Níu ungir rafvirkjanemar öttu kappi í Laugardalshöll í síðustu viku þegar Íslandsmót iðn- og verkgreina fór fram, dagana 13.–15. mars. Keppnin var þriggja daga löng og reyndi á fjölbreytta þætti í rafvirkjun, að sögn rafvirkjans og rafiðnfræðingsins Sigurðar Freys Kristinssonar, umsjónarmanns keppninnar.

Óliver Pálmi Ingvarsson, frá VMA, varð hlutskarpastur í rafvirkjun.
„Ég hannaði verkefnið sérstaklega fyrir Íslandsmótið 2025,“ segir Sigurður, sem fer yfir keppnisfyrirkomulagið. „Á fyrsta degi voru þátttakendur að vinna með húsarafmagn – setja upp greinitöflu, tengla, rofa og ljós með tilheyrandi búnaði. Á öðrum degi snerist keppnin um iðnaðarrafmagn. Þá þurftu þau að setja upp og víra litla stýritöflu, tengja ljós, hnappa, skyjara og tengil fyrir mótor. Síðasti dagurinn var svo helgaður forritun – þar þurftu keppendur að vinna eftir virknilýsingu til að kveikja ljós og ræsa mótor í samræmi við stýringu.“
Keppnin var bæði fjölmenn og fjölbreytt. Alls tóku níu keppendur þátt, fimm drengir og fjórar stúlkur. Aðspurður um framhaldið segir Sigurður að góð frammistaða í keppninni geti tryggt þátttökurétt í úrtökum fyrir EuroSkills. „Við horfum bæði til árangurs í keppninni sjálfri og einnig árangurs úr sveinsprófi. Þetta gefur heildarmynd af hæfni þeirra.“
Þó að verkefnin séu krefjandi segir Sigurður Freyr þau jafnframt skemmtileg. „Þau þurfa að halda vel á spöðunum til að ná að klára á tíma. Þetta er mikil reynsla fyrir þau og gefur þeim dýrmætt veganesti,“ segir hann.

Fjórar stúlkur og fimm drengir öttu kappi að þessu sinni.
Keppnin fór fram í opnu rými í Laugardalshöll, þar sem margt var um manninn. Sigurður Freyr segir það setja ákveðna pressu á keppendur að leysa verkefnin undir þessum kringumstæðum. Ekki síst reyni verkefnið á tímastjórnun. „Þau þurfa að halda góðri einbeitingu. Þetta er góð æfing í að vinna undir álagi – sem kemur sér vel því vinnuumhverfi rafvirkja getur oft verið hávaðasamt og krefjandi.“
Svo fór að Óliver Pálmi Ingvarsson, frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, vann keppnina í rafvirkjun. Í öðru sæti varð Guðni Hlynur Granz frá FB en í þriðja sæti hafnaði Aron Kristinsson frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja. RSÍ óskar þeim til hamingju með árangurinn.