„Ég væri til í að vera formaður sem heyrist svolítið í og stígur inn í málefnin af einhverri þyngd og dýpt. Á sama tíma hef ég lítinn áhuga á átakaferli – ef hægt er að vinna öðruvísi úr málunum,“ segir Jakob Tryggvason, nýr formaður RSÍ, spurður hvernig formaður hann vilji vera. Jakob var kjörinn á aukaþingi RSÍ 27. febrúar. Til þingsins var boðað vegna afsagnar Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, sem tók sæti á Alþingi í upphafi árs.

Jakob hefur að sögn nýtt fyrstu vikurnar í starfi til að ræða við fólk og mynda tengsl. Það fylgi flestum nýjum störfum. Að öðru leyti hafi vinnan ekki verið mjög frábrugðin fyrra starfi en Jakob hefur verið formaður Félags tæknifólks allar götur frá árinu 2007. Þar af hefur hann frá 2019 gegnt hlutverkinu í fullu starfi.

„Maður hefur verið í réttinda- og hagsmunagæslu allan þennan tíma. Þetta hafa verið mikil textaskrif og mörg samtöl. Ég sé ekki fyrir mér að breyting verði á því í þessu starfi – þó maður færi sig inn á aðeins stærra svið og verkefnunum fjölgi. Nú þarf maður að hafa augun á fleiri starfsgreinum og hafa samskipti við enn fleira fólk. Verkefnið bara stækkar og hópurinn sem maður vinnur með verður stærri.“

Ólíkir hópar

Víglínan hefur að sögn Jakobs verið nokkuð skýr þegar kemur að hagsmunagæslu fyrir þessar klassísku iðngreinar. Hann hafi í hlutverki formanns Félags tæknifólks verið að hrærast í hinum greinunum; greinum sem eru að myndast og verða til. Þar sé meiri sveigjanleiki og svigrúm til breytinga en að sama skapi þörf fyrir rammann sem hinar hefðbundnu greinar njóti. „Ég held reyndar að báðir þessir skólar innan RSÍ eigi að geta grætt á hinum og nú er það verkefnið,“ segir hann.

Bára Laxdal Halldórsdóttir ritari, Andri Reyr Haraldsson, varaformaður, Jakob Tryggvason formaður og Finnur Víkingsson, gjaldkeri (nýkjörinn). Myndin var tekin að afstöðnu aukaþingi RSÍ.

„Innan okkar raða eru bæði hópar sem eru skýrir og vel skilgreindir og hafa til að bera mikla félagsvitund – þeir vita hvar þeir standa og hverjum þeir tilheyra. Aðrir hópar eru nýrri og óskilgreindari. Innan RSÍ er sambland af þessu öllu. En verkefnin eru þau að vera í senn hagsmunasamtök og sinna réttindavörslu gagnvart þessum hópum en á sama tíma veita félagfólki almenna þjónustu stéttarfélaga. Inn í þetta spila svo stórar persónur og karakterar, sem eru til dæmis formenn þessara aðildarfélaga,“ segir Jakob.

Mikilvægt að skilja

Jakob segist leggja mikið kapp á að taka ekki ágreiningi, sem óhjákvæmilega getur skapast innan stórs sambands ólíkra hópa, persónulega. „Ég hef velt þessu mikið fyrir mér og reynt að líta aldrei á ágreining um málefni sem persónulegar árásir. Þetta snýst oft um sögu, stolt og hagsmuni og byggir á því að fólk kemur úr mismunandi geirum,“ segir hann og bætir við að vissulega geti verið flókið að koma hlutunum saman þannig að allir verði ánægðir.

„En þegar maður tekur hlutunum ekki persónulega og ber virðingu fyrir sjónarmiðum fólks þá eru manni allir vegir færir. Upp geta komið mál þar sem fólk er ósammála en í þeim tilfellum þurfa skilaboðin frá stjórn að vera skýr. Það er aldrei hægt að halda öllum góðum en það er mikilvægt að bera virðingu fyrir afstöðu fólks. Það er yfirleitt hægt að leysa ágreining án þess að fara í átök. Ég vil geta sagt við fólk: „Ég heyri að þú ert ósammála og við þurfum að finna út hvernig við getum unnið með það.“ Ég vil nálgast það þannig en ekki fara út í horn og hætta að tala saman.“

Jakob er maður diplómatískra leiða en tekur fram að boxhanskarnir séu svo sannarlega í verkfærakistunni ef á þarf að halda, til dæmis í kjaraviðræðum. Aðrar leiðir séu hins vegar framar í forgangsröðinni.

Jakob segir að þeir Kristján Þórður hafi alltaf unnið vel saman, þó ólíkir séu. Hann taki við góðu búi af Kristjáni.

Breytingafasinn að baki

RSÍ hefur undanfarin ár unnið þétt með VM og MATVÍS á vettvangi Fagfélaganna en nýverið sagði Byggiðn upp samstarfssamningi við Fagfélögin. Eftir standa því þrjú öflug félög sem vinna náið saman. Jakob segir að þrátt fyrir þá hnökra sem upp hafa komið frá því Fagfélögin voru stofnuð – upphaflega voru Samiðn og FIT líka í samstarfinu – hafi ákveðnum árangri verið náð. Samstarfið hafi reynst mjög verðmætt – ekki síst við samningaborðið í kjaraviðræðum.

