Vinnustaðaeftirlit Fagfélaganna og Eflingar heimsótti 87 fyrirtæki í júnímánuði og skráði upplýsingar í gagnagrunn um 234 einstaklinga. Þessir einstaklingar báru 38 starfsheiti, voru af 21 þjóðerni og tilheyrðu 22 stéttarfélögum. Flestir voru Íslendingar, Pólverjar og Rúmenar en algengustu starfsheitin voru verkamaður eða húsasmiður.
Eftirlitið hefur hitt og skráð yfir eitt þúsund manns sem starfa á íslenskum vinnumarkaði frá því í september í fyrra.
Hlutverk vinnustaðaeftirlits er að ganga úr skugga um að aðstæður á vinnustöðum séu í samræmi við lög og reglur og koma þannig í veg fyrir brotastarfsemi á félagssvæðum stéttarfélaganna. Þetta er gert með heimsóknum á vinnustaði, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Áhersla hefur í vetur verið lögð á að fylgjast með fyrirtækjum í byggingaiðnaði, matvælaiðnaði og ferðaþjónustu. Í heimsóknunum er meðal annars kannað hvort starfsfólk hafi réttindi til að sinna þeim störfum sem því hafa verið falin auk þess sem starfsfólk er frætt um réttindi sín og skyldur.
Hér fyrir neðan má sjá lykiltölur júnímánuði en Adam Kári Helgason og Mirabela Blaga eru fulltrúar Fagfélganna í samstarfinu við Eflingu.