„Þetta hefur þá þýðingu að við erum komin á radarinn. Okkar framlag til menntamála er farið að vekja eftirtekt,“ segir Þór Pálsson, skólameistari Rafmenntar. Rafmennt hlaut á dögunum tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna 2024, fyrir þróun sveigjanlegs og einstaklingsmiðaðs náms í raf- og tæknigreinum.

Stjórn, starfsmenn og aðrir velunnarar skólans hittust af þessu tilefni eftir vinnu á þriðjudag, þar sem farið var yfir árangurinn sem náðst hefur. Verðlaunin verða afhent á Bessastöðum í kvöld, 6. nóvember. Sýnt verður frá verðlaunaafhendingunni á RÚV.

Rafmennt er einkarekin stofnun í eigu Rafiðnaðarsamband Íslands og Samtaka rafverktaka og hefur heimild til að bjóða nám í rafvirkjun, rafveituvirkjun, rafeindavirkjun, hljóðtækni og kvikmyndatækni. Rafmennt annast fjölbreytt verkefni á sviði menntunarmála fyrir fagfólk í raf- og tækniiðnaði.

Á vefnum skólaþróun.is er rifjað upp að tvö ár eru liðin síðan Rafmennt fékk formlega heimild til að reka framhaldsskóla. Að baki bjó vaxandi aðsókn að iðnnámi en framhaldsskólarnir hafa ekki haft getu til að mæta þessari aukningu sem skyldi. Mörgum hefur þurft að vísa frá. „Við mótun námsins var sérstaklega horft til eldri nemenda sem hafa tafist eða hætt í námi og starfa sem ófaglærðir á vinnumarkaði. Hér má nefna nemendur sem af einhverjum orsökum hafa ekki lokið námi á hefðbundnum tíma og eiga ekki afturkvæmt í skóla þar sem nemendur úr grunnskóla ganga fyrir,“ segir á vefnum.

Vilja áheyrn stjórnvalda

Þór segist binda vonir við að tilnefningin auki möguleika skólans á að fá áheyrn hjá stjórnvöldum. „Vonandi mun þetta lyfta okkur þangað sem við getum farið að ræða við ráðuneytið um lausnir fyrir eldri nemendur.“ útskýrir Þór.

Yngri nemendur eru í forgangi þegar farið er yfir umsóknir í framhaldsskólana. Þór segir auðvitað frábært að ungt fólk sæki í þetta nám en það þurfi jafnframt að koma til móts við fólk sem starfar í faginu án menntunar. Yngstu nemendurnir séu teknir inn en eftir standi hópur af fólki, sem margt er á milli tvítugs og fimmtugs, sem verður út undan. „Þetta eru oft reynslumiklir einstaklingar sem starfa í iðngreininni án þess að hafa til þess réttindi. Margir hafa jafnvel unnið mjög lengi í faginu.“

Þór er afar ánægður með tilnefninguna. „Þetta er mikill heiður og ég vona að við getum notað þetta til að knýja á um umbætur og frekara samtal við ráðuneytið. Við erum til í að vera hluti af lausninni – en þá þurfa stjórnvöld að opna budduna.“

Stjórnvöld hafa ekki leyst vandamálið

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að ný ríkisstjórn setji menntamálin á oddinn svarar Þór því hreinskilningslega að það sé ekki. Hann var, þegar RSÍ ræddi við hann, nýlega kominn af framboðsfundi sem haldinn var í hádeginu á þriðjudag.

„Þarna sátu í pallborði formenn þriggja flokka sem hafa stýrt ráðuneyti menntamála frá því ég byrjaði að skipta mér af menntamálum. Einn þeirra var ráðherra menntamála; Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Enginn þessara flokka komst neitt áfram með þetta – að auka aðgengi að iðnnámi til að mæta þeirri eftirspurn sem skapast hefur,“ segir Þór.

Hann bætir við að Framsóknarmaðurinn Ásmundur Einar Daðason hafi fullyrt að fjármagn til skólanna á hvern einstakling í framhaldsskólum hafi verið stóraukið. Sú meinta aukning byggi hins vegar á fækkun nemenda vegna styttingar framhaldsskólanáms. „Nemendum fækkaði um fjögur þúsund þegar framhaldsskólinn var styttur. Það hvorki stækkaði skólanna né þýddi að fleiri nemendur yrðu teknir inn í verknámið,“ segir Þór ákveðinn.

Andri Reyr Haraldsson.

Ólík staða samanborið við Norðurlöndin

Eins og fyrr segir hittust aðstandendur og velunnarar Rafmenntar eftir vinnu í gær, til að gleðjast yfir árangrinum. Þór flutti ræðu auk þess sem í pontu stigu Hjörleifur Stefánsson stjórnarformaður Rafmenntar og Andri Reyr Haraldsson, varaformaður RSÍ og varamaður í stjórn skólans. Myndbönd voru auk þess spiluð þar sem nemendur við skólann lýstu ánægju sinni með námið og þá aðstöðu sem Rafmennt hefur upp á að bjóða.

Andri sagði meðal annars í ávarpi sínu að það væri mikið gæfuspor fyrir Rafmennt að hljóta þessa tilnefningu. Hann sagði jákvætt að kröfurnar væru að aukast um að komast inn í skólana. Hins vegar sé úti í samfélaginu hópur af fólki sem er að vinna í rafiðnaði eða hefur áhuga á því án þess að komast að. Andri sagði að þegar hann lýsti þessari stöðu fyrir kollegum á Norðurlöndunum væru menn forviða. Þar snýst baráttan um að laða fólk að iðnnámi. „Þeir trúa okkur varla – að við séum í þeirri stöðu að hafna áhugasömu fólki. Þessi tilnefning er varða á þeirri leið okkar að fá áheyrn hjá stjórnvöldum til að leysa þessa stöðu.“