Lög Rafiðnaðarsambands Íslands

1. kafli

Nafn, hlutverk og markmið

1.      grein

Sambandið heitir Rafiðnaðarsamband Íslands, skammstafað RSÍ.  Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2.      grein

Sambandið er heildarsamtök allra sem starfa að iðn- og tæknistörfum í rafiðnaði, raforkuiðnaði, raftækniiðnaði, miðlun, útgáfu, upplýsingatækni og skapandi greinum og sambandið ákveður að veita viðtöku.

3.      grein

Rafiðnaðarsamband Íslands er aðili að Alþýðusambandi Íslands, fyrir þau aðildar­félög RSÍ sem þess óska.

4.      grein

Markmið sambandsins er m.a.:

 1.  Að sameina í eitt samband allt launafólk sem tiltekið er í 2. grein til að vinna að bættum kjörum og öðrum hagsmunamálum félagsfólks aðildarfélaga sambandsins.
 2.  Að gangast fyrir stofnun stéttarfélaga fyrir þá sem tilteknir eru í 2. grein þar sem slík félög eru ekki fyrir.
 3.  Að hafa forgöngu um samræmdar aðgerðir aðildarfélaganna við samninga um kaup og kjör, og koma fram fyrir þeirra hönd við samningsgerð þegar um heildarsamninga er að ræða.
 4.  Að veita einstökum aðildarfélögum sérhverja aðstoð sem sambandið getur í té látið við sérsamninga þeirra og gangast fyrir gagnkvæmri aðstoð þeirra hvert við annað í hvers konar deilum um kaup og kjör.
 5.  Að koma fram af hálfu aðildarfélaganna í samskiptum við önnur heildarsamtök, innlend sem erlend og opinber yfirvöld og að eiga aðild að alþjóðlegu samstarfi.
 6. Að vinna að aukinni starfsmenntun þeirra sem tilteknir eru í 2. grein, að því er snertir iðnnám, starfsnám, eftirmenntun og framhaldsnám.
 7.  Sambandið skal fjalla um lífeyrismál með heildarhagsmuni launþega í lífeyrismálum að leiðarljósi og gangast fyrir að félagsfólki sé tryggð aðild að lífeyrissjóði.
 8.  Að starfrækja sjúkrasjóð með iðgjöldum þeim, sem innheimt eru samkvæmt kjarasamningum sambandsins eða einstakra aðildarfélaga þess og tilleggi af félagsgjöldum.  Meginlutverk sjóðsins verði að tryggja félagsfólki bætur í veikinda- og slysatilfellumog að auki að veita styrki sem stuðla að bættri heilsu og lífsgæðum félagsfólks. Sambandsþing og sambandsstjórn skulu setja sérstakar reglur um starfsemi sjóðsins.
 9.  Að starfrækja orlofssjóð með iðgjöldum þeim, sem innheimt eru samkvæmt kjarasamningum sambandsins eða einstakra aðildarfélaga þess.  Hlutverk sjóðsins skal vera að eiga og reka orlofshús til afnota fyrir félagsfólk sambandsins.  Sambandsþing og sambandsstjórn skulu setja sérstakar reglur um starfsemi sjóðsins.
 10. Að starfrækja vinnudeilusjóð með tilleggi af félagsgjöldum.  Hlutverk sjóðsins skal vera að styrkja félagsfólk í vinnudeilum sambandsins eða einstakra aðildarfélaga þess við atvinnurekendur.  Sambandsþing og sambandsstjórn skulu setja sérstakar reglur um starfsemi sjóðsins.
 11. Að starfrækja menningarsjóð með tilleggi af félagsgjöldum og tekjum af eignum.  Hlutverk sjóðsins skal vera að styrkja verkefni í fræðslu- og menningarmálum.  Sambandsþing og sambands­stjórn skulu setja sérstakar reglur um starfsemi sjóðsins.
 12. Að fara með umboð aðildarfélaganna gagnvart vinnumálastofnun og gæta hagsmuna atvinnulauss félagsfólks aðildarfélaga sambandsins.
 13.   Að starfrækja skrifstofu sem veitir aðildarfélögunum og félagsfólki þeirra aðstoð, fyrirgreiðslu og þjónustu.  Skrifstofan skal halda sem nánustum tengslum við aðildarfélögin.

