Verkafólk á rétt á því að stofna verkalýðsfélög og kjósa sér fulltrúa. Það eru mannréttindi sem byggja á alþjóðalögum, sem varin eru í 87. samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem fjallar um félagafrelsi.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á alþjóðlegri ráðstefnu Global Power Trade Union (GPTU) í Stokkhólmi þann 18. september. Þar var íhlutun ástralskra stjórnvalda í málefnum stéttarfélagsins CFMEU fordæmd. Í félaginu er meðal annars starfsfólk sem vinnur byggingavinnu.

Ríkisstjórn Ástralíu hefur sett nýja stjórn yfir stéttarfélagið. Því er haldið fram að kjarasamningar stéttarfélagsins hafi leitt til allt að 33% hækkun byggingakostnaðar auk þess sem stéttarfélagið sæti rannsókn yfirvalda vegna meintra tengsla við skipulagða glæpastarfsemi. Þar eru meðal annars ásakanir um mútuþægni starfsmanna félagsins í tengslum við byggingaframkvæmdir. Formaður félagsins vék úr starfi áður en þessar ásakanir voru gerðar opinberar. Hann hefur hafnað ásökununum.

CFMEU, sem er eitt stærsta stéttarfélagið í Ástralíu, hefur sagt tölurnar um húsnæðiskostnaðinn helbera lygi. Lært fagfólk úr röðum félagsins geri verktökum þvert á móti kleift að ljúka framkvæmdum á tíma og innan fjárhagsramma. Rannsóknir óháðra aðila hafa sýnt að um 10% af húsnæðisverði í Ástralíu megi rekja til launakostnaðar.

Í ályktun GPTU kemur fram að stéttarfélögin á ráðstefnunni séu andvíg öllum tengslum stéttarfélaga við ólöglega starfsemi. Verkafólk eigi rétt á því að vera í stéttarfélagi sem sé laust við glæpi og spillingu. Á það er hins vegar bent að ekki hafi verið færðar sönnur á þær ásakanir sem settar hafi verið fram í fjölmiðlum. Fólk sé saklaust uns sekt sé sönnuð fyrir dómi. Lögregla eigi að annast rannsóknir vegna meintrar glæpastarfsemi.

Í ályktuninni segir að með yfirtöku ástralskra stjórnvalda hafi þetta grundvallarprinsipp – að fólk sé saklaust uns sekt sé sönnuð – verið virt að vettugi. Ráðstefnan sé mjög uggandi yfir inngripi ástralskra stjórnvalda, sem setji vinnu og starfsöryggi þúsunda heiðarlegra starfsmanna í uppnám.

Loks er í ályktuninni skorað á áströlsk stjórnvöld að eftirláta CFMEU stjórn félagsins á nýjan leik. GPTU standi heilshugar að baki CFMEU og félagsfólki þess.

Mynd/

Starfsnám í uppnámi í Írlandi

GPTU samþykkti einnig ályktun í Stokkhólmi sem lýtur að írskum stjórnvöldum. Í ályktuninni er mikilvægi starfsnáms áréttað. Þar leggi ungt fólk grunn að þekkingu sinni og starfsferli, þeim sjálfum og samfélaginu til heilla. Vísað er í að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 208 frá 2023 sem kveður á um að stéttarfélög séu viðurkenndur vettvangur fyrir iðnnema og að allar breytingar á starfsnámi skuli gerðar í samráði við stéttarfélögin.

Írsk stjórnvöld áforma breytingar á námssamningum. Í þeim breytingum felst að starfsnámið verði ekki lengur í umsjá stéttarfélagsins heldur verði um að ræða einhverja samvinnu milli aðila á vinnumarkaði, skóla og stéttarfélaga. Tilgangurinn er að reyna að fjölga iðnnemum og auka afkastagetuna en skortur er á iðnaðarfólki í landinu.

Í ályktuninni kemur fram að sams konar breytingar hafi ekki reynst vel í öðrum löndum og að þessi breytta nálgun sé ávísun á undirboð og að brotið verði á réttindum ungs fólks. Mikilvægt sé að viðhalda gæðum og fagmennsku starfsnáms.