Dagvinna skal vera unnin á tímabilinu frá kl. 07:00 til kl. 18:00 mánudaga til föstudaga og skal vera samfelld. Ef vinna er skipulögð þannig að ekki sé unnið 8 klst. fimm daga vikunnar skal það koma fram í ráðningarsamningi. Yfirvinna tekur við þegar dagvinnu lýkur. Þess utan getur verið að kalla þurfi út starfsfólk eða að samið er um bakvaktir. Á tímum fjarvinnulausna hefur það færst í aukana að mögulegt er að leysa verkefni fjarri vinnustað hvenær sem er sólarhringsins. Af gefnu tilefni er sérstaklega tekið á þessum atriðum í kjarasamningum.
Samningur Samtaka atvinnulífsins og RSÍ 2019-2022
2.4. Bakvaktir
2.4.1. Heimilt er að semja við starfsmann um að hann sé á bakvakt og reiðubúinn að sinna útkalli.
2.4.2. Á bakvakt skal viðkomandi vera reiðubúinn að sinna útkalli.
2.4.3. Ef starfsmaður þarf að vera reiðubúinn að sinna útkalli með skömmum fyrirvara (innan klukkustundar) fær hann greitt sem svarar 33% dagvinnustundar fyrir hverja klst. á bakvakt.
Ef starfsmaður þarf að vera reiðubúinn að sinna útkalli innan tveggja klukkustunda fær hann greitt sem svarar 25% dagvinnustundar fyrir hverja klst. á bakvakt.
Ef starfsmaður þarf að vera reiðubúinn að sinna útkalli innan tveggja til fjögurra klukkustunda fær hann greitt sem svarar 16,5% dagvinnustundar fyrir hverja klst. á bakvakt.
Fyrir bakvakt á helgidögum (öðrum en sunnudögum) og stórhátíðardögum greiðist 50% hærra bakvaktarálag en skv. ofanskráðu.
2.4.4. Fyrir útkall á bakvakt skal starfsmaður fá greitt fyrir unnin tíma þó að lágmarki þrjár klst., nema dagvinna hefjist innan tveggja stunda frá því að hann kom til vinnu, þó fari aldrei saman bakvaktagreiðslur og yfirvinnugreiðslur.
2.4.5. Almennt skal við það miðað að bakvaktir séu ekki skipulagðar til skemmri tíma en 6 klst. á virkum dögum og 8 klst. um helgar. Í þeim tilvikum sem skemmri bakvaktir eru skipulagðar skal ekki greiða lægra bakvaktarálag en 33% af dagvinnustund.
2.4.6. Fyrir upphaf bakvaktar skal ganga þannig frá búnaði, að lágmarks möguleikar verði á því að til útkalls komi á eftirfarandi bakvakt.
Skýring: Með bakvakt skuldbindur starfsmaður sig til að mæta til vinnu vegna útkalls. Bakvaktarálag er mishátt eftir því hversu bundinn starfsmaður er á bakvakt. Því telst það ekki bakvakt ef skuldbinding er ekki fyrir hendi.
2.4.7. Bakvaktir skal boða með minnst tíu daga fyrirvara og bakvaktaskrá skal að öllu jöfnu ekki gilda í skemmri tíma en tvær vikur.
2.5. Ónæði vegna síma
Séu símanúmer starfsmanna gefin upp af hálfu fyrirtækisins skal við launaákvörðun tekið tillit til þeirrar vinnu sem af því hlýst.
2.6. Þjónusta utan bakvakta með fjarlausnum og símhringingum
2.6.1. Sé starfsmanni sem ekki er á bakvakt gert að sinna þjónustu með fjarlausnum eða símhringingum í frítíma sínum skal samið um þóknun vegna þess ónæðis sem af því hlýst. Tilgreina skal þóknun í ráðningarsamningi.
2.6.2. Með fjarlausnum er átt við vinnu sem starfsmaður getur unnið utan vinnustaðar með tölvubúnaði.
2.6.3. Við mat á þóknun skal meðal annars litið til þess:
a. Hversu líklegt er að starfsmaður verði fyrir röskun vegna þjónustunnar.
b. Hversu mikið vinnuframlag er farið fram á að hálfu starfsmanns vegna þjónustunnar þegar hennar er krafist.
c. Hversu tafarlausra viðbragða er krafist af hendi starfsmanns.
d. Á hvaða tíma sólahrings starfsmaður kann að vera beðinn um að veita þjónustuna.