2. kafli

Aðild

5.      grein

Sambandið getur veitt inngöngu þeim félögum launfólks sem uppfylla skilyrði 2. gr. enda séu lög þeirra í samræmi við lög sambandsins og brjóti ekki í bága við lög ASÍ.

Þó má ekki veita inngöngu í sambandið nema einu félagi í hverri sérgrein á hverju félagssvæði.  Stefnt skal að því að félagssvæði hvers aðildarfélags sé sem stærst og að um sameiginleg félög sé að ræða á hverju félagssvæði utan höfuðborgarsvæðisins, eftir því sem unnt er og hagkvæmt þykir.

Nú vill félag gerast aðili að sambandinu og getur þá sambandsstjórn veitt því inngöngu með sömu réttindum og þau félög hafa sem fyrir eru í sambandinu.  Gildir sú ákvörðun til næsta sambandsþings, en þar skal lagður fullnaðar úrskurður á aðildarbeiðnina.

Hvert aðildarfélag skal í lögum sínum hafa ákvæði um gagnkvæm vinnuréttindi félagsfólks annarra aðildarfélaga sambandsins á félagssvæði sínu, enda uppfylli viðkomandi þau skilyrði sem sett eru fyrir inngöngu í félagið, að öðru leyti en hvað búsetu snertir.

6.      grein

Beiðni hvers félags um aðild að sambandinu skal fylgja afrit af lögum félagsins og reglugerðum sjóða þess.  Ennfremur skal fylgja tilkynning um hverjir skipi stjórn þess og aðrar trúnaðarstöður ásamt skrá um félagsfólk með tilgreindu fullu nafni, heimilisfangi, fæðingardegi og ári hvers félagsmanns og félagsnúmeri hans.

7.      grein

Aðildarfélög sambandsins skulu gera með sér samkomulag hvernig með eigi að fara ef launafólk gæti flokkast með aðild að fleiri en einu félagi innan RSÍ.

Eigi má aðildarfélag innan sambandsins taka inn félaga, sem er skuldugur eða stendur á annan hátt í óbættum sökum við annað félag í sambandinu, eða hefur verið vikið úr sambandsfélagi nema til komi leyfi stjórnar þess félags, sem viðkomandi var áður í.

8.      grein

Aðild að félögum innan sambandsins geta átt nemar, í þeim greinum sem skilgreindar eru í 2. grein laga sambandsins, hvort sem þeir eru í starfsnámi á vinnumarkaði eða í skólum.

Aðildarfélög sambandsins skulu í lögum sínum setja ákvæði um réttindi og skyldur ungs félagsfólks samkvæmt þessari grein, m.a. um skráningu, félagsgjöld, gjaldfrelsi, aðild að trúnaðarráðum félaganna og gera samþykktir um starfsemi ungliða á vettvangi félagsins.

9.      grein

Hvert aðildarfélag hefur fullt frelsi um sín innri mál, þó svo að ekki brjóti í bága við lög þessi, löglegar samþykktir sambandsstjórnar eða sambandsþings.

Samningsrétt um kaup og kjör fer hvert félag um sig með fyrir hönd félagsmanna sinna, en getur með samþykki stjórnar og trúnaðarráðs, veitt miðstjórn eða samniganefnd, sem kjörin er sérstaklega, umboð til samninga fyrir félagsins hönd.

Þegar um heildarsamninga er að ræða sem snerta öll aðildarfélög sambandsins eða allt félagsfólk í sömu sérgrein, þar sem um fleiri sérgreinafélög er að ræða, skal miðstjórn eða sérstök samninganefnd, kjörin af sambandsstjórn, sambandsþingi eða fulltrúafundi, fara með samninga í umboði aðildarfélaganna.

Hvert aðildarfélag um sig verður þó að samþykkja slíka samninga nema um allsherjar atkvæðagreiðslu sé að ræða.  Þá ræður meirihluti atkvæða úrslitum um samþykki eða synjun slíkra samninga.

