg tilboð. Þetta varð á endanum fyrir valinu. Þetta land var sérstaklega álitlegt vegna legu þess; um var að ræða nes sem gekk út í vatnið og gaf mikla möguleika fyrir tómstundastarf. Svæðinu fylgdi jafnframt veiðiréttur í vatninu strax í upphafi. Loks var þetta hæfilega langt frá borginni,“ útskýrir Ágúst.

Fylgist vel með á tíræðisaldri

Þrátt fyrir að Ágúst sé 91 árs að aldri segist hann enn fylgjast vel með verkalýðsbaráttunni. Hann segir aðspurður að margt hafi breyst frá hans tíð og að viðfangsefnin séu ólík.  „Við vorum opinberir starfsmenn öll þau ár sem ég var formaður. Þegar ég var að byrja voru launalög sett af Alþingi, fyrir opinbera starfsmenn. Við fengum svo í kjölfarið kjaradóm og samningsrétt. Það breytti miklu,“ segir Ágúst sem sat, samhliða formannstíð sinni, í samninganefnd og stjórn BSRB. „Ég fylgist alltaf með þessari baráttu,“ segir Ágúst sem er við hestaheilsu og spilar golf flesta virka daga.

Ágúst er afar ánægður með heimsókn sína á Skógarnes og þær viðtökur sem hann þar fékk. „Við gengum þarna saman um landið, meðal annars að bátaskýlinu sem var reist í minni tíð. Svo gengum við upp að Stóra húsi og skoðuðum það. Það var gaman að sjá safnið og símalínuna sem þarna var reist. Ég er mjög ánægður með hvernig til hefur tekist,“ segir hann að lokum.