„Við vitum af málum sem þarf að stíga betur inn í. Reynslan hefur kennt mér að þau geta orðið að ágreiningi ef maður fer ekki rétt inn í það samtal. Það er mikilvægt að láta ekki minni háttar ágreining stöðva sig í þessari vegferð. Mér finnst við núna vera að sjá til lands í þessum fyrsta fasa í uppbyggingu Fagfélaganna. Núna þurfum við að fara að ná fram framleiðninni og hagræðingunni sem getur fylgt samstarfi eins og þessu. Það er mikilvægt að við áttum okkur á hvernig við viljum standa að rekstri Fagfélaganna frá degi til dags. Breytingafasinn er að baki finnst mér.“

Fagfélögin prófsteinn

Jakob er á því að iðn- og tæknifélögin eigi áfram að vinna að því að auka samvinnuna og því sé mikilvægt að menn hætti ekki að tala saman. Enn fremur sé mikilvægt að festast ekki í því að tala bara um „iðnaðarmenn“ þegar að þessu samstarfi kemur enda sé vinnumarkaðurinn síbreytilegur og hættan sé sú að hópar verði skildir eftir þegar eitt hugtak er notað. Ýmsar starfsgreinar í dag passi ekki við gömlu skilgreiningarnar á borð við „skrifstofufólk, iðnaðarmenn, verkafólk eða háskólafólk“. „Það er mikilvægt fyrir allar þessar greinar að samstarfið á milli félaga sé gott. Fagfélögin eru að mínu viti góður prófsteinn á svona samvinnu.“

Breyttur vinnumarkaður, hagnýting erlends vinnuafls og menntamál eru á meðal stærstu áskorana sem við nýjum formanni RSÍ blasa að mati Jakobs. Honum eru hins vegar öryggismálin sérstaklega hugleikin. „Það er í mínum huga gargandi augljóst að við þurfum að taka vel á þeim. Það er gott mál að vera með eftirlitið á hreinu og starfrækja nefndir en við þurfum líka að vinna að fræðsluþættinum, staðfestingu réttinda og skilgreina hver ber ábyrgð þegar óhöpp verða á vinnustöðum. Það er mjög margt annað sem við þurfum að takast á við, gagnvart félagsfólki, en að fá ranga launaseðla leiðrétta – þótt það sé líka mikilvægt,“ útskýrir Jakob og bætir við að á þessum sviðum sé mikil jarðvegsvinna og lobbýismi fram undan.

Mynd frá fyrsta miðstjórnarfundi RSÍ þar sem Jakob er formaður. Fundurinn var 20. mars sl.

Nýr formaður FTF kjörinn

Ragnar Gunnarsson, varaformaður Félags tæknifólks, hefur verið starfandi formaður félagsins eftir að Jakob var kjörinn formaður RSÍ. Í vikunni verður kosið á milli þriggja frambjóðenda sem sækjast eftir formannsembættinu í félaginu sem Jakob hefur stýrt um langa hríð.

Jakob segist munu kveðja Félag tæknifólks með söknuði, þótt hann fari ekki langt. „Ég byrjaði þarna árið 2007, þegar ég var trúnaðarmaður hjá Borgarleikhúsinu. Þetta þróaðist frá því að hafa einhver svolítil afskipti af kjaramálum yfir í að starfa í fullu starfi í félagi sem stendur frammi fyrir sameiningum og miklum breytingum. Fyrir vikið hefur félagið orðið sem barnið manns. Ég verð hins vegar að segja að það gladdi mig mjög að finna hversu vel stjórnin steig inn þegar ég var kjörinn formaður RSÍ. Það gerir aðskilnaðinn auðveldari og betri þegar maður finnur að félagið er í góðum höndum,“ segir Jakob sem mun kveðja félagið með söknuði. Hann standi svo frammi fyrir því að þurfa að skilgreina hvort tiltekin verkefni, sem hafa verið á hans könnu, eigi heima hjá Félagi tæknifólks eða Rafiðnaðarsambandinu. „Það er ákveðin hugræn tiltekt sem þarf að eiga sér stað hjá mér,“ segir hann og hlær.

Ólíkir formenn

Jakob segist hins vegar taka við góðu búi af Kristjáni Þórði, sem hafi haft mikla yfirsýn og rækt sitt starf af mikilli nákvæmni. „Það munu að sjálfsögðu fylgja mér einhverjar áherslubreytingar. Kristján gerði sumt á annan hátt en ég hefði viljað – sem er bara eðlilegt. Nú er Sigrún [Sigurðardóttir] líka orðin framkvæmdastjóri. Það er breyting frá því sem var í tíð Kristjáns og felur í sér aðra verkaskiptingu og breytingu á strúktúr. Ég átti mjög gott samstarf við Kristján alla tíð. Ég held ég sé ekkert að hallmæla honum þegar ég segi að hann hafi verið mun ferkantaðri en ég – enda er það öllum ljóst sem unnið hafa með okkur. Annar okkar var mjög nákvæmur og vandvirkur á meðan ég var oft með stóru hugmyndirnar og þeyttist á milli fólks með kaffibollann. Ég held það henti mér mjög vel að hafa framkvæmdastjóra mér við hlið í þessu starfi.“

Jakob segir að hann fari út í nýtt starf með dass af óvissu í farteskinu. „Ég er gríðarlega spenntur fyrir framhaldinu og þakklátur fyrir þann stuðning sem ég fékk á þinginu. Eina eftirsjáin þar er kannski hve mikill karlaklúbbur þetta var sem var í framboði. Það er ágætt að velta því fyrir sér inn í þetta kvennaár, sem nú er hafið,“ segir formaðurinn að lokum.

Myndir: Sigtryggur Ari