10.grein

Hvert aðildarfélag hefur rétt til að skjóta ágreiningi sem upp kemur í félaginu til úrskurðar sambandsstjórnar.  Áfrýja má úrskurði sambandsstjórnar til sambands­þings, en til þess tíma þegar þing kemur saman, er úrskurðurinn bindandi fyrir félagið.

11.grein

Hvert aðildarfélag skal halda aðalfund einu sinni á ári, á tímabilinu frá 1. febrúar til 31. maí.  Þar skulu lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir næstliðið ár svo og tekin til meðferðar önnur mál sem fyrir fundinum liggja.  Kjör stjórnar og annarra trúnaðarmanna skal fara fram a.m.k. annað hvert ár á þann hátt sem lög félagsins ákveða.

Hvert aðildarfélag skal árlega láta stjórn sambandsins í té skýrslu um starfsemi sína og fjárhag á þar til gerð eyðublöð, sem miðstjórn lætur gera.  Skýrslu skal fylgja skrá yfir félagsfólk miðað við 1. janúar ár hvert.

12.grein

Hafi aðildarfélag í sambandinu gert sig sekt um atferli, sem er sambandinu til tjóns, eða brotið í bága við lög RSÍ, að mati miðstjórnar eða sambandsstjórnar, skal boða til aukaþings, þar sem tekin verði ákvörðun um hvort víkja eigi félaginu úr sambandinu.

Hafi félagi verið vikið úr sambandinu, missir það þegar í stað öll réttindi sín í og fulltrúar þess missa þar með umboð til trúnaðarstarfa innan RSÍ.

13.grein

Aðildarfélögum RSÍ er óheimilt að láta breytingar á lögum sínum koma til framkvæmda, fyrr en miðstjórn sambandsins hefur staðfest þær.

14.grein

Úrsögn aðildarfélags úr sambandinu er því aðeins gild að hún hafi verið rædd og samþykkt með 2/3 atkvæða, á tveimur lögmætum fundum í félaginu með a.m.k. viku millibili, eða að ekki minni meirihluti fáist við allsherjaratkvæðagreiðslu í félaginu að undangenginni einni umræðu.

Í báðum tilkvikum skal auglýsa greinilega að tillaga um úrsögn liggi fyrir.

Atkvæðisrétt hefur allt fullgilt félagsfólk.

3. kafli

Kjaramál, vinnudeilur, samninganefndir og atkvæðagreiðslur

15.grein

Aðildarfélög sambandsins skulu kappkosta að hafa samstarf um samninga um kaup og kjör og aðgerðir í vinnudeilum.

Sé vinnudeila yfirvofandi milli aðildarfélags og atvinnurekenda eða samtaka atvinnurekenda, skal félagið þegar tilkynna það miðstjórn.  Fulltrúi miðstjórnar skal jafnan taka þátt í samningafundum til lausnar slíkum deilum.

Aðildarfélögum er skylt að tilkynna miðstjórn bréflega ákvörðun um uppsögn samninga, eða breytingar á töxtum sem félagið hefur sett.  Á sama hátt ber að tilkynna án tafar þegar félag ákveður að boða vinnustöðvun og að hverjum hún beinist.

Alla samninga sem einstök félög gera við atvinnurekendur skal senda miðstjórn í afriti.

Skylt er miðstjórn að veita aðildarfélögum alla aðstoð og fyrirgreiðslu, sem í hennar valdi stendur, í sambandi við samningagerð og til þess að leysa úr ágreiningi sem upp kann að koma um framkvæmd kaup- og kjarasamninga.

16.grein

Aðildarfélög öll eða hluti þeirra, eða samstæðir starfshópar fleiri en eins aðildarfélags, geta starfað saman á vettvangi sambandsins í samninganefndum um tiltekna kjarasamninga.  Framsal samningsumboðs stjórnar og trúnaðarráðs aðildarfélags til slíkra samninganefnda skal vera skriflegt.  Skipan og starfsemi sameiginlegra samninganefnda skal fara eftir reglum sem miðstjórn setur um starfsemi þeirra.  Reglurnar skal leggja fyrir stjórnir og trúnaðarráð til samþykktar áður en miðstjórn staðfestir þær.

