Jakob Tryggvason er nýr formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Hann hlaut 72,9% greiddra atkvæða á aukaþingi RSÍ sem fram fór í Gullhömrum í Grafarholti í dag. Ágúst Hilmarsson, sem einnig var í framboði fékk 25,4% atkvæða til formanns.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, sem tók sæti á Alþingi á dögunum, hefur því látið af störfum sem formaður. Hann gegndi formennsku í um 14 ár.
Margrét Halldóra Arnarsdóttir hafði gefið kost á sér til formanns en tilkynnt var í upphafi þingsins um að hún hefði dregið framboð sitt til baka.
Jakob hlaut standandi lófaklapp þegar forseti þingsins, Georg Páll Skúlason, las upp úrslitin.
Í stuttu ávarpi þakkaði Jakob þinginu fyrir stuðninginn og hvatti til samstöðu. „Ég heiti því að gera mitt allra besta í starfi sem formaður Rafiðnaðarsambands Íslands,“ sagði Jakob.
Við kjör Jakobs losnaði staða gjaldkera RSÍ. Tveir félagsmenn, þeir Eiríkur Jónsson og Finnur Víkingsson gáfu kost á sér til embættisins.
Svo fór að Finnur hafði betur með 61,4% greiddra atkvæða og er þannig nýr gjaldkerfi sambandsins.
Næsta þing sambandsins er eftir tvö ár.
- Ritari, varaformaður, formaður og gjaldkeri.
- Finnur var kjörinn gjaldkeri RSÍ.
- Eiríkur Jónsson gaf kost á sér til embættis gjaldkera.
- Ágúst Hilmarsson kynnti sig og framboð sitt.
- Formannsframbjóðendurnir ræða saman á þinginu.
- Jakob Tryggvason, nýr formaður.
- Jakob, þegar úrslitin lágu fyrir.
- Samhentir þingfulltrúar.
- Georg Páll Skúlason var forseti þingsins.
- Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni voru færðar gjafir fyrir framlag sitt til sambandsins.
- Halldór Oddsson bar þinginu kveðjur frá Finnbirni Hermannssyni, forseta ASÍ.
- Formaður VM, Guðmundur Helgi Þórarinsson, var á meðal gesta.
- Andri Reyr Haraldsson.