Hafliðahús, nýtt orlofshús Rafiðnaðarsambands Íslands í Stykkishólmi, var vígt á dögunum. Fyrstu gestirnir dvelja nú í húsinu.
Um er að ræða glænýtt og reisulegt hús, byggt í gömlum stíl, í hjarta Stykkishólms. Anna Melsteð, formaður orlofsnefndar RSÍ, segir að félagið hafi áður leigt hús í Stykkishólmi. Þegar það hús var tekið til annarra nota hafi hafist leit að nýju húsi. Leitin gekk hægt svo ákveðið var að að byggja nýtt hús í Hólminum.
Hafliði Sívertsen, fyrrverandi formaður orlofsnefndar og formaður Félags tæknifólks, leiddi þessa vinnu en varð bráðkvaddur þann 30. desember 2022. Miðstjórn ákvað að nefna húsið í höfuðið á Hafliða. Húsið heitir fyrir vikið Hafliðahús en minningarskjöldur um Hafliða hangir á vegg í húsinu. Húsið verður merkt nafni sínu að utan þegar færi gefst.
Fjölskylda Hafliðu heitins var boðið vestur og var hún viðstödd vígsluna.
Anna bendir á að eldri húsin í Stykkishólmi heiti mörg hver nöfnum sem tengjast mannanöfnum. Nafngiftin falli því afar vel að þeirri menningu í Stykkishólmi – auk þess sem húsið smellpassi í götumyndina. Húsið stendur við aðalgötu bæjarins.
„Húsið er stórt og bjart og stendur hérna í hjarta bæjarins,“ segir Anna, sem býr í Stykkishólmi. „Það var byggt og hannað af Hólmurum,“ bendir hún á og bætir við að húsið prýði veggmyndir og kort sem eru af svæðinu. Hún býr sjálf að góðu myndasafni af Snæfellsnesi. Á vegg í húsinu má meðal annars virða fyrir sér ævagamalt kort af Stykkishólmi. Anna valdi skrautmuni hússins og húsgögn af kostgæfni.
Við húsið eru bæðir heitur og kaldur pottur og stór verönd. Óhætt er að segja að húsið hafi þegar vakið athygli en síðastliðinn fimmtudag var haldið opið hús fyrir heimamenn. Anna segir að heimafólk hafi streymt að, til að skoða húsið, í tvær klukkustundir. „Það var mjög gaman að fá að sýna heimafólki húsið,“ segir hún og bætir við að það hafi verið mjög hrifið.
Húsið býður upp á góða stemmningu og notalegar samverustundir vinahópa eða fjölskyldna. Húsið er mjög rúmgott og í því eru fjögur svefnherbergi. Það eru svefnstæði fyrir átta fullorðna, auk barnarúma. Baðherbergi eru á báðum hæðum. „Þetta er eitt af stærri húsunum okkar og verður eflaust mjög vinsælt. Ég hef heyrt að það sé þegar bókað til áramóta,“ segir Anna og bætir við að í Hólminn sé aðeins tveggja tíma akstur frá höfuðborginni. „Og er hér ekkert lúsmý – að minnsta kosti ekki enn,“ segir hún og hlær.
RSÍ óskar félagsfólki til hamingju með Hafliðahús.