
Niðurstöður launakönnunar RSÍ 2025
Niðurstöður launakönnunar Gallup fyrir Rafiðnaðarsamband Íslands liggja fyrir. Könnunin stóð yfir dagana 10. október til 3. nóvember 2025. Um var að ræða netkönnun. Úrtakið var 6.357 manns úr félagaskrá RSÍ. Svörin voru 1.625 og svarhlutfallið því 25,6%. Svörin voru ívið fleiri en í fyrra. Athugið að hér fyrir neðan er aðeins farið yfir nokkur atriði könnunarinnar. Hlekk á niðurstöðurnar í heild má sjá neðst í fréttinni.
Heildarlaun yfir milljón að jafnaði
Í niðurstöðunum kemur fram að grunnlaun hækkuðu að jafnaði um 5% frá því í fyrra. Meðaltalið var 876 þúsund krónur, samanborið við 831 þúsund árið áður. Þar af voru ríflega 54% svarenda með hærri laun en 800 þúsund krónur á mánuði í september.
Þegar heildarlaun eru skoðuð sést að þau voru að jafnaði 1.060 þúsund krónur, eða rúm milljón á mánuði, í september. Þegar heildarlaunum er deilt á vinnustundir sést að félagar RSÍ hafa að jafnaði 6.014 krónur á tímann.
Séu laun skoðuð eftir aðildarfélögum RSÍ kemur fram að félagar í Félagi rafeindavirkja eru með hæstu launin að meðaltali, 931 þúsund krónur á mánuði. Launin voru annars hæst í raforkuframleiðslu eða – flutningum en lægst í prentun, hönnun og auglýsingagerð.
Rafvirkjar vinna lengst
Fram kemur að rafvirkjar vinna lengstan vinnutíma starfsstétta innan RSÍ eða 184 stundir að jafnaði á mánuði. Sérfræðingar vinna skemmstan tíma, 173 stundir. Í kvikmyndaiðnaði var vinnutíminn lengstur, 192 stundir. Karlar vinna að jafnaði 180 stundir en konur 171.
Um helmingur þátttakenda í könnuninni fær mat niðurgreiddan en 46% fær símakostnað greiddan. 44% fær farsíma frá fyrirtækinu en 36% fartölvu.
Ánægja með laun stendur í stað á milli ára. Stjórnendur eru ánægðastir starfsstétta en rafeindavirkjar óánægðastir þrátt fyrir að hafa hæstu launin. Mest ánægja er í heildsölu, upplýsingatækni og öryggis- og eftirlitsþjónustu en óánægjan er mest í kvikmyndaiðnaði og prentiðn. Stjórnendur og fólk í kvikmyndaiðnaði var líklegast til að svara þeirri fullyrðingu neitandi að gott jafnvægi væri á milli vinnu og einkalífs.
Einelti og áreitni
Í könnuninni var spurt um ýmis mál sem snúa að starfsumhverfi. Þar kemur meðal annars fram að 5% þátttakenda sem tala íslensku telja sig hafa orðið fyrir einelti í vinnunni á síðustu 12 mánuðum en 9% þeirra sem svöruðu á ensku. Í fyrra töldu 14% þeirra sem svöruðu á ensku sig hafa orðið fyrir einelti síðastliðna 12 mánuði.
Fimm prósent kvenna telur sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í vinnunni síðustu 12 mánuði en 1% karla. 8% kvenna á aldrinum 18-34 ára segjast hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni síðustu 12 mánuði.
Færri hafa fjárhagsáhyggjur
Í könnunni var spurt um fjárhagsstöðu og húsnæðismál. Færri hafa miklar fjárhagsáhyggjur árið 2025, samanborið við árið í fyrra, 24% núna á móti 31% þá. Ungt fólk hefur meiri áhyggjur en það fólk sem eldra er. 55% þátttakenda hafa átt í erfiðleikum með að standa skil á afborgunum af lánum en 43% hafa leitað sér aðstoðar vegna fjárhagsstöðu sinnar. Fólk sem svarar á ensku hefur meiri fjárhagsáhyggjur en fólk sem svarar á íslensku.
Hægt er að fara á Mælaborð RSÍ, þar sem fólk getur meðal annars borið saman laun sín við meðaltöl í sínum greinum.