17.grein

Sameiginlega samninga aðildarfélaga sambandsins fyrir hönd tiltekinna starfshópa skal afgreiða í sameiginlegri atkvæðagreiðslu viðkomandi starfshóps.  Atkvæðagreiðslan skal fara fram samkvæmt ákvæðum reglugerðar ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur, miðstjórn skal á grundvelli hennar setja reglur um verklag við rafrænar atkvæðagreiðslur.

Atkvæðagreiðslur um boðun vinnustöðvana tiltekinna starfshópa er heimilt að viðhafa með sama hætti, á grundvelli skriflegra umboða stjórna og trúnaðarráða viðkomandi aðildarfélaga.

4. kafli

Aðalstöðvar og dagleg stjórn

18.grein

Rafiðnaðarsamband Íslands hefur aðsetur og aðalstöðvar sínar í Reykjavík og er stjórnað af miðstjórn sem kosin er samkvæmt 35 grein.

5. kafli

Sambandsþing

19.grein

Þing sambandsins skal halda fjórða hvert ár á þeim stað og tíma sem sambands­þing, sambandsstjórn eða miðstjórn ákveður.

Til þings skal boðað með þriggja mánaða fyrirvara með bréfi til allra aðildarfélaga og skal þar tilgreina helstu málaflokka, sem teknir verða til umfjöllunar á þinginu.

20.grein

Sambandsþing hefur æðsta vald í málefnum sambandsins.  Það er löglegt ef löglega er til þess boðað.  Þingfundur er lögmætur ef fullur helmingur þingfulltrúa er á fundi.

21.grein

Sambandsþing samþykkir fundarsköp og skal fundum þess stjórnað samkvæmt þeim.

22.grein

Á sambandsþingi skulu tekin fyrir þau mál sem sambandsstjórn, miðstjórn, eða einstök aðildarfélög óska að leggja fyrir það.

Á reglulegu þingi skal ávalt taka fyrir eftirtalin mál til meðferðar og afgreiðslu:

 1. Skýrslu miðstjórnar.
 2. Reikninga sambandsins.
 3. Ákvörðun skattgreiðslna aðildarfélaga til sambandsins.
 4. Kosning sambandsstjórnar og miðstjórnar.
 5. Kosning skoðunarmanna.

Miðstjórn gerir tillögu að dagskrá sambandsþings og skal hún borin upp til samþykktar að loknu kjöri þingforseta, þingritara og afgreiðslu kjörbréfa.

23.grein

Álit og ályktanir í stórum málum, sem sambandsstjórn eða miðstjórn ætla að leggja fyrir sambandsþing, skal senda aðildarfélögum eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir sambandsþing, nema sérstakar ástæður hamli.

Mál þau og tillögur, sem einstök félög óska eftir að tekin verði fyrir á þingi, skal senda miðstjórn einum mánuði fyrir sambandsþing.  Skal miðstjórn leggja þau mál fyrir þingið ásamt umsögn sinni.

Allar tillögur, sem miðstjórn leggur fyrir þingið skal senda þingfulltrúum með 14 daga fyrirvara.

24.grein

Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti, ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.

Miðstjórn eða minnst 10 þingfulltrúar geta krafist allsherjaratkvæðagreiðslu um mál, sem miklu þykja skipta.  Fer hver fulltrúi þá með atkvæði í samræmi við þá tölu félagsmanna, sem hann er fulltrúi fyrir.

Hver atkvæðaseðill skal hafa talnagildið 5 og skal félagamannatölu á bak við hvern fulltrúa deilt með þeirri tölu og fái þá fulltrúi jafn marga atkvæðaseðla og útkoman segir til um, en fyrir brot úr 5, sem er stærra en 2,5 fær fulltrúi einn atkvæðaseðil.

