Miðstjórn RSÍ hefur á fundi samþykkt þrjár ályktanir vegna efnahagsmála og stöðu heimilanna. Í fyrstu ályktuninni er kallað eftir aðgerðum vegna hárra vaxta og verðbólgu, í annarri ályktuninni er kallað eftir því að ríkisstjórnin endurskoði þá ákvörðun að framlengja ekki heimild til ráðstöfunar séreignasparnaðar inn á húsnæðislán. Þriðja ályktunin er vegna boðaðs afnáms jöfnunargjalds sem ríkissjóður hefur greitt til lífeyrissjóðanna.

Ályktanir miðstjórnar RSÍ

Okurvextir Íslands

Á nýliðnum vikum hafa margir hinna íslensku banka hækkað verðtryggða vexti til neytenda. Vaxtamunur hefur sjaldan verið jafn mikill og raunvextir eru orðnir með þeim hæstu sem sést hafa. Verðtryggðir vextir eru að nálgast 5% sem þýðir einfaldlega að raunvextir eru tæp 5%. Þetta eru ekkert annað en okurvextir til almennings. 

Á sama tíma er þess beðið að verðbólga gangi niður enda hníga að því öll rök. Með háum stýrivöxtum og hækkandi vöxtum útlána er áfram kynt undir þá verðbólgu sem til staðar er. Við blasir að við þessar aðstæður færast eignir frá almenningi til fjármagnseigenda og það með miklu offorsi. Þessi staða er með öllu óásættanleg. Miðstjórn RSÍ kallar eftir aðgerðum strax. Lækkun stýrivaxta er meginforsenda þess að verðbólga gangi hratt niður. Ísland þarf ekki að búa við okurvexti áfram! 

Séreignarsparnaður á fasteignalán

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar kemur fram að ekki verði boðið upp á ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán á árinu 2025. Ljóst er að þessi heimild hefur nýst skuldsettum heimilum til að draga úr skuldsetningu, með því að ráðstafa séreignarsparnaði inn á höfuðstól íbúðalána, og þar með lækkað greiðslubyrði fasteignalána og bætt eignastöðu almennings hægt en örugglega. Þessi ráðstöfun hefur verið skattfrjáls. Ákvæðið hefur því haft jákvæð áhrif á stöðu launafólks. Miðstjórn RSÍ kallar eftir endurskoðun á þessu ákvæði þannig að það nýtist venjulegu launafólki áfram.

Jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar kemur fram að afnema eigi jöfnunargjald sem ríkissjóður hefur greitt til lífeyrissjóða til jöfnunar örorkubyrðar sjóðanna. Þessi breyting mun hafa verulega neikvæðar afleiðingar fyrir launafólk á almennum vinnumarkaði og bitna einna harðast á sjóðum verkafólks, sem bera almennt þyngstar byrðar vegna örorku. Miðstjórn RSÍ mótmælir þessum áformum harðlega og krefst þess að ríkisstjórn Íslands falli frá þessum áformum enda mun þessi breyting að öðru óbreyttu ekki bara þyngja örorkubyrði lífeyrissjóða launafólks heldur lækka ellilífeyri og réttindaávinnslu þessara sjóða umtalsvert. Augljóst er að þessir hópar; öryrkjar og ellilífeyrisþegar, eru ekki aflögufærir. Þetta eru ekki breiðu bökin sem ríkið þarf að sækja enn meiri fjármuni til.