Kollegarnir Kristján Þórður Snæbjarnarson og Þórður Snær Júlíusson, frambjóðendur í þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar, hvor í sínu í Reykjavíkurkjördæminu, heimsóttu Fagfélögin í hádeginu í dag. Þeir kynntu starfsfólki áherslur og stefnumál flokksins fyrir komandi Alþingiskosningar.
Kristján Þórður, er formaður RSÍ og Fagfélaganna, en er í leyfi vegna framboðsins. Hann óskaði eftir að fá að halda stuttan kynningarfund og við þeirri beiðni var orðið. Vel var mætt á fundinn, sem fór fram á kaffistofu starfsmanna.
Á fundinum tókust frambjóðendurnir á við fjölmargar krefjandi spurningar um efnahagsmál, húsnæðismál, auðlindamál, orkumál og önnur brýn atriði sem brenna á kjósendum um land allt.
Alþingiskosningar fara fram 30. nóvember. Af könnunum má ráða að fylgið er á mikilli hreyfingu og óvíst hvað kemur upp úr kjörkössunum.