25.grein

Kjörgengi á sambandsþing og í aðrar trúnaðarstöður Rafiðnaðarsambands Íslands hefur allt félagsfólk í aðildarfélögum þess.

6. kafli

Aukaþing

26.grein

Aukaþing getur sambandsstjórn eða miðstjórn kvatt saman, þegar mjög mikilvæg og óvænt mál ber að höndum.

Skylt er miðstjórn að kalla saman aukaþing, ef meirihluti aðildarfélaga sambandsins, með a.m.k. 1/5 hluta af heildarfélagsmannatölu RSÍ krefjast þess skriflega og greini það eða þau málefni, sem leggja á fyrir þingið.  Skal þingið kvatt saman með eins skömmum fyrirvara og aðstæður frekast leyfa.

Aukaþing getur aðeins fjallað um þau málefni, sem voru tilefni þess að það var boðað, nema að þingfundur samþykki annað með 2/3 greiddra atkvæða.

27.grein

Fulltrúar á aukaþing eru þeir sömu og kosnir voru til síðasta reglulegs sambandsþings.

7. kafli

Trúnaðarmannaráðstefna

28.grein

Miðstjórn skal einu sinni á ári boða til ráðstefnu trúnaðarmanna sambandsins.  Rétt til setu á trúnaðarmannaráðstefnu eiga miðstjórn, allir skipaðir trúnaðarmenn aðildarfélaga RSÍ á vinnustöðum og fulltrúar í samninganefndum sem ekki eru í miðstjórn eða skipaðir trúnaðarmenn.

29.grein

Hlutverk trúnaðarmannaráðstefnu skal vera stefnumótun sambandsins í kjara­málum og öðrum mikilsverðum málum, sem aðkallandi kunna að vera að mati sambandsstjórnar og miðstjórnar sambandsins.

Á trúnaðarmannaráðstefnu skal gera grein fyrir starfsemi og fjárhag sambandsins.

8. kafli

Fulltrúakjör

30.grein

Hverju félagi er skylt að láta fara fram kosningu fulltrúa á sambandsþing úr hópi félagsmanna sinna, á þeim tíma sem miðstjórn ákveður.  Hvert aðildarfélag kýs tvo fulltrúa hið fæsta.  Kjósa skal til viðbótar fyrir fyrstu 180 félaga, fulltrúa fyrir hverja 30 félaga, eða brot af því ef það nemur 16 eða fleiri.  Fyrir fjölda félagsfólk umfram 180 skal kjósa einn fyrir hverja 60 eða brot af því ef það nemur 31 eða fleiri.

Kjósa skal einn varafulltrúa fyrir hverja tvo aðalfulltrúa.  Kosningarétt og kjörgengi hefur allt fullgilt félagsfólk þegar kosning fer fram.

Fjöldi fulltrúa hvers félags á sambandsþing skal grundvallast á fjölda reiknaðra heilsársfélagsfólks.

Félag sem gengur í sambandið sama ár og þing er háð, miði fulltrúafjölda sinn við þá tölu félagsfólks sem tilgreind er í aðildarbeiðninni.

Félög, sem ekki starfa á tímabili milli þinga, ekki hafa sent skýrslu eða hafa vanrækt skattgreiðslur, hafa ekki rétt á að senda fulltrúa á sambandsþing.

Miðstjórn og sambandsþing ákveða setu fulltrúa á þinginu án atkvæðisréttar.

31.grein

Kosning fulltrúa og varafulltrúa á þing sambandsins skal fara fram á félagsfundi eða með allsherjaratkvæðagreiðslu.  Fari kosning fram á fundi skal hann boðaður með a.m.k. tveggja sólarhringa fyrirvara og þess getið í fundarboði að kosning eigi að fara fram.

Sé viðhöfð allsherjaratkvæðagreiðsla um kosningar eða málefni í aðildarfélagi sambandsins skipar miðstjórn sambandsins kjörstjórn þriggja manna, tvo eftir tilnefningu hlutaðeigandi félags og einn án tilnefningar og er hann formaður kjörstjórnar.  Um framkvæmd atkvæðagreiðslu gilda, að öðru leyti ákvæði laga viðkomandi félags eða reglugerðar ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslu.

32.grein

Kjörtímabil fulltrúa er tímabilið milli reglulegra sambandsþinga og má félag ekki kjósa oftar en einu sinni á kjörtímabilinu nema kjörinn fulltrúi falli frá eða missi kjörgengisskilyrði og varafulltrúi sé forfallaður.  Félagsstjórn er skylt að tilkynna slíkt miðstjórn sem þá fyrirskipar aukakosningar í félaginu.

33.grein

Ekki er leyfilegt að hefja kosningu fulltrúa á sambandsþing fyrr en miðstjórn hefur heimilað kosningu.

Kosningar skal ákveða með svo löngum fyrirvara að þeim verði allstaðar lokið a.m.k. fjórum vikum fyrir sambandsþing, nema sérstök undanþága miðstjórnar komi til.

Miðstjórn skal tilkynna félögunum bréflega hvenær hefja megi kosningu og hvenær henni lýkur.

34.grein

Kjörbréf fulltrúa skulu send skrifstofu RSÍ í síðasta lagi 14 dögum fyrir þing og skal þá formaður sambandsins skipa þriggja manna kjörbréfanefnd.  Kjörbréfanefnd leggur álit sitt fram svo fljótt sem verða má eftir að sambandsþing hefur verið sett.

9. kafli

Sambandsstjórn

35.grein

Sambandsstjórn sambandsins skal skipuð miðstjórnarfólki, varafulltrúum í miðstjórn og 18 fulltrúum sem kosnir eru sérstaklega. Kjósa skal 16 varafulltrúa í sambandsstjórn. Við val sambandsstjórnar skal stefnt að því að allar starfsgreinar innan sambandsins eigi þar jafnan fulltrúa.

Kjörtímabil sambandsstjórnarfólks er til næsta reglulegs sambandsþings.

Í sambandsstjórn eiga sæti tveir fulltrúar ungliða.  Fulltrúa ungliða í sambandsstjórn skal kjósa á sameiginlegum fundi framkvæmdastjórnar og trúnaðarráðs ungliða til eins árs í senn.  Kjósa skal tvo til vara.

36.grein

Sambandsstjórn hefur æðsta vald í öllum málefnum sambandsins milli þinga, og ber hverju aðildarfélagi og hverjum þeim sem trúnaðarstarfi gegnir fyrir sambandið, að hlíta fyrirmælum hennar og úrskurðum að því er málefni sambandsins varðar.

Rétt er þó félögum og einstaklingum að skjóta ágreiningsmálum til sambandsþings, sem fellir fullnaðarúrskurð um málið.

37.grein

Sambandsstjórn skal kvödd saman þegar miðstjórn ákveður, þó eigi sjaldnar en einu sinni ár hvert, þau ár sem reglulegt sambandsþing er ekki haldið.

Einnig getur meirihluti sambandsstjórnarfólks óskað eftir sambandsstjórnarfundi og er þá skylt að kveða sambandsstjórn saman.

Til sambandsstjórnarfundar skal boðað með a.m.k. 14 daga fyrirvara nema sérstakar aðstæður knýji á um annað.

Fundir sambandsstjórnar eru lögmætir ef meirihluti stjórnarfólks er á fundi.

10. kafli

Miðstjórn

38.grein

Miðstjórn sambandsins skal skipuð 21 fulltrúa, formanni, varaformanni, ritara og gjaldkera, sem skulu kosnir sérstaklega og 17 meðstjónendum. Kjósa skal 14 varafulltrúa í miðstjórn. Við val miðstjórnar skal þess gætt að öll sambandsfélögin eigi þar jafnan fulltrúa.

Miðstjórn skal setja sér starfsreglur. Í starfsreglum skal kveðið á um kjörgengi starfsfólks.

Komi framboð úr þingsal til meðstjórnarfulltrúa eða varafulltrúa í miðstjórn skal fyrst kjósa milli fulltrúa þess félags sem viðkomandi félagsmaður er félagi í.  Að því loknu skal kjósa miðstjórnarfulltrúa eða varafulltrúa í miðstjórn í heild, hvorn hóp fyrir sig.

Kjörtímabil miðstjórnarfulltrúa er til næsta reglulegs sambandsþings.  Samþykki stjórn og trúnaðarráð sambandsfélags ósk um að nýr fulltrúi félagsins taki sæti í miðstjórn, tekur slík breyting gildi að undangenginni samþykkt sambandsstjórnar.

Í miðstjórn á sæti einn fulltrúi ungliða.  Fulltrúa ungliða í miðstjórn og annan til vara skal kjósa á sameiginlegum fundi framkvæmdastjórnar og trúnaðarráðs ungliða til eins árs í senn.

39.grein

Miðstjórn fer með framkvæmdastjórn sambandsins milli þinga.

Miðstjórn gerir starfs- og fjárhagsáætlanir fyrir næsta starfsár.

Miðstjórn kýs starfsnefndir eins og henni þykir henta.  Starfsnefndir starfa á ábyrgð miðstjórnar og skulu leggja mál fyrir hana til ákvörðunar.

Miðstjórn skal skipa launanefnd, siðanefnd og orlofsnefnd á fyrsta fundi miðstjórnar eftir þing. Þessar nefndir skulu setja sér starfsreglur sem miðstjórn staðfestir. Nefndarfólk skal ekki eiga sæti í framkvæmdastjórn.

Miðstjórn skipar trúnaðarfólk á þeim stöðum á landinu þar sem ekki eru starfandi sérstök aðildarfélög sambandsins.

40.grein

Miðstjórn sambandsins heldur fundi þegar formaður kveður hana saman eða meirihluti stjórnar æskir þess.

Miðstjórnarfundi skal boða með a.m.k. tveggja daga fyrirvara, nema sérstakar aðstæður knýji á um annað.

Fundir miðstjórnar eru lögmætir ef meirihluti stjórnarfólks er á fundi.

11. kafli

Framkvæmdastjórn

41.grein

Framkvæmdastjórn sambandsins skal skipuð formönnum aðildarfélaga og/eða formanni, varaformanni, ritara og gjaldkera.

Framkvæmdastjórn skal leitast við að ræða sig niður á lausnir í öllum málum.

Framkvæmdastjórn skal ráða allt starfsfólk sambandsins og fela launanefnd að ákvarða laun þeirra. Launanefnd skal gera tillögur að launum starfsfólks sambandsins og leggja fyrir framkvæmdarstjórn til staðfestingar.

Framkvæmdastjórn skal vinna að þeim málum sem henni eru falin af miðstjórn og að undirbúningi mála fyrir miðstjórn.

12. kafli

Framkvæmdastjórn og trúnaðarráð ungliða og heldri félaga

42.grein

Miðstjórn skipar í framkvæmdastjórn og trúnaðarráð ungliða innan sambandsins til eins árs í senn.  Skipun skal fara fram á fundi miðstjórnar í október.

Framkvæmdastjórn ungliða skal skipuð fimm fulltrúum tilnefndum af aðildarfélögum sambandsins.  Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara og meðstjórnenda.

Með framkvæmdastjórn ungliða skal starfa trúnaðarráð skipað fimm fulltrúum tilnefndum af aðildarfélögum sambandsins.

Framkvæmdastjórn og trúnaðarráð ungliða skal starfa á vettvangi RSÍ undir heitinu RSÍ-UNG.

Framkvæmdastjórn ungliða skal starfa með miðstjórn sambandsins að þeim málefnum sem þessir aðilar ákveða að vinna að.

Miðstjórn sambandsins skal skipuleggja með framkvæmdastjórn ungliða aðkomu að starfi ungliða á vettvangi ASÍ.

43.grein

Miðstjórn er heimilt að skipa í framkvæmdastjórn og trúnaðarráð heldri félaga innan sambandsins til eins árs í senn.

13. kafli

Önnur trúnaðarstörf

44.grein

Miðstjórn er heimilt að skipa í framkvæmdastjórn og trúnaðarráð heldri félaga innan sambandsins til eins árs í senn.

Sambandsþing kýs skoðunarmenn reikninga sambandsins, tvo aðalmenn og einn til vara.  Kjörtímabil skoðunarmanna er til næsta reglulegs þings sambandsins.

45.grein

Aðildarfélögin skulu hafa samstarf um kjör í Fulltrúaráð launafólks Birtu lífeyrissjóðs.
Ákveði aðildarfélög sambandsins að kjósa sameiginlega fulltrúa sambandsins í Fulltrúaráð launafólks Birtu lífeyrissjóðs skal viðhafa allsherjaratkvæða-greiðslu, sem skal fara fram samkvæmt lögum og reglugerðum ASÍ.

46.grein

Miðstjórn tilnefnir fulltrúa sambandsins til kjörs í miðstjórn Alþýðusambands Íslands.

47.grein

Ákveði aðildarfélög sambandsins að kjósa sameiginlega fulltrúa sambandsins á þing Alþýðusambands Íslands skal viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu, sem skal fara fram samkvæmt lögum og reglugerðum ASÍ.

14. kafli

Fjármál

48.grein

Hvert aðildarfélag greiðir skatt til sambandsins og sjóða þess.  Skatturinn skal vera hlutfall af innheimtum félagsgjöldum.

49.grein

Sambandsþing ákveður skiptingu félagsgjalda milli félagssjóða og einstakra sjóða sambandsins.  Ákvörðun þings um skiptingu félagsgjalda milli sjóða sambandsins fyrir þrjú síðari ár kjörtímabils, getur sambandsstjórn breytt til hækkunar eða lækkunar.  Slík ákvörðun má þó ekki breyta því hlutfalli félagsgjalda, sem sitja á eftir í félagssjóði.  Tillaga um breytingu á skiptingu félagsgjalda samkvæmt þessari grein telst samþykkt ef hún hlýtur 2/3 atkvæða á lögmætum fundi.

50.grein

Sambandssjóður greiðir kostnað við rekstur sambandsins, sambandsþing og sambandsstjórn svo og annan óhjákvæmilegan kostnað sem leiðir af starfsemi sambandsins.  Sameiginlegum rekstrarkostnaði sambandsins, sjóða þess og aðildarfélaganna skal skipt milli þeirra eftir tekjum og umfangi í rekstri.

Taka skal saman reglur um fjármál og rekstur sambandsins og sjóða þess í Handbók fjármála.  Gjaldkeri miðstjórnar stýrir gerð handbókarinnar.  Miðstjórn skal staðfesta útgáfu Handbókar fjármála í upphafi kjörtímabils og síðan hverri breytingu sem á henni er gerð.

Miðstjórn skiptir ferða- og gistikostnaði þingfulltrúa niður á aðildarfélögin þannig, að hvert félag greiði kostnað í hlutfalli við fulltrúafjölda sinn á hverju þingi.

51.grein

Reikningsár sambandsins er almanaksárið og skulu reikningar hvers árs lagðir fyrir sambandsstjórn, endurskoðaðir, en hún leggur þá síðan fyrir reglulegt sambandsþing til fullnaðar afgreiðslu.

Sambandsstjórn ber ábyrgð á eigum sambandsins og sér um ávöxtun sjóða þess.

15. kafli

Lagabreytingar

52.grein

Lögum þessum má breyta á reglulegu sambandsþingi og skulu að jafnaði vera tvær umræður um lagabreytingarnar.  Engin lagabreyting telst samþykkt nema hún hljóti 2/3 atkvæða á lögmætum þingfundi.

Tillögur til breytinga á lögum sambandsins, sem aðrir bera fram en sambandsstjórn eða miðstjórn, skulu sendar miðstjórn eigi síðar en fjórum vikum fyrir sambandsþing og skal miðstjórn leggja þær fyrir sambandsþing ásamt umsögn sinni.

Allar tillögur, sem fram koma um breytingar á lögum sambandsins skal miðstjórn senda þingfulltrúum 14 dögum fyrir þing.

 

Þannig samþykkt á 20. þingi Rafiðnaðarsambands Íslands 4.-6. maí